
Mikilvægi stuðnings fyrir einstaklinga með Alzheimer og aðra heilabilunarsjúkdóma
Hafdís, Heiðrún, Laufey og Sigurlaug
Heilabilunarsjúkdómar eins og Alzheimer hafa djúpstæð áhrif á einstaklinga og nánasta umhverfi þeirra. Þegar fólk greinist með heilabilunarsjúkdóma er stuðningur við fjölskylduna nauðsynlegur, bæði fyrir aðilann sjálfan og ekki síður fjölskylduna.
Fólk sem greinist með heilabilun þarf á því að halda að hafa tryggan stuðning. Sá greindi upplifir oftast mikinn kvíða, jafnvel þunglyndi og hefur tilhneigingu til að einangra sig frá umhverfinu. Með stuðningi frá fjölskyldu, vinum og eða stuðningshópum geta einstaklingar fundið til meira öryggis og til að halda áfram að lifa lífi sem er eins eðlilegt og mögulegt er. Þetta felur í sér að taka þátt í athöfnum sem þeir njóta, halda áfram að tengjast öðrum og þróa nýjar leiðir til að tjá sig og skemmta sér.
Fyrir fjölskyldu og aðstandendur getur fræðsla um einkennin verið lykilatriði í að veita viðeigandi stuðning. Að skilja einkenni, framgang sjúkdómsins og hvernig á að bregðast við þeim getur hjálpað til við að draga úr álagi og gera aðstandendur betur í stakk búna til að aðstoða. Einnig þarf að hjálpa einstaklingum að viðhalda sjálfstæði sínu eins lengi og mögulegt er.
Við undirritaðar eru tenglar á Akranesi fyrir Alzheimersamtökin á Íslandi.
Helstu hlutverk tengla eru:
- Að veita upplýsingar um Alzheimersamtökin, hlutverk þeirra og helstu heilabilunarsjúkdóma
- Að veita stuðning og ráðgjöf í sinni heimabyggð
- Að stuðla að því að opna umræðuna um heilabilun
- Að miðla reynslu sinni
- Að tengja saman aðila í nærsamfélaginu eins og t.d. aðstandendur, fólk með heilabilun og fagaðila
- Að veita fræðslu
- Að standa fyrir viðburðum.
Markmið okkar tengla frá upphafi hefur verið að efla starfið á Akranesi með fræðslu og stuðningshópum fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra og einnig að halda reglulega Alzheimerkaffi.
Að taka þátt í stuðningshópi / jafningjastuðningi fyrir einstaklinga með heilabilun, sem og fyrir fjölskyldur með öðrum í svipaðri stöðu er afar dýrmætt. Þannig stuðningsnet getur létt á tilfinningalegu álagi, sérstaklega fyrir aðstandendur.
Að fá stuðning er ekki bara mikilvægt fyrir einstaklinga með Alzheimer og aðra heilabilunarsjúkdóma, heldur og ekki síst fyrir aðstandendur þeirra. Með því að tryggja tilfinningalegan, fræðilegan og hagnýtan stuðning er hægt að bæta lífsgæði og hjálpa öllum að takast á við áskoranir sjúkdómsins. Samvinna, skilningur og stuðningur eru lykilþættir í þessari vegferð.
Alzheimertenglar á Akranesi;
Hafdís Hannesdóttir, Heiðrún Janusardóttir, Laufey Jónsdóttir og Sigurlaug Garðarsdóttir