Meira af því sama

Margrét Guðmundsdóttir

Fundurinn í Dalabyggð þriðjudaginn 14. október, þar sem fulltrúar Dalabyggðar og Húnaþings vestra kynntu forsendur sameiningar sveitafélaganna, var um margt sérstakur. KPMG kynnti niðurstöðu greiningarvinnu og var boðið upp á spurningar að þeirri kynningu lokinni. Síðan var fundarmönnum boðið að koma með skriflegar athugasemdir á þjónustu og stjórnsýslu, sem sameiningarnefndin mun nýta sér í ferlinu. Kynningin bar þess merki að ákvörðun lægi fyrir og eingöngu væri heimilt að koma með athugasemd varðandi útfærslu.

Spurningin sem brann á vörum marga var af hverju þessi tvö sveitafélög og af hverju ekki Stykkishólmur, var afgreidd fljótt með því að sveitastjórn hefði haft samband við öll nærliggjandi sveitarfélög og sveitarfélög á Snæfellsnesi og það var þeirra niðurstaða að best væri að fara í sameiningarviðræður við Húnabyggð. Einu rökin sem hafa verið birt um þá ákvörðun er að sveitafélögin séu lík, 60% búa í dreifbýli aðallega sauðfjárbændur, og 40% í þéttbýli.  Einnig að með sameiningu gætu hlutastörf innan stjórnsýslu orðið að fullum störfum.

Það sem ekki var kynnt á fundinum var:

  •     Aldursdreifing íbúa í dreifbýli og hver þróun sauðfjárræktar hefur verið. Vitað er að búgreinin á undir högg að sækja um allt land og nýliðun í greininni erfið þar sem verðmæti á landi hefur aukist og búvörusamningar hafa ekki verið bændum hagfelldir. Baráttan fyrir greininni verður ekki leyst með sameiningu bænda í þessum tveimur sveitarfélögum heldur fer hún fram hjá Bændasamtökunum og undirdeildum þeirra. Þess vegna þarf að birta sviðsmynd sem sýnir væntanlega þróun greinarinnar í sameinuðu sveitarfélagi og áhrifa hennar á íbúafjölda.
  •     Engin skýring er gefin á því hvers vegna íbúafjölgun á Íslandi er ekki að ná til þessara tveggja sveitarfélaga og hvernig sameining þeirra mun leiða til fjölgunar íbúa.
  •     Ekki var horfst í augu við að hluti Dalabyggðar nýtir sér nær eingöngu þjónustu í Stykkishólmi vegna nálægðar við byggðina. Hvort að fjarlægðin á milli Hvammstanga og Búðardals sé næstum á pari við fjarlægðina á milli Stykkishólms og Búðardals er þessu algjörlega óviðkomandi. Ég tel að það sé afar ólíklegt að íbúar þessara sveitarfélaga í dag séu að nýta sér þjónustu hins sveitarfélagsins. Þessi sameiningatillaga er því eins og að fara yfir lækinn eftir vatni.
  •     Ný tækifæri og nýjar atvinnugreinar sem munu koma sterkari stoðum undir sveitafélagið. Það er ekki nóg að styrkja stjórnsýsluna og fækka hlutastörfum, það fjölgar ekki skattgreiðendum.
  •     Það kom ekki fram töluleg greining á hversu ástand Skógarstrandavegarins um Skógarströnd er hamlandi fyrir ferðaþjónustuna í Dalabyggð. Núverandi þungatakmarkanir vegna ástands vegarins hindra að rútur geti ekið ferðamönnum úr Stykkishólmi í Dalabyggð. Þeir 800.000 ferðamenn sem koma árlega á Snæfellsnesið eru í litlum mæli að skila sér inn í Dali.
  •    Vegur 55 um Heydal, enginn áhugi virðist vera að berjast fyrir honum, en stór hluti íbúa nýtir sér hann á milli landshluta.
  •     Hvaða önnur rök en þau sem hafa komið fram voru gegn sameiningarviðræðum við Stykkishólm? Var horft til þess að fjölbreytt atvinnulíf á Snæfellsnesi gæti nýst Dalabyggð og möguleika fyrirtækja þar til að fjárfesta í rekstri í Dalabyggð?
  •     Að lokum var því ekki svarað hvort sameinað sveitafélag yrði áfram hluti af Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi eða Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

 

Það fylgir þessari sameiningu ekki ferskur blær sem stundum hefur einkennt sameiningar sveitarfélaga. Þetta er meira af því sama í stærra umfangi og ekki líklegt til að efla samfélagið.

 

Breiðabólstað Skógarströnd 16. október 2025

Margrét Guðmundsdóttir