Minn leiðtogi

Örn Gunnarsson

Ég var orðinn leiður á stjórnmálum. Fyrir u.þ.b fimm árum síðan fór að heyrast rödd sem vakti athygli mína. Þetta var rödd Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur. Í kjölfar þessa fór ég aðeins að fylgjast með hvað hún var að gera og fyrir hvað hún stóð. Þegar hún tók tímabundið við embætti dómsmálaráðherra stuttu síðar þurfti ég starfi mínu vegna að fylgjast mjög vel með því sem hún var að gera. Síðan þá hef ég verið aðdáandi.

En af hverju er ég aðdáandi? Þórdís er leiðtogi sem hrífur fólk með sér. Hún hefur sterka sýn á það í hvernig landi við viljum búa og hún hefur lyft grettistaki í að færa íbúum þessa lands tækifæri til aukinna lífsgæða óháð búsetu. Þetta eru stór orð en ég ætla að reyna að útskýra þau aðeins.

Málaflokkar þeir sem Þórdís stendur fyrir eru einkum nýsköpun, ferðaþjónusta og iðnaður.

Sem ráðherra nýsköpunarmála hefur Þórdís Kolbrún verðið óhrædd við að taka stórar ákvarðanir. Í fljótu bragði man ég ekki eftir ráðherra á Íslandi sem lagt hefur niður ríkisstofnun og sett peningana í vinnu til fólksins í landinu óháð búsetu.

Með stofnun Kríu, hvatasjóðs til nýsköpunar er lagður grunnur að öflugu nýsköpunarstarfi um land allt. Það er undir okkur íbúum þessa kjördæmis að nýta okkur þetta og snúa byggðarþróun við. Á tímum þegar hefðbundinni þjónustu er skipt út fyrir rafræn samskipti er öflug tækniþróun lífsspursmál fyrir blómlegar byggðir. Ungt fólk þarf í dag ekki að fara til Reykjavíkur til að finna áhugaverð störf heldur getur annað hvort skapað þau sjálft eða sinnt þeim í heimabyggð. Þórdís hefur sýnt hugrekki og framsýni með því að færa okkur tæki til að efla okkar byggðir.

Staða ferðaþjónustunnar er vel þekkt. Á erfiðum tíma þar sem lagst hefur verið á árarnar til þessa að halda þessari mikilvægu atvinnugrein á floti, hefur ráðherra málaflokksins aldrei gleymt því að hugsa til framtíðar. Á þeim tímum sem nú eru að ganga í garð, með von um betra líf fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein, hafa verið kynntar framtíðarhugmyndir um þróun greinarinnar. Það er ekki pissað í skóinn til að safna atkvæðum heldur er hugað að framtíðinni og hvernig við viljum að greinin þróist til framtíðar óháð tímabundnum erfiðleikum. Með þessu hefur ráðherra málaflokksins sýnt staðfestu í ólgusjó.

Það er ekki beinlínis í tísku að tala máli iðnaðarins í dag. Í verkum sínum hefur ráðherra málaflokksins þó sýnt fram á að umhverfismál og iðnaður fara vel saman. Nú nýverið var kynnt verkefni á Grundartanga, sem ráðherra málaflokksins hefur stutt um langt skeið, þar sem saman fara verðmætasköpun, fjöldi starfa og umbætur í umhverfismálum. Í þessum málum eins og svo mörgum öðrum hefur ráðherra málaflokksins verið óhrædd að ganga gegn straumnum og stutt öfluga atvinnuuppbyggingu í kjördæminu í sátt við náttúruna. Án iðnaðar væri kjördæmið okkar fátæklegt og ráðherrann okkar veit það. Hún er trú sínum uppruna og er óhrædd við að styðja við málefni sem falla ekki endilega vel að rétttrúnaðnum í 101 Reykjavík.

Það er gríðarlega mikið af góðu fólki sem er að bjóða sig fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu okkar. Fólki sem hefur unnið gott starf. Það skal engin efast um það. Það er hins vegar bara einn leiðtogi. Þórdísi hefur verið treyst til æðstu starfa á landsvísu fyrir flokkinn þrátt fyrir skamman tíma í sviðsljósinu, af hverju ætti hún ekki að sækjast eftir því í okkar kjördæmi.

Þórdís Kolbrún er minn leiðtogi og leiðtogar leiða lista. Setjum Þórdísi Kolbrúnu í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

 

Örn Gunnarsson