Mega jólin koma?

Axel Freyr Eiríksson

Einhver tekur til í herberginu sínu og hrópar; „nú mega jólin koma!“  Stjórnmálamaðurinn afgreiðir eitt málið og hugsar með sér: „nú mega jólin koma.“ Nemandinn lýkur prófatörn sinni og syngur; „nú mega jólin koma“ með félögum sínum á barnum (þegar það mátti). Nú er uppruni þessa frasa mér alls ókunnugur og eflaust fleirum, en það skiptir litlu. Á heimilum landsins er varla litlafingri lyft án þess að þessi orð séu hrópuð, mér finnst þetta bera vott um tilætlunarsemi og jafnvel frekju ef ég leita að útskýringu en það gæti verið bara tilfinningin sem ég er haldinn þessa stundina. Ég lofa því ekki að þetta haldist óbreytt, en hvað um það, skiptir engu.

Heldur einstaklingurinn að jólin bíði eftir því að skáparnir séu þvegnir, bíllinn bónaður, jólatréð skreytt o.s.frv? Þú getur verið með allt í skrúfunni; jólatréð óskreytt, mandarínurnar skemmdar, ryk í skápunum, jólagjafakaup á Þorláksmessu og þú misstir af því að horfa á Christmas Vacation með Chevy Chase í sjónvarpinu, jólin koma samt sem áður. Því jólin eru ekki endilega að allt sé í standi, jólin eru tilfinning. Jólin snúast um hugsa um sína nánustu, íhuga það sem gerðist á árinu, borða síðustu smákökuna og svo framvegis. Jólin eru þessi hlýja tilfinning sem leikur innra með manni þegar desember er hálfnaður og tuttugastiogfjórði nálgast óðfluga. Allt er mögulegt og allt bragðast betur.

Því það er sama hversu margar útsölur og deddlæn til að skipta gjöfum verða þá er það ekki nóg til að deyfa þessa fegurð.

En hjá sumum eru jólin tími frekju, stress´s (er þetta orðmynd?) – nú mega jólin koma er líklega ein leið að segja stressinu stríð á hendur; komdu með alla þína pakka, skreytingar á tréð og á hillur, salt á götunum og stormar; Ég er tilbúin/n.

Sumir elska þetta ímyndaða stress og birtingarmynd þess hugsanaháttar er lag Roy Wood í flutningi Eiríks Haukssonar – Jól alla daga. Hann er ekki að biðja um lítið maðurinn, álit mitt á því lagi er efni í annan og meiri pistil en látum duga að mér þykir lagið jafn mikið og möllettið sem Eiríkur skartar á þeim tíma sem lagið er tekið upp; Ofsalegt.

Ef ég ætti að velja tvö lög sem ættu að hljóma alla daga í desember þá er valið auðvelt. Last Christmas með Wham og Gleði- og Friðarjól með Pálma Gunnarssyni. Annað lagið er um ástarsorg og hvernig það er að skemmta sér í fjallakofa í útlöndum. Hitt lagið snýst um hvað maður sé heppinn að geta haldið jólin og eigi að sýna þakklæti umfram allt annað. Svo eru þetta listamenn á toppi tilverunnar þegar þessi lög eru gefin út; George, Pálmi og háæruverðugur Magnús Eiríksson. Ef ég ætti að halda jólaboð núna sem mætti innihalda fleiri en 10 og mætti bjóða hverjum sem er úr mannkynssögunni þá væru þeir á listanum.

Allavega, ég vona að þú, kæri lesandi, misskiljir mig ekki á þann hátt að ég vilji ekki jólin. Að þau megi alls ekki koma, þvert á móti. Ég er mikið jólabarn og eflaust ekki einn um það. Læt hér nema staðar með nokkrum stikkorðum og setningum sem ættu að koma mestu Skröggunum í jólaskap: Skammdegið, jóladagskrá, Laddi og Hemmi Gunn, vanillufingur, jólakakan, Leppalúði, aðventukrans á hurð, marglita jólasería, hálkublettir, lifandi jólatré, gervijólatré, jólakúla, jólastjarna, jóla-hvað? Glámur og Skrámur, renna sér, kakó, rjúpa, yfir fannhvíta jörð, kærleik og frið, lifrarpylsa og grjónagrautur um jólin.

Gleðileg jól öllsömul og farsælt komandi ár.

 

Axel Freyr Eiríksson, Borgarfirði