Náms- og starfsráðgjöf fyrir innflytjendur

Guðrún Vala Elísdóttir

Náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna hefur verið í boði hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi frá árinu 2006, ráðþegum að kostnaðarlausu. Margir hafa nýtt sér þessa þjónustu í gegnum árin, en ráðgjöfin er fyrst og fremst ætluð markhópnum í framhaldsfræðslu þ.e. þeim sem eru 18 ára og hafa ekki lokið formlegu námi. Hjá Símenntunarmiðstöðinni hefur áhersla verið lögð á að ná til fjölbreyttra hópa fólks og ekki síður til innflytjenda.

Íbúar með erlent ríkisfang hérlendis voru 46.720 á síðasta ársfjórðungi, eða alls 12,9% af mannfjöldanum. Fyrir einu ári voru þeir 11,7% á landsvísu og hér á Vesturlandi eru innflytjendur núna 12,1% af íbúum. Þessar tölur segja þó ekki allt því til þeirra teljast ekki þeir sem hafa nú þegar fengið íslenskan ríkisborgararétt en eru sannarlega innflytjendur, auk þess sem opinber skráning nær ekki alltaf utan um alla. Af þessu má sjá að innflytjendum fjölgar og samfélag okkar er langt frá því að vera einsleitt lengur.

En hvers vegna ættu innflytjendur að þurfa náms- og starfsráðgjöf?  Ástæðurnar geta verið margar, rétt eins og hjá öðrum, en hér má m.a. nefna að þá skortir oft mikilvægar upplýsingar, eiga lítið tengslanet, þeir þekkja ekki skólakerfið hér eða menntunarmöguleika, þeir standa gjarnan höllum fæti í atvinnulífinu og hafa ekki réttindi og skyldur á hreinu. Þeir þurfa stundum hjálp við að gera ferilskrá á íslensku, aðstoð við atvinnuleit, sem og stuðning við að fá fyrra nám og reynslu metna. Jafnframt þurfa þeir gjarnan hvatningu og stuðning í námi og starfi og upplýsingar um styrkjamöguleika.

Í eigindlegri rannsókn sem gerð var 2010 um aðgengi innflytjenda með starfsmenntun að íslenskum vinnumarkaði, voru helstu niðurstöður þær að náms- og starfsráðgjöf „getur hjálpað innflytjendum við að skilja betur baráttuna og ergelsið sem fylgir menningarlegu áfalli og einnig getur hún lagt áherslu á þýðingu þess að læra tungumálið í nýja heimalandinu. Rannsóknin sýnir mikilvægi þess að hjálpa innflytjendum í gegnum ferlið við að staðfesta réttindi sín og liðsinna þeim við atvinnuleit“ (Renner, 2010). Rannsóknin staðfesti þannig mikilvægi náms- og starfsráðgjafar til handa innflytjendum á Íslandi.

Hjá Símenntunarmiðstöðinni hafa innflytjendur verið vaxandi hópur ráðþega í náms- og starfsráðgjöf. Árið 2016 voru viðtöl við innflytjendur 30% af heildarviðtölum, 38% árið 2017 og 39% á síðasta ári. Flestir ráðþegar eru Pólverjar, en aðrir af u.þ.b. 20 – 25 þjóðernum. Til að nálgast þá hefur þjónustan verið kynnt á námskeiðum á okkar vegum og í heimsóknum í fyrirtæki á Vesturlandi. Við höfum ennfremur átt gott samstarf við Vinnumálastofnun og Rauða kross deildir á Vesturlandi. Síðan en ekki síst hafa innflytjendur frétt af ráðgjöfinni í gegnum aðra og í gegnum kunningsskap. Ráðgjöfin fer oftast fram á ensku þar sem ráðþegar eru af mismunandi þjóðerni og íslenska yfirleitt ekki fyrsti kostur. Í einhverjum tilvikum fer ráðgjöfin fram á „einfaldri pólsku“ en kunnátta ráðgjafa í pólsku er nægileg fyrir stöðluð viðtöl og upplýsingar. Þá eru orðabækur og „google-translate” gagnleg hjálpartæki sem og myndir og teikningar. Stundum kemur þriðji aðili með í viðtalið t.d. vinur eða vinkona sem kann meiri ensku eða íslensku en viðkomandi og í einstaka tilfelli er túlkur til staðar.

Það er mikilvægt að muna í sem flestum aðstæðum að innflytjendur eru ekki einn hópur heldur ólíkir einstaklingar, úr mismunandi menningarheimum, með ólíkan uppruna, bakgrunn, reynslu, menntun, trú, skoðanir o.fl. Stundum eiga þeir það eina sameiginlegt að vera útlendingar í nýju landi og tveir einstaklingar frá sama landinu geta verið ólíkari en tveir einstaklingar frá sitthvoru landinu. Þess vegna er öll ráðgjöf einstaklingsmiðuð, og sama þjónusta veitt og með íslenskum ráðþegum s.s. aðstoð við starfsleit, ferilskrárgerð, upplýsingar um nám, raunfærnimat, persónuleg ráðgjöf, o.fl. Til viðbótar eru gjarnan meiri upplýsingar veittar – t.d. vegna mats á fyrri menntun, upplýsingar um íslenskupróf vegna ríkisborgararéttar, stöðumat í íslensku, fræðsla um atvinnulíf, réttindi og skyldur, tilvísanir áfram ef þarf til annarra sérfræðinga o.fl.

Þó að innflytjendur séu ólíkir einstaklingar er samt sem áður áríðandi að skilja menningarlegan bakgrunn fólks. Margar skilgreiningar eru til á menningu, en ein er þannig: „Menning er samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.“ (UNESCO, 2002). Fyrir ráðgjafa er gott að þekkja ákveðin sammenningarleg einkenni hópa þannig að menningarfærni sé höfð að leiðarljósi í samskiptum.

Reynslan af ráðgjöf við innflytjendur hefur almennt verið jákvæð, en við höfum séð fólk ná alls konar árangri eftir náms- og starfsráðgjöf t.d. að fá löggilt starfsréttindi. Við höfum upplifað að fólk fer í raunfærnimat, nám, fær betri störf eða færist til í starfi, verður öruggara og jákvæðara gagnvart því að læra íslensku. Fólk treystir okkur og er ánægt með að geta fengið ráðgjöf sem er ekki háð opinberri stofnun.

Fjöldi innflytjenda mun halda áfram að aukast á Íslandi og þ.a.l. mun ráðþegum af erlendum uppruna fjölga. Miðað við rannsóknir, reynslu okkar og ávinning innflytjenda af ráðgjöf viljum við hvetja atvinnurekendur og alla þá sem telja að náms- og starfsráðgjöf geti gagnast þeim, að hringja eða senda okkur línu og óska eftir viðtali. Þjónustan fer fram um allt Vesturland og er ókeypis. S. 437-2391 og tölvupóstur: vala@simenntun.is

 

Guðrún Vala Elísdóttir.

Höf. er náms- og starfsráðgjafi hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi.

Heimildir:

Renner, M.E. (2010). WE WANT TO CONTRIBUTE TOO The narrative experience of immigrants with career qualifications and their acceptance into the Icelandic labor market (óútgefin meistararitgerð). Sótt af https://skemman.is/handle/1946/4198

http://www.unesco.org/education/imld_2002/unversal_decla.shtml

Fleiri aðsendar greinar