Menningarsetur í Reykholti

Gunnlaugur A Júlíusson

Þann fyrsta desember næstkomandi eru liðin eins og kunnugt er 100 ár frá því Ísland varð fullvalda ríki. Þess stóra viðburðar er minnst á margvíslegan hátt um land allt á afmælisárinu. Það er vel því á margan hátt hafa þau tímamót þegar Ísland varð loks frjálst og  fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna þann 1. desember 1918 fallið nokkuð í skuggann fyrir endanlegri stofnun lýðveldisins á Þingvöllum þann 17. júní 1944. Í huga margra var fullveldið árið 1918 miklu stærri áfangi á leiðinni til sjálfstæðis þjóðarinnar heldur en hin endanlega staðfesting á stofnun lýðveldins. Baráttan fyrir þessum áfanga hafði þá staðið í nær heila öld.

Sjálfstæði þjóðar byggir á mörgum stoðum. Þær eru bæði veraldlegar og huglægar. Efnahagslegt sjálfstæði er ein hlið sjálfstæðisins. Að ráða eigin málum, hvort sem um er að ræða innri málefni eða utanríkismál er önnur hlið sjálfstæðisins. Stjórnsýslan byggir á grunni lýðræðislegra kosninga. Það er ekki sjálfgefið. Menning, saga og tungumál eru á hinn bóginn huglægar stoðir sem undirstaða fyrir tilveru hverrar sjálfstæðrar þjóðar.  Þær eru ekki síður mikilvægar heldur en hinar efnislegu. Menning, saga og tungumál eru á margan hátt límið sem heldur samfélaginu saman sem einni heild.

Í Borgarbyggð hefur fullveldisafmælisins verið minnst á margan hátt eins og er von og vísa í því mikla menningarhéraði. Safnahús Borgarfjarðar hefur t.d. staðið fyrir tónleikum sem voru hluti af afmælisdagskrá fullveldisins. Nú síðast var opnuð í safnahúsinu sýning um Hvítárbrúna í tilefni af því að 90 ár eru liðin frá því að hún var reist. Bygging brúarinnar varð gríðarlegt framfaraskref í héraðinu og leiddi af sér miklar samfélagsbreytingar. Borgfirðingurinn Helgi Bjarnason hafði safnað saman merkilegu efni í glæsilega og fróðlega sýningu.

Í dg, laugardaginn 3. nóvember verður opnuð í hátíðarsal Snorrastofu í Reykholti sýning um fullveldisárið. Þar er fullveldisárinu 1918 í Borgarfirði lýst í máli og myndum. Brugðið er upp myndum af bæjum og búendum, mennt og menningu, lífsbaráttu og tómstundum Borgfirðinga. Fræðimaðurinn Óskar Guðmundsson flytur erindi sem bar nafnið „1918- Borgfirðingurinn í heiminum og heimurinn í honum,“ og listamaðurinn Páll Guðmundsson á Húsafelli flytur tónlist sína.

Í þessu samhengi hvarflar hugurinn að þeirri miklu og fjölbreyttu menningarstarfsemi sem fer fram ár út og ár inn í Reykholti. Staðurinn stendur svo sannarlega undir nafni sem „Menningarsetur í héraði“. Það má segja að þar hafi verið safnað saman í einn brennipunkt það lím sem að mínu mati er forsenda fyrir sjálfstæði hverrar þjóðar. Menning, saga og tungumál. Þegar horft er á staðinn utanfrá er það með ólíkindum hve öflug og fjölbreytileg starfsemi fer fram í Snorrastofu og í Reykholti. Þær bókmenntir sem ritaðar voru í Reykholti á söguöld eru söguarfurinn. Þær eru bæði ákveðin undirstaða að menningararfi þjóðarinnar en einnig eru þær síkvik uppspretta margháttaðra viðburða sem menningarsetrið Snorrastofa hefur staðið fyrir misserum, árum og áratugum saman. Þar er söguarfurinn krufinn með hinum dýpstu rökum og umræðum helstu fræðimanna. Þar fer einnig fram margháttuð rannsóknastarfsemi sem tengist bókmenntarfinum. Í Reykholti eru haldnar hátíðir, fræðaráðstefnur, samverustundir íbúa í héraðinu, námskeið og margháttuð önnur menningar- og fræðastarfsemi sem glæðir héraðið lífi og styrkir samfélagið. Ekki má gleyma tónlistinni í Reykholti sem er kapítuli út af fyrir sig. Á fáum stöðum á landinu er tónlistargyðjunni betur í hús komið en í því frábæra tónlistarhúsi sem kirkjan í Reykholti er. Tónlistarhátíðir, kórar, hljómsveitir, einsöngvarar og tónlistarfólk af hinum fjölbreytilegasta toga og uppruna leggja leið sína í Reykholt og miðla list sinni til samfélagsins.

Nú er það ekki svo að Borgarbyggð sé fjölmennt sveitarfélag. Það er því með miklum ólíkindum hve mikla og fjölbreytta menningarstarfsemi er að finna í Reykholti, Reykholtskirkju og Snorrastofu, árið um kring, ár eftir ár. Það er erfitt að finna samjöfnuð þar um hérlendis, þótt leitað sé til okkar fjölmennustu samfélaga. Lifandi áhugi íbúa í héraðinu góður vitnisburður um hvernig til hefur tekist og hve mikils samfélagið metur þá starfsemi sem þar er að finna. Að lokum má ekki gleyma því að Reykholtskirkja er ein af höfuðkirkjum landsins.

Hugurinn reikaði til Reykholts í tengslum við afmælisár fullveldisins og þá viðburði sem haldnir hafa verið í til að minnast þess og styrkja umræðu um fullveldi þjóðarinnnar. Í Reykholti eiga menningin, sagan og tungumálið, sem eru að mínu mati límið í sjálfstæði þjóðarinnar, gott athvarf sem hefur skilað ótrúlegum menningarverðmætum út í samfélagið. Því verður svo öflug menningarmiðstöð, eins og er að finna í Reykholti, seint ofmetin í hinu stóra samhengi sem er undirstaða að fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.

 

Gunnlaugur A Júlíusson, sveitarstjóri.

Reykholt. Ljósm. Guðlaugur Óskarsson