
Með traustið að vopni
Kristinn Jónasson
Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi velja á laugardaginn það fólk sem leiða mun lista þeirra í alþingiskosningunum þann 29. október nk. Ljóst er að mjög margir reynslumiklir þingmenn hverfa af þingi að þessu sinni. Því er afar mikilvægt að til setu á listanum veljist fólk með góðan og traustan bakgrunn, fjölþætta reynslu og geti með því endurspeglað þær ólíku aðstæður sem ríkja í þessu víðfema kjördæmi.
Haraldur Benediktsson var kjörinn þingmaður kjördæmisins í kosningunum 2013 og hafði þá þegar mikla reynslu í forystustörfum innan sinnar stéttar. Með miklu starfi sínu m.a. bæði í atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd hefur hann öðlast traust þingmanna bæði í stjórn og stjórnarandstöðu og er þegar orðinn með áhrifamestu þingmönnum okkar. Hann hefur því á skömmum tíma öðlast þá reynslu sem nauðsynleg er þeim sem taka vilja að sér forystustörf í stjórnmálum.
Ég skora á sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi að veita Haraldi stuðning til þess að leiða framboðslista flokksins í kjördæminu. Hann er traustsins verður.
Kristinn Jónasson
Höf. er bæjarstjóri Snæfellsbæjar.