Minna kjaftæði – meiri skóg!

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Í kjölfar Parísarsamkomulagsins 2015 setti Ísland sér metnaðarfull markmið um 40% samdrátt í nettólosun gróðurhúsaloftegunda fyrir árið 2030. Núverandi ríkisstjórn bætti um betur og auk áðurnefnds samdráttar er stefnt að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040.

Er kolefnishlutlaust Ísland raunhæft markmið og ef svo er, hvað þarf þá að gera? Ljóst er að draga þarf úr losun með öllum tiltækum ráðum en til þess að gera Ísland kolefnishlutlaust er ekki síður mikilvægt að binda kolefni í gróðri og jarðvegi.

Nýskógrækt, eða ræktun skóga á skóglausu landi, er viðurkennd aðferð til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda með bindingu koltvíoxíðs (CO2) úr andrúmslofti. Svo hefur verið frá upphafi í umræðum og í alþjóðasamningum um loftslagsmál.  Ísland býr yfir einstökum tækifærum til að binda koltvíoxíð með skógrækt og landgræðslu.

Segjum sem svo að sú ákvörðun yrði tekin að auka framlög til skógræktar verulega og fjórfalda framkvæmdir í skógrækt á næstu árum. Ef horft er til baka má reyndar segja að fjórföldun sé í raun ekki nema tvöföldun miðað við árlegar gróðursetningar árin fyrir hrun. Raunin er nefnilega sú að framlög til nýskógræktar hafa dregist saman svo um munar. En með fjórföldun frá því sem nú er væri hægt að binda tæp 600 þúsund tonn af CO2 á ári um miðja öldina til viðbótar við það sem yrði að óbreyttu.

Til þess að þetta sé gerlegt þá þarf eftirfarandi: land til að rækta skóg á, gróðrarstöðvar til að framleiða plöntur, vinnufúsar hendur, „dass“ af þolinmæði og „bunch of money“.

Nú liggja fyrir ríflega 620 þinglýstir samningar um nytjaskógrækt á lögbýlum og er samningsbundið land um 54 þúsund hektarar. Af þeim er búið að gróðursetja í um 26 þúsund hektara. Aðsókn í verkefni sem þetta er mikil en á síðasta ári var tekið á móti um 40 nýjum umsóknum. Því er ljóst að á árinu 2018 mun enn bætast við samningsbundið land til skógræktar. Auk nytjaskógræktar á lögbýlum eru fjölmörg svæði tilbúin til skógræktar innan landa Skógræktarinnar, skógræktarfélaganna og samstarfsverkefna Skógræktarinnar og Landgræðslu ríkisins. Má þar nefna sem dæmi athafnasvæði Hekluskóga sem eru tugir þúsunda hektara. Það er því ljóst að skortur á landi stendur ekki í veginum fyrir fjórföldun nýskógræktar og bindingu CO2.

Þegar gróðursetningar voru hvað mestar á Íslandi, á árunum fyrir hrun, þá voru gróðursettar um 6 milljónir plantna árlega. Plöntuframleiðendur voru á annan tug talsins og mikil þekking varð til auk aðstöðu og búnaðar. Nú er öldin önnur. Það er áhyggjuefni að á síðustu árum hafa fjölmargir plöntuframleiðendur helst úr lestinni vegna samdráttar í greininni. Þetta hefur haft í för með sér að þekking í skógarplöntuframleiðslu er að glatast og nýliðun er engin enda „bransinn“ ekki fýsilegur þegar ekki er öruggt að aukið verði í nýskógrækt. Þær gróðrarstöðvar sem enn eru starfandi geta framleitt það magn af plöntum sem verið er að gróðursetja í dag án þess að fara út í frekari fjárfestingar. Enn þá er aðstaða og þekking til staðar víðs vegar um land en ljóst að frekari samdráttur í framleiðslu skógarplantna muni fara langt með að ganga af þessari grein dauðri. Því fyrr sem stjórnvöld gefa upp hvort auka eigi nýskógrækt, því líklegra er að skógarplöntuframleiðendur haldi húsunum í rekstri og geti hafið tímanlega undirbúning að því að stækka við sig. Það tekur nefnilega 1-3 ár að framleiða skógarplöntur. Því þarf að liggja fyrir áætlun um aukningu sem staðið verður við, að orðum fylgi gjörðir.

Ekki er nóg að velta eingöngu fyrir sér peningahliðinni og framboði lands til skógræktar. Mannafli er órjúfanlegur hluti af þessu starfi. Í stuttu máli má ætla að um 20,6 ársverk skapist vegna hverrar einnar milljónar gróðursettra plantna. Stór hluti þessara starfa skapast í nágrenni skóganna og ef rétt er á spilum haldið getur skógrækt ekki bara verið mikilvæg leið til bindingar kolefnis, heldur einnig skapað atvinnu í dreifbýli og þannig stuðlað að eflingu byggðar.

Stóra málið er að með aukningu skógræktar erum við að byggja upp skógarauðlind sem bindur kolefni og skapar störf. Við erum líka að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir því úr öllum þessum skógum koma verðmæti. Um leið og ég óska landsmönnum til hamingju með alþjóðlegan dag skóga 21. mars segi ég: Minna kjaftæði, meiri skóg!

 

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Höf. er sviðsstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar.