Með heiðursfólki í Bjartri framtíð

Ingunn Anna Jónasdóttir og Árni Múli Jónasson

Með almannahagsmunum og jöfnum tækifærum; gegn sérhagsmunapoti og spillingu.

Með mannréttindum og margbreytileika; gegn fordómum og mismunun.

Með náttúru og umhverfi; gegn ágangi og mengun.

Með heiðarleika og hagkvæmni; gegn græðgi og sóun.

Með ábyrgð og langtímahugsun; gegn lýðskrumi og skyndireddingum.

Með víðsýni og virðingu; gegn þröngsýni og einangrun.

Með samstarfi og sátt; gegn sundurlyndi og frekju.

 

Fyrir þetta stendur Björt framtíð og þess vegna styðjum við hana. Og það er ekki slæmur félagsskapurinn sem við erum í á framboðslistanum í NV-kjördæmi.

Í fyrsta sæti er hann Valdi, G. Valdimar Valdemarsson, sem ber ekki aðeins óvenjulegt nafn, heldur er hann óvenjulega vel að sér í öllum mikilvægustu hagsmunamálum þjóðarinnar. Óþreytandi baráttujaxl fyrir betri og heiðarlegri stjórnmálum og stjórnsýslu. Og það er ekki verra að maðurinn er líka þrælskemmtilegur og fullkomlega laus við sýndarmennsku og hégómaskap. Eldklár og jarðbundinn og hefur þann eina metnað að fá að vinna í þágu almannahagsmuna. Það myndi bæta íslensku löggjafarsamkunduna heilan helling ef bara við höfum vit á að kjósa Valda á þing. Við fullyrðum að þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar sem eiga jafnmikið erindi þangað og hann.

Svo eru það Skagakonurnar ungu, Kristín og Ásthildur, sem eru í 2. og 3. sæti framboðslistans. Öflugar og jákvæðar. Reknar áfram af einlægum vilja til til að gera þjóðfélagið betra og réttlátara og engu öðru. Það er sérkennilegt samfélag sem vill ekki nýta sér svona starfskrafta.

Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa staðið vörð um mannúð og mannréttindi fólks sem stendur höllum fæti, fatlaðs fólks, öryrkja, flóttafólks og fátækra barna. Þeir hafa lagt sig fram við að verja hagsmuni almennings fyrir alls kyns sérhagsmunapoti, skammtímahugsun, spillingu og flokkadráttum sem einkennir íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag allt of mikið og hefur gert það allt of lengi. Umræða og ákvörðun um búsvörusamningana var skýrt dæmi um það. Þar stóð Björt framtíð ein vörð um hagsmuni almennings í landinu.  Skipting arðsins af fiskveiðiauðlindinni er annað dæmi um hvernig sérhagsmunir eru teknir fram yfir almannahagsmuni, í boði sérhagsmunaflokka á Alþingi. En því miður eru þetta aðeins tvö af allt of mörgum um vond stjórnmál sem snúast um völd og valdabaráttu, alls kyns sérhagsmuni og forréttindi. Hagsmunir almennings eru aftarlega á þeim forgangslista ef þeir eru þá yfirleitt á honum.

Er ekki kominn tími til að breyta þessu?

Björt framtíð telur það vera löngu tímabært. Hún býður þér krafta sína til að gera það.

 

Ingunn Anna Jónasdóttir og Árni Múli Jónasson.

Höf. skipa 13. og 16. sæti á lista Bjartrar framtíðar í NV-kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar