Mótum framtíð Vesturlands í sameiningu

Páll S Brynjarsson

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi munu standa fyrir áhugaverðu íbúaþingi mánudaginn 6. maí 2019 undir yfirskriftinni Mótum framtíð Vesturlands í sameiningu.  Þingið fer fram í Hjálmakletti í Borgarnesi og hefst kl. 13.00 og mun standa til kl. 17.00.

Markmiðið með þinginu er að fá íbúa á Vesturlandi til að koma saman, skiptast á skoðunum og hugmyndum um hvernig þeir vilja sjá Vesturland þróast. Þátttakendur munu móta framtíðarsýn, markmið og tillögur að aðgerðum sem verða leiðarljós fyrir Sóknaráætlun Vesturlands fyrir árin 2020 til og með 2024.  Auk þess mun afrakstur íbúaþingsins nýtast við vinnu við sviðsmyndagerð um þróun atvinnulífs á Vesturlandi.

Við lifum á tímum breytinga og erum að sigla inn í fjórðu iðnbyltinguna, þar sem atvinnulíf breytist hratt og menntun þarf að vera í takt við tímann.  Á sama tíma gerum við kröfur um meiri og og betri þjónustu, við viljum hafa tækifæri til afþreyingar og njóta menningar og við viljum vernda umhverfið og ganga ekki á einstök lífsgæði. Við viljum góðar samgöngur og nettengingar þannig að allur heimurinn sé í seilingarfjarlægð. Allt þetta viljum við að Vesturlandi hafi upp á að bjóða þannig að hér verði gott að búa, áhugavert að starfa og hingað vilji ört vaxandi hópur ferðamanna heimsækja okkur.  En hvernig getum við gert þetta að veruleika?

Ein af þeim leiðum sem við höfum eru sóknaráætlanir landshluta sem hafa verið innleiddar á undanförnum árum og eru n.k. byggðaáætlanir sem byggja á forsendum heimamanna.  Heimamenn fá vald, fjármagn og ábyrgð frá ríkisvaldinu til þess að búa til og fylgja eftir sérstakri sóknaráætlun. Sóknaráætlanir hafa verið að þróast sem farvegur til að efla byggð og bæta samfélag. Þær hafa falist í því að heimamenn móta stefnu, þar sem framtíðarsýn, markmið og aðgerðaráætlun er skýr. Á grunni þessarar aðgerðaráætlunar eru búin til áhersluverkefnin sem er önnur af tveimur leiðum til að hrinda stefnu sóknaráætlunar í framkvæmd. Hin leiðin felst í því að starfræktur er Uppbyggingarsjóður Vesturlands sem veitir styrki til menningarmála og nýsköpunar í atvinnulífi.

Sóknaráætlun Vesturlands sem er í gildi fyrir árin 2015 til 2019 hefur komið að ýmsum verkefnum. Áhersluverkefni hafa snúist um að efla nýsköpun og aðstöðu fyrir frumkvöðla, hvetja ungt fólk til að stunda verk- og tækninám, styðja við markaðssetningu á Vesturlandi til ferðamanna, styðja við nýsköpun í matvælaframleiðslu, móta menningarstefnu fyrir Vesturland og styðja við aukið samstarf og markaðssetningu safna í landshlutanum svo fátt eitt sé talið.  Uppbyggingarsjóður Vesturlands hefur varið tæplega 300 milljónum til stuðnings við afar fjölbreytt verkefni. Þar má nefna starfsemi kóra, uppsetningu leiksýninga, tónleika, listsýninga, kvikmyndahátíðir, starfsemi setra og safna, ræktun silkiorma, hönnun og smíði á þangskurðarpramma, framleiðslu á lífrænni mjólk, merkingar á göngustígum, ostrurækt, þróun á veiðum og vinnslu á grjótkrabba, framleiðsla á ís, stofnun á hestaleigu, markaðssetning á matvöru og áfram mætti lengi telja.

Nú er komið að því að móta nýja sóknaráætlun, verum með og tökum þátt. Það er leiðin til þess að hafa áhrif á hvernig Vesturland þróast. Við bjóðum Vestlendinga velkomna á íbúaþingið í Hjálmakletti 6 maí næstkomandi.

 

Páll S Brynjarsson

Höf. er framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi