Menning, félagsstarf og samvinna

Margrét Vagnsdóttir

Í menningarstefnu Borgarbyggðar segir að eitt helsta markmið hennar sé að styrkja og efla menningarlega vitund íbúa og þar með innviði samfélagsins. Borgfirðingar geta státað af góðum söfnum og sýningum. Má þar nefna Safnahús, Landnámssetur, Landbúnaðarsafn, Snorrastofu og Fornbílasafn. Nýlega kom út skýrsla vinnuhóps um þróun safnastarfs í Borgarbyggð – aukin starfsemi í menningarhúsinu Hjálmakletti. Þar koma fram tillögur að framtíðarskipan þeirra safna í Borgarbyggð sem rekin eru á ábyrgð sveitarfélagsins. Skýrslan olli mikilli úlfúð á meðal íbúa og sýndist sitt hverjum. Samfylking og óháð vilja styðja við starfsemi í Safnahúsi í núverandi mynd en vilja þó að aukið verði við opnunartíma safnsins og að starfsemi þess verði betur kynnt með það að markmiði að fjölga sýningargestum og auka þar með tekjur safnsins. Þá viljum við styðja við og hvetja til samvinnu á milli þeirra sem starfa á sviði menningar í sveitafélaginu. Við viljum efla Hjálmaklett sem ráðstefnu- og menningarhús með aukinni markaðssetningu.

Maðurinn er félagsvera. Félagsstörf eru oft mikilvægur þáttur í lífi einstaklinga og eflir það og þroskar bæði andlega og líkamlega heilsu. Í Borgarbyggð getum við státað af öflugu félagsstarfi. Hér eru öflug leikfélög, mikið kórastarf, vel starfandi eldri borgara félag, félagsstarf í kringum alla skóla í sveitarfélaginu, skátarnir, Rauði krossinn og svo mætti lengi telja. Það sem hins vegar skortir á er að nýbúar í sveitarfélaginu fái upplýsingar um allt þetta öfluga og góða félagsstarf og upplýsingar um að þeir hafi jafnvel möguleika á því að vera þátttakendur. Fyrir mitt leyti var þátttaka í félagsstarfi það sem styrkti mig og efldi í samfélaginu og varð m.a. til þess að við fjölskyldan höfum ákveðið að setjast hér að.

Ég bý í dreifbýli Borgarbyggðar. Stundum finnst mér eins það séu þrjú til fjögur sveitarfélög í sveitarfélaginu. Ég veit að það eru margir sammála mér í þessari skoðun. Ég brenn fyrir að allir í sveitafélaginu vinni saman að betri byggð, að við þéttum hópinn hvort sem við búum í þéttbýli eða dreifbýli og eflum samkenndina. Það þarf að auka uppbygginu í öllu sveitarfélaginu og gæta þess að allir í samfélaginu séu vel upplýstir því þannig náum við að virkja fleiri íbúa.

Samfylking og óháð leggja til að ráðinn verði markaðs- og kynningarfulltrúi sem m.a. myndi kynna sveitarfélagið, koma betur á framfæri blómlegu menningarlífi sveitarfélagsins, félagsstarfi þess og myndi vinna í því að tengja saman alla íbúa í sveitarfélaginu.

 

Margrét Vagnsdóttir

Höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingar og óháðra í Borgarbyggð