Meiri kyrrð, bætt þjónusta og ráðdeild í fjármálum

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir

Fjármál Borgarbyggðar er eitthvað sem margir hugsa um þessa dagana, sveitarfélagið er víðfeðmt og að mörgu að huga þegar kemur að því að dreifa fjármagninu. Öll viljum við fá eitthvað fyrir okkar snúð og til þess þarf yfirleitt fjármagn.

Staða sveitarfélagsins er sú að heildartekjur þess eru rúmir fjórir milljarðar, rekstrargjöldin eru rúmir þrír og hálfur milljarður og þegar tekið hefur verið tillit til afskrifta og fjármagnsliða eru tæpar 300 milljónir í afgang.

Skuldastaða sveitarfélgasins hefur batnað mikið síðan 2014 eða úr því að vera tæp 160% af rekstartekjum sveitarfélagsins í það að vera um 112%. Þetta má skýra með sölu eigna en ekki síður vegna þess að tekjur sveitarfélagsins hafa aukist til muna. Laun hafa hækkað og fasteignagjöld sömuleiðis með hækkandi fasteignaverði í sveitarfélaginu og einnig hefur jöfnunarsjóður verið okkur gjöfull með sterkari stöðu ríkissjóðs.

Við viljum að sjálfsögðu öll bæta margt í okkar samfélagi og það ætlum við að gera en við munum ekki taka þátt í því að hækka skuldastöðu sveitarfélagsins. Því þó svo að staða sveitarsjóðs sé góð núna þá þýðir það ekki að nú sé hægt að spreða út í hið óendanlega. Margt hefur setið á hakanum hin fyrri ár sem þarf að ráðast í á næstu árum og þá aðallega í viðhaldi þeirra fasteigna og leiksvæða sem sveitarfélagið á og ber ábyrgð á.

Við ætlum að vinna að þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru, byggja upp skólana okkar og styrkja innviði samfélagsins. Vegna stöðu sveitarsjóðs á að vera mögulegt að fara í þessar framkvæmdir án þess að taka lán eða að minnsta kosti að óverulegu leiti. Við ætlum að sýna ábyrgð og laða að okkur fólk því við vitum að hér vill fólk vera, fyrir utan skarkalann, í meiri kyrrð og bættri þjónustu.

Gerum Borgarbyggð betri!

 

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir.

Höf. er oddviti VG í Borgarbyggð

 

Fleiri aðsendar greinar