
Metnaðarfull uppbygging sögustaðarins Ólafsdals
Þorsteinn Bergsson
Rögnvaldur Guðmundsson formaður Ólafsdalsfélagsins setur inn langa grein í Skessuhorn þann 5. þ.m. um uppbyggingu Minjaverndar í Ólafsdal. Greinin er með þeim hætti rituð og orðalagi að oft hefði ekki þótt svaravert. Hún er hins vegar svo full af rangfærslum og öfugmælum að ekki verður hjá komist að leiðrétta. Það er jafnframt svo að af texta mætti ráða að greinarhöfundur hafi átt upphaf að endurbyggingu húsa og staðar í Ólafsdal og heiður allan, en svo er nú ekki.
Ekki þarf hér að rekja merkilega sögu Búnaðarskólans sem Torfi Bjarnason og Guðlaug Zakaríasdóttir ráku í Ólafsdal og lyfti landbúnaði hér upp úr aldalangri stöðnun.

Mynd frá tímum Búnaðarskólans í Ólafsdal.
Upphaf þess að hefja Ólafsdal til vegs og virðingar má a.m.k. rekja til frumkvæðis Sturlaugs Eyjólfssonar bónda á Efri Brunná árið 1994. Hann beitti sér fyrir því að myndaður var hópur í kringum verkefnið og vann að stuðningi af hálfu stjórnvalda. Arkitektarnir Hjörleifur Stefánsson, Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon voru fengnir til að mæla Skólahúsið upp og skiluðu þeir teikningum ásamt greinargerð til Halldórs Blöndal þá landbúnaðarráðherra í desember það ár. Halldór tryggði fjármagn til verkefnisins og var Skólahúsið tekið í gegn að ytra byrði á næstu tveimur árum. Ekki varð hins vegar af frekari vinnu eða mótun framtíðar staðarins fram að aldamótum.
Aðkomu Minjaverndar að uppbyggingu í Ólafsdal má rekja aftur til ársins 2000. Þá höfðu ungar konur, nokkur hópur sem flestar tengdust listum og fræðum, haft samband við Hermann Jóhannesson er starfaði í menntamálaráðuneyti og veitti formennsku í Endurbótasjóði menningarbygginga. Vildu þær fá Skólahúsið til afnota fyrir Maríusetur, fræðasetur kvenna. Hermann ásamt Níels Árna Lund, þá í Landbúnaðarráðuneyti, höfðu samband við Minjavernd með fyrirspurn eða ósk um aðkomu að uppbyggingu. Aðilar áttu fundi, en ekki varð úr. Áhugi af allra hálfu var mikill, en forsendur fundust ekki.
Aðilar héldu sambandi og áttu fundi hvar leitað var leiða, en fjármagn fannst hvergi sem til dygði og Minjavernd hlaðin öðrum verkum. Árið 2006 voru komnar upp hugmyndir um að flytja húsið að Hvanneyri, endurbyggja það þar og nýta til sýningar og skólahalds. Þess var þá enn farið á leit við Minjavernd að veita annars vegar ráðgjöf hvað það varðaði og þá hins vegar hugsanlega að taka að sér uppbyggingu í Ólafsdal. Af hálfu Minjaverndar var lagst gegn öllum viðhorfum til flutnings. Félagið var þá hins vegar með fangið fullt verkefna og ekki voru tök á beinni aðkomu.
Minjavernd hefur gert fjölmarga samninga við einstaklinga, en einkum ríki og sveitarfélög um eintök verkefni. Sumir þeirra hafa tekið til verka hvar Minjavernd hefur tekið á sig framkvæmd og fjármögnun, en í öðrum hefur jafnframt verið tekið á aðild viðsemjenda. Minjavernd hefur aldrei verið á beinum framlögum hvorki frá ríki eða sveitarfélögum. Viðhorf við framkvæmd verkefna hafa því mótast hvort tveggja út frá sýn á húsverndun sem og fjármögnun verka. Að þau skili sér eftir því sem kostur er sem lifandi minnisvarðar um sögu fortíðar og geti jafnframt lagt það fjármagn til framkvæmdar hverju sinni sem kostur er. Hefur þá ýmist verið horft til tekna af leigu og rekstri eða sölu verkefna. Ætíð þó með þeim hætti að verkefnin lifi í sínu umhverfi og styðji við heildir umhverfis og samfélag. Þetta er og hefur verið grunnforsenda verkefna alla tíð.
Eftir að Minjavernd gat ekki sökum annarra verkefna tekið Ólafsdal á sínar herðar í ársbyrjun 2007 var efnt til stofnunar á góðu félagi, áhugamannafélagi um uppbyggingu í Ólafsdal og gert ráð fyrir því að Ólafsdalsfélagið annaðist verkefnið. Að félaginu kom fjöldi áhugaaðila og jafnframt afkomendur Torfa Bjarnasonar og Guðlaugar Zakaríasdóttur. Ekki skal dvalið lengi við þá sögu, en þar kom að árið 2014 að enn á ný var haft samband við Minjavernd, hvort tveggja af hálfu fulltrúa Ólafsdalsfélags sem og úr ráðuneytum. Ekki hafði þá vegnað betur um framvindu verkefnisins en svo að þessum aðilum þótti einsýnt að ekki mundi ganga mál. Af hálfu Minjaverndar var þessu sinni tekið betur í aðkomu, en í ljósi reynslu víða að þótti rétt að hafa það á vel kynntum forsendum og að öllum sem máli tengdust væru forsendur fullljósar. Því var gengið frá tveimur samningum um verkefnið, öðrum um yfirtöku 57,5 ha. landspildu hvar flest hús höfðu staðið og þeirra húsa og eigna sem á stóðu, hinum um tímabundna umsjón með láglendi jarðarinnar Ólafsdals. Endurgjald fólst í skuldbindingu um uppbyggingu húsa og viðhaldi sögu.

Skólahúsið eftir viðgerð að utan.
Það er svo að starf Minjaverndar hefur oftast verið í þröngu og á stundum viðkvæmu umhverfi. Það getur tekið á fyrir granna að hafa framkvæmdir í nágrenni og sem þykja þrengja að. Enn fremur hefur það stundum verið svo að viðhorf í umhverfi hafa frekar staðið til þess að vilja standa að máli af eigin rammleik og viðhorfum en að aðrir komi að máli. Þannig var það t.d. svo hvað varðar Ríkið á Seyðisfirði. Um nokkurra ára skeið hafði verið leitað leiða til að ráðast í endurgerð þess góða húss og Minjavernd tekið þátt í þeirri umræðu. Þegar leiðin hafði fundist og um viku áður en verkið átti að hefjast undir hendi Minjaverndar barst nóta að austan sem gaf til kynna að ekki væri einhugur um leið. Þá þegar var horfið frá máli af hálfu Minjaverndar og leiðin lá í þess stað til Fáskrúðsfjarðar hvar nú stendur endurbyggður Franski spítalinn með nokkrum fjölda húsa. Ríkið á Seyðisfirði er hins vegar enn óhreyft og lætur mjög á sjá.
Þessi og önnur slík reynsla leiddi til þess að samningar um verkefnið í Ólafsdal voru frekar nákvæmir ef eitthvað er. Tekið þar á flestum þeim atriðum sem mönnum þótti við upphaf máls að til álita gætu komið. Nægjanlega margt er það sem upp kemur á vegferð af vandamálum og úrlausnarefnum. Því þótti jafnframt rétt að áritun af hálfu Ólafsdalsfélags væri á öðrum þeim samninga – þeim sem að yfirtöku eigna sneri og hvar greinir ítarlega frá hvernig unnið verði úr máli.
Samningar voru undirritaðir á góðviðrisdegi – 15. ágúst 2015. Töluverður fjöldi fagnaði þeim áfanga á staðnum og um góðar veitingar sáu öflugur hópur kvenna úr nær sveitum. Gleði ríkti og ánægja mikil – bros og gleði má sjá á myndum af athöfn, einnig á andlitum þeirra þriggja sem árituðu samninga, þeirra Rögnvalds Guðmundssonar, Bjarna Benediktssonar og Þrastar Ólafssonar. Þar var enginn með óbragð í munni eins og segir í greininni frá 5. þ.m.

Smíðastofan eftir endurgerð.
Af hálfu Minjaverndar fór í framhaldi af stað vinna við að skoða forsendur og leiðir til framvindu uppbyggingar. Samið var við Fornleifastofnun Íslands um mun viðtækari fornleifakönnun og skráningu en bein þörf eða reglur kváðu á um. Skráðar voru minjar um allan Ólafsdal, Hvarfsdal, út á eyri og nokkuð til beggja handa meðfram hlíðum. Við þá skráningu komu m.a. í ljós ummerki um fjölda bygginga frá landnámstíð. Minjavernd samdi í framhaldi af því við Fornleifastofnun Íslands um uppgröft sem til helminga yrði fjármagnaður af Fornleifasjóði og Minjavernd. Sá uppgröftur hefur staðið um nokkur ár með töluverðum árangri, en fundist hafa ummerki um nálægt 10 byggingar og um tvær þegar rannsakaðar nær í þaula. Í því samhengi var ráðist í svokallaða fornumhverfisrannsókn sem Minjavernd fékk Egil Erlendsson hjá Líf- og umhverfisstofnun Háskóla Íslands til að annast. Niðurstöður þeirrar rannsóknar greina frá þróun gróðurfars í nágrenni við skálarústir frá því fyrir landnám og til nútíma. Þar liggur því fyrir vitneskja um þróun gróðurfars og tegunda í dalnum. Leitað var til Landmótunar um liðsinni við alla skipulagsvinnu og til Hjörleifs Stefánssonar arkitekts um ráðgjöf og vinnu er að endurgerð og uppbyggingu húsa sneri. Minjavernd hefur jafnframt kappkostað að eiga gott samstarf við sveitarfélagið Dalabyggð og alla þá opinberu aðila sem máli tengjast, ráðuneyti, Minjastofnun o.s.fv. Auk þessa hefur verið samstarf við Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Gengið frá tveimur samningum þar um og framkvæmdum við þann fyrri þegar lokið. Gert hefur verið bílastæði neðan bakka við Ólafsdalsá og reist þjónustuhús með snyrtingum. Gert er síðan ráð fyrir göngustígum og leiðum um bæði Ólafsdal og Hvarfsdal og jafnvel um fjallahring í kring. Upplýsingaefni er ætlað að verða ferðamönnum til fróðleiks og rústum víkingaaldarskála og húsa gerð skil. Allt ætlað ferðamönnum til ríkulegrar upplifunar. Það verði því ekki einvörðungu endurgerð hús og þeirra saga sem heilli, heldur svæðis í heild og búskapar og sögu frá landnámi til nútíma. Öllum lögum og reglum samfélags hefur verið fylgt til fulls.

Lækjarhús, tæknihús, nýbygging.
Það er eðli verkefna sem þessa að við þróun og sýn á fá menn skýrari mynd af ýmsum valkostum og möguleikum eftir því sem verk vinnast. Þannig hefur það líka verið varðandi Ólafsdal að verkefnið hefur smám saman fengið á sig fyllri mynd. Jafnframt hafa komið ábendingar héðan og þaðan sem í mörgum tilvikum hefur þótt full ástæða til að taka tillit til. Í engu hefur hins vegar verið hvikað frá upphaflegri grunnhugsun og í öllu efni haldinn í heiðri hver grein upphaflegs samnings frá 2015. Allar þær forsendur sem þar voru lagðar og aðilar skrifuðu undir hafa verið haldnar og vel það. Ásakanir um annað eru því ósannindi og orðræðu um skemmdarverk vísað til föðurhúsa.
Það verkefni að endurreisa Ólafsdal er stærsta verkefni sinnar gerðar hér á landi um nokkurra ára skeið. Því er ætlað að halda til haga og setja á stall sögu sem er einstök hér á landi. Um leið að styrkja ferðaþjónustu í Dölum og umhverfi og þar með styrkja búsetu í nærsveitum. Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður verði vel yfir milljarð króna og því lang stærsta sögutengda framkvæmd á Vesturlandi.
Framan af framvindu verks áttu fulltrúar Ólafsdalsfélags og Minjaverndar fundi til yfirferðar mála og var við fundarbeiðni orðið hverju sinni sem fram kom. Smám saman varð það hins vegar ljóst að viðhorf fulltrúa félagsins fóru ekki í öllu saman við viðhorf Minjaverndar og þá varð það svo að vera að sá sem ábyrgð ber varð að ráða. Það skýrðist að fyrri ráðaaðilum þótti ekki óeðlilegt að þeirra viðhorf og aðkoma réðu ferð í meira mæli en eðlilegt þótti af hálfu Minjaverndar. Við því er lítið að gera, en það verður hins vegar ekki bæði sleppt og haldið, því hafa menn ekki haft tilfinningu fyrir. Beiðnum um fundi hefur því fækkað og beiðnum um fundi með stjórn Minjaverndar hefur einfaldlega verið hafnað af stjórn.
Það hefur því miður orðið nær viðkvæði að af hálfu forsvarsaðila Ólafsdalsfélags hefur verið unnið gegn verkefninu í Ólafsdal. Þetta hefur komið fram í kærum til Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála – sem hefur verið vísað frá og hafnað – komið fram í orðræðu sem heyrst hefur af og komið fram í bréfaskrifum. Grein í Skessuhorni keyrir um þverbak. Allt hefur þetta getað spillt máli og sjálfsagt til þess ætlast. Það er allt miður og væri nú æskilegt að linni. Menn sætti sig við að hafa látið mál ef hendi, enda á þeim tíma ljóst að ekki varð við verkefnið ráðið.

Þjónustuhús, snyrtingar fyrir ferðamenn.
Í umræddri grein er víða hallað máli og tæpast staða til að elta það allt. Rétt er þó að tína til nokkur þau atriði sem lengst ganga.
a) Greinarhöfundur telur að Minjavernd hefði átt að greiða eitthvað fyrir snúðinn í upphafi. Ætla má að viðhorf þar sé að Ólafsdalsfélagið hefði átt að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það hefur Minjavernd sannarlega gert, en með skuldbindingu um uppbyggingu hafa þegar hafa verið lagðar á 7. hundrað milljónir til verkefnisins. Það er í formi eigin fjár og lánsfjár sem rekstri verður síðar ætlað að standa undir. Ólafsdalsfélagið fékk þær viðgerðir sem þegar höfðu verið gerðar á Skólahúsinu í hendur án endurgjalds við gerð leigusamnings síns og yfirlýsingar um milljónatugi í tilleggi hafa a.m.k. ekki skilað sér í jafnvirði framkvæmda á staðnum. Ekki hefur verið hægt að nýta neitt af því sem unnið var við húsið í tíð félagsins en nýst hafa hátt í helmingur þeirra viðgerða sem unnar voru á árunum 1995 til 1998.
b) Nokkuð er rætt um þann skaða sem Minjavernd er ætlað að vinna á landi og minjum. Því er rétt að greina t.d. frá nánu samráði Minjaverndar við Minjastofnun Íslands við vinnslu og meðferð skipulagstillagna og við hönnun bygginga, jafnt nýrra sem gamalla, hvar fullt tillit hefur verið tekið til allra tillagna og ábendinga. Jafnframt hefur verið horft til vistkorta og tekið tillit til verndunar gróðurfars. Minjavernd hefur hins vegar haft áhuga á uppgræðslu og hafa bændur þegar liðsinnt varðandi uppgræðslu mela vestan Ólafsdalsár – með góðum árangri. Verði unnið að frekari málum á því sviði – sem ráð er fyrir gert í samningum aðila – þá verður einvörðungu horft til forsendna sem fram koma í áður nefndri fornumhverfisrannsókn. Í samningi frá 2015 segir í 9. grein:
„Minjavernd mun jafnframt vinna að því að klæða land í Ólafsdal gróðri í meira mæli en nú er af þeim tegundum sem heppilegar þykja. Horft verður til þess að girða dalinn af svo það geti gengið fram, en jafnframt skoðað með hvaða hætti slíkum girðingum verður komið fyrir svo hægt verði að reka fé af fjalli svo sem verið hefur.“ Ekkert hefur verið aðhafst annað en þessi orð rúma og ekkert er fyrirhugað í því efni.
c) Greinarhöfundur gagnrýnir meðferð á Skólahúsinu og fyrirhugaðar breytingar. Þar er enn á ný farið með ósannindi og birt teikning og mynd sem ekki á við. Til þess að finna góðar niðurstöður og lausnir þarf að skoða mismunandi valkosti og það hefur verið gert í ríkum mæli, en þeim sem ekki eiga við er jafnóðum ýtt til hliðar. Fyrir liggja nú allt aðrar teikningar samþykktar af Minjastofnun og afgreiddar. Þar er því sem víðar farið með ósannindi og reynt að styrkja málflutning á óheiðarlegan máta. Í samningi frá 2015 segir m.a. í 7. grein:
„Við endurbyggingu og endurgerð húsa og mannvirkja verður horft til þess að þau hafi eftir því sem kostur er þau eðlis- og útlitseinkenni sem þau höfðu í upphafi. Þó verði jafnframt horft til þess að byggingar nýtist sem best og taki eftir því sem eðlilegt þykir út frá viðhorfum Minjaverndar, mið af nútímakröfum um byggingar. Þannig geti einstaka byggingar tekið breytingum frá upphaflegu horfi svo nýtast megi betur.“
Ef nýta á hús fyrir almannanot þá þarf einfaldlega að taka tillit til fjölmargra atriða í byggingarreglugerð. Þar eru ákvæði af ýmsum toga sem snúa að ferðaleiðum, eldvörnum, flóttaleiðum, heilbrigðisþáttum, burðarþoli, hljóðvist o.s.fv. Þótt gamall stigi í Skólahúsi hefði verið fallegur þá gengur slíkur einfaldlega ekki ef heimila á fólki umgang – því miður.
d) Nefnt er í grein Rögnvaldar að nýju húsi hafi verið komið fyrir hvar ekki skyldi og á þar við lágreist hús með torfþaki sem reisa þurfti m.a. í tengslum við upphitun húsanna. Hefur verið nefnt Lækjarhús. Eitt af því fyrsta sem leysa þurfti í framhaldi af yfirtöku Minjaverndar á svæðinu var orka. Hingað til hefur þetta svæði verið talið kalt, þótt hita sé að finna á Reykhólum t.d. og víðar um eyjar Breiðafjarðar. Til að láta á reyna voru fyrst boraðar tvær tilraunaholur og í framhaldi tvær neysluholur, og viti menn það fannst vatn í nægjanlegu magni um 35° heitt. Með varmadælum má nýta það til upphitunar allra húsa á svæðinu. Umhverfisvænt skal það vera og eins orkulítið og kostur er. Jafnframt var lögð í jörð þriggja fasa orkumikill jarðstrengur frá Lindarholti og inn í Ólafsdal. Rafmagn þarf sínar rafmagnstöflur. Það var því nauðsyn ef nýta ætti þessa orkugjafa að koma aðstöðu fyrir í nálægð við húsin – og dreifa máli þaðan. Þetta varð að lágu, hálf niður gröfnu húsi með torfþaki norðan Skólahúss og Smíðastofu. Fer vel á þeirri lausn. Þetta kostaði allt umtalsvert fé, en er ein grunnforsenda framtíðar í Ólafsdal. Í samningi frá 2015 segir líka í 7. grein:
„Jafnframt kann að vera að byggðar verði nýjar byggingar svo starfsemi geti þrifist, en þær munu falla fullkomlega að þeirri heildarmynd sem fyrir er og verður.“
Fleira mætti sannarlega tína til og leiðrétta af innihaldi greinar, en hér verður látið gott heita. Þó er rétt að nefna að nöfn einstaklinga sem að baki Minjavernd standa eru öll opinber. Þeirri upptalningu sem er hins vegar á einstaklingum og fram kemur við lok greinar virðist einkum ætlað að kasta rýrð á heiður þeirra aðila. Það er mjög miður að svo lágt sé lagst. Það er leitt að höfundur hafi þá upplifun fyrir máli sem merkja má, en við það verður viðkomandi bara að búa. Æskilegt væri að nú telji menn mál að linni og styðji við það verkefni sem þeir virðast hafa full ríkan hug til – það er farsæla og metnaðarfulla uppbyggingu sögustaðarins Ólafsdals.
Fyrir hönd Minjaverndar hf.
Þorsteinn Bergsson.