„Minni yfirbyggingu í fjarskiptabransanum“

Reynir Eyvindsson

Mér datt í hug um daginn þegar ég var að hugsa um kvótakerfið, ef ákveðið væri að minnka yfirbygginguna í fjarskiptageiranum og takmarka fjölda fjarskiptaverkfræðinga. Það væri búin til regla: Þeir sem hefðu verið fjarskiptaverkfræðingar síðustu þrjú árin fengju að vera það áfram, en það ætti ekki að fjölga í stéttinni. Það væri orðið of dýrt fyrir neytendur að halda uppi öllum þessum tæknimönnum. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé gáfulegt, en segjum bara að þetta yrði gert. Svo væri líka hægt að leigja réttinn frá sér. Þá væri ég nú aldeilis í fínni stöðu. Ég gæti hætt að vinna og selt réttinn til hans Stefáns sem vinnur með mér, eða hennar Ólafíu. Þau eru nýbyrjuð og hefðu lítinn rétt.  Svo gæti ég bara slappað af og látið þau vinna fyrir mig.

 

Öfundarraddir

Ég er reyndar hræddur um að fljótlega færi fólk að tala um óréttlæti. Vilja láta mig borga fyrir þessi réttindi og þætti helst eðlilegt að ég, Stefán og Ólafía borguðum öll jafnt. En segjum nú að ég stofnaði stjórnmálaflokk, sem hefði m.a. það að markmiði að viðhalda þessu kerfi. Og segjum nú líka að fólk myndi kjósa þennan flokk. Jafnvel að þetta væri stærsti stjórnmálaflokkurinn í landinu. Hvað væri þá hægt að segja um þessa þjóð?  Myndu ekki aðrar þjóðir hrista hausinn yfir þessum fávitum?

 

Fiskveiðistjórnunarkerfið

En svona er fiskveiðistjórnunarkerfið á Íslandi. Við eigum svona stjórnmálaflokk.  Hann heitir Sjálfstæðisflokkurinn. Ég hvet nú þau 22% sem eru eftir af sjálfstæðismönnum að vakna. Spáið í hvað þetta er vitlaust. Kjósið bara einhvern annan. Það vill enginn kommúnisma, ja kannse Alþýðufylkingin, en enginn af stóru stjórnmálaflokkunum (þeim sem mælast yfir 5%). Gerum nú einu sinni eitthvað í þessu máli. Ég veit vel að Stefán og Ólafía geta séð um fjarskiptamálin alveg eins og ég, þó ég hafi staðið mig alveg ágætlega. Á sama hátt munu byggðir landsins EKKI leggjast af þó einhverjir í útgerðaraðlinum núverandi hætti. Við þurfum að velja réttlæti í næstu kosningum. Það er líka svo hagstætt fyrir okkar sameiginlegu sjóði.

 

Kveðja, Reynir Eyvindsson, Akranesi.

Höf. er á lista VG í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar