Menn eiga að hafa vit á því að vera í góðu skapi

Hildur Sveinsdóttir

Ég eins og svo margir er sek um að hafa gjarnan skellt mér oftar en þörf þykir í Kvart-buxurnar og bölsótast út í eitthvað sem ég fæ ekki skilið eða bara hreinlega kemur mér ekki við.

En lengi má miðaldra kona tuða sér í lagi ef hún er skrítin, á þrjá ketti og hund sem tölta með henni um götur bæjarins öðrum vonandi til gleði. En nóg um það.

Mergur málsins er að við tuðum út af öllu. Við tuðum út af veðrinu, við tuðum út af því að einhver lagði bílnum vitlaust, við tuðum út af nýjum sorptunnum, við tuðum út af verðbólgu og sofandi ríkisstjórn sem svo sem má stundum og að seðlabankastjóri sé orðin galinn eins og endurvinnslumálin.

Við tuðum yfir því sem við fáum og fáum ekki. Við tuðum til þess að tuða og ef það er ekkert til að tuða um þá tuðum við bara samt.

En suma daga finn ég og vonandi fleiri tilefni til að tuða ekki.

Núna þann 17. júní á okkar ástkæra þjóðhátíðardegi fagnaði ég ásamt fleirum í okkar ágæta bæjarfélagi og var mikið um manninn, fjöldi fólks og allir að njóta saman. Það var gleðilegur dagur fyrir bæði smáa sem stóra og ættum við að eiga fleiri svona stundir. Þegar er lífið er gott og við erum þakklát.

Það er nefnilega ekki svo sjálfsagt að geta átt svona dag. Við þurfum ekki að fara langt til að muna þegar við gátum það ekki, þegar við gátum ekki fjölmennt saman til að gleðjast og njóta samveru með hvert öðru. Þegar faraldur gekk yfir landið og víðs vegar í heiminum. Við þráðum eðlilegt líf, að geta notið og glaðst með okkar nánustu.

Enn í dag eru þjóðir sem geta ekki fagnað eða notið samvistar með sínum nánustu eða samlöndum. Víða eru stríð, hungursneyð og fátækt. Víða er lífið bara helvíti erfitt.

Eigum við því ekki öll að vera í þakklát þótt ekki sé nema bara í smá stund.

Já og hafa vit á því að vera í góðu skapi þrátt fyrir allt.

Hildur Sveinsdóttir