Metnaðarlítil samgönguáætlun

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Samgöngukerfi okkar Íslendinga hefur mikið látið á sjá síðustu ár og hafa Samtök ferðaþjónustunnar lýst verulegum áhyggjum af bagalegu ástandi samgöngumannvirkja, ekki síst veganna. Ástandið er slæmt á landsvísu, en þó eru landshlutarnir misvel settir í samgöngumálum. Staðan er verst í Norðvesturkjördæmi, einkum á Vestfjörðum og Vesturlandi.

Nýútkominn Hagvísir varpar skýru ljósi á stöðu samgöngumála í Norðvesturkjördæmi, ekki síst á Vesturlandi. Er þar byggt á staðtölum frá Vegagerðinni og skoðanakönnunum meðal íbúa og fyrirtækja á svæðinu um umferð og ástand vega á Vesturlandi. Eins og vænta mátti staðfestir Hagvísirinn að samgöngur hafa sívaxandi þýðingu fyrir byggð og atvinnuþróun á Vesturlandi enda hefur ferðamannafjölgun verið mikill undanfarin ár með þeim umferðarþunga sem henni fylgir. Á sama tíma hefur vegakerfinu hrakað, eins og íbúar og fyritæki á Vesturlandi hafa áþreifanlega orðið vör við.

 

Norðvesturhornið og Vesturland reka lestina

Meðal þess sem Hagvísirinn leiðir í ljós er að Norðurvesturhornið og Vesturland reka lestina þegar kemur að fjölda vega með bundnu slitlagi. Á norðvestanverðu landinu er um þriðjungur vega með bundið slitlag en Vesturland sem er í næstneðsta sæti er með bundið sllitlag á 39% vega innan svæðis. Til samanburðar má nefna að á Suðurnesjum voru 84% vega með bundnu slitlagi árið 2014. Þó hefur umferð frá 1980 aukist hlutfallslega mest til Vesturlands frá árinu 1980 í samanburði við Reykjanes og Suðurland.  Hefur aukningin orðið hlutfallslega mest til Borgarfjarðar, þá Snæfellsness og Akraness en síst til Dalanna. Sem dæmi má nefna að umferð ferðamanna jókst um 40% við Svörtuloft á Snæfellsnesi á milli áranna 2014 og 2015 en um 36% við Hraunfossa í Borgarfirði. Á sama tíma jókst umferðin um 32% í Haukadal við Gullfoss.

Aukinni umferð hefur fylgt vaxandi slysatíðni. Fyrir utan höfuðborgarsvæðið og Suðurnes, þar sem umferð er þyngst, var slysatíðni mest á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra en minnst á Norðurlandi eystra og Suðurlandi. Innan Vesturlands er slysatíðnin hins vegar mest í Dalabyggð sem hefur fimmta hættulegasta vegakerfið meðal íslenskra sveitarfélaga samkvæmt sömu gögnum.

 

Ekkert bólar á Sundabraut né framkvæmdum við Hvalfjarðargöng

Þrátt fyrir þetta hefur Vegagerðin lagt minnst til Vesturlandsvegar af þeim þremur aðalumferðaræðum sem eru til og frá höfuðborgarsvæðinu þ.e. Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut. Er það umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þess hver þróunin hefur verið á þessum vegum undanfarin ár. Breikkun nyrðri hluta Vesturlandsvegar og tvöföldun Hvalfjarðarganga eru löngu tímabærar framkvæmdir, líkt og Sundabrautin í Reykjavík sem þyrfti að verða að veruleika sem fyrst og tengjast samgönguneti Vesturlands.

Í þeirri tillögu að Samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi, en óvíst er hvort verður samþykkt fyrir þinglok, er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til Sundabrautar en rætt um að „skoða kosti þess að gera Sundabraut í einkaframkvæmd“.  Hvalfjarðargöngin eru varla nefnd á nafn í áætluninni, og má þó öllum ljóst vera að þau bera varla meiri umferð en orðin er í núverandi ástandi. Samningur Spalar og ríkisins fer að renna út, en ekki eru greinanleg nein merki um frekari framkvæmdir hvorki af hálfu Spalar né hins opinbera ef marka má fréttir að undanförnu. Það er vitanlega áhyggjuefni í ljósi þess sívaxandi umferðarþunga sem nú þegar er farinn að ganga nærri helstu stofnbrautum að og frá höfuðborginni og um Hvalfjarðargöng.

Ekkert bendir til annars en að ferðamönnum eigi enn eftir að fjölga á næstu árum og umferðin aukast að sama skapi, ekki síst á Vesturlandi. Í því ljósi hlýtur sú tillaga sem nú liggur fyrir að Samgönguáætlun að teljast metnaðarlítið plagg. Það er sjálfstætt áhyggjuefni.

 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, alþingismaður.

Fleiri aðsendar greinar