Menntun er máttur

Elsa Lára Arnardóttir

Undanfarin tvö ár hef ég átt sæti í menntastefnuhópi Framsóknarflokksins. Hópurinn skilaði af sér umfangsmikilli vinnu á flokksþingi Framsóknarmanna sem fram fór í mars. Í vinnu hópsins var m.a. leitað til þeirra sem starfa innan leik– og grunnskóla, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og til Kennarasambandsins.

 

Þeir gestir sem sóttu fundi hópsins lögðu mikla áherslu á eftirfarandi þætti:

  • Að bæta þurfi starfsaðstæður kennara í skólum á öllum skólastigum.
  • Til að skólastefna um menntun án aðgreiningar geti gengið þarf að skýra hugtakið, verkaskiptingu, endurskoða fjármögnun og auka stoðþjónustu við nemendur og kennara.
  • Hækka þarf laun kennara og endurskoða kjarasamninga.
  • Auka þarf virðingu fyrir kennarastarfinu.

 

Þessar niðurstöður eru í góðu samræmi við þær umræður sem áttu sér stað á fundi Framsóknar og frjálsra um menntamál. Fundurinn var fyrsti fundur framboðsins í málefnavinnu fyrir komandi kosningar. Kennarar mættu á fundinn en auk þess fengu frambjóðendur skilaboð frá starfsfólki leik– og grunnskóla hér á Akranesi.

Á fundi Framsóknar og frjálsra kom það m.a. fram að bæta þurfi starfsumhverfi innan leik– og grunnskóla. Grunnskólakennarar sakna þess sveigjanleika sem var til staðar og leggja mikla áherslu á að stoðþjónusta við starfsfólk og nemendur verði aukin. Einnig voru starfsmannamál leik– og grunnskóla mikið rædd. Þar var m.a. komið inn á mikilvægi þess að skólarnir fái kennara í almenna forfallakennslu, eins og t.d. vegna veikinda.

Auk þessa var almenn umræða um tillögu Framsóknar um styttri/sveigjanlegri vinnuviku, um heimanámsaðstoð, morgunmat í grunnskólum Akraness, stöðu erlendra nemenda, stöðu unglinga í skólunum, um skipulagsdaga og svona má áfram telja.

Við viljum þakka þeim sem mættu á fundinn og þeim sem sendu okkur skilaboð og ábendingar. Það er dýrmætt að fá þessar upplýsingar frá ykkur sem starfið innan leik– og grunnskóla. Þið vitið manna mest við hverju þarf að bregðast. Þessar upplýsingar og ábendingar eru gott veganesti inn í þá málefnavinnu sem framundan er.

Ekki hika við að hafa samband við okkur frambjóðendur Framsóknar og frjálsra ef þið viljið koma skoðunum ykkar á framfæri um það sem betur má fara í okkar góða samfélagi.

Nánari upplýsingar um störf Framsóknar og frjálsra má finna á Facebook síðu framboðsins: Framsókn og frjálsir.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Höf. er oddviti Framsóknar og frjálsra á Akranesi