Með hækkandi sól

Finnbogi Leifsson

Í hönd fara sveitastjórnarkosningar. Því fylgir að frambjóðendur fara yfir stöðu mála og ný markmið eru sett. Sveitarfélögin eru stór þjónustuaðili, misjafnt er auðvitað hvaða þjónustu íbúar leita eftir. Tengist það m.a. búsetu, aldri, og aðstæðum viðkomandi. Til að mögulegt sé að þjónustustig í Borgarbyggð sé hátt, og þjónustugjöld hæfileg, þarf fjárhagur sveitarfélagsins að standa styrkum fótum. Vinna við fjárhagsáætlun þarf að vera vönduð, áætlunin er undirstaða þeirrar þjónustu sem í boði er, auk þess að innihalda þær framkvæmdir sem áætlaðar eru. Grannt þarf að fylgjast með því að áætlunin standist og mikilvægt er að kostnaðarmeta framkvæmdir vandlega. Þar mun reynsla og þekking nýtast vel. Brýnt er að Borgarbyggð viðhaldi þrýstingi á ríkið varðandi vegabætur. Héraðs- og tengivegir þurfa á verulegum endurbótum að halda. Þá er mikilvægt að krefjast þess að RARIK, sem er nokkurs konar ríki í ríkinu, flýti verulega þriggja fasa rafvæðingu í dreifbýli.

Landbúnaður skipar mikilvægan sess í Borgarbyggð sem atvinnuvegur og tryggir auk þess dreifða búsetu. Mikilvægt er að dreifð byggð eigi kost á góðri þjónustu til þess að bæta búsetuskilyrði. Nauðsynlegt er orðið að huga að endurbótum og uppbyggingu fjárrétta í sveitarfélaginu. Gera þarf framkvæmdaáætlun varðandi þær þarfir, í samráði við heimamenn. Þessi mannvirki verða að vera til staðar og nauðsynlegt að þau gegni hlutverki sínu sem best.

Ágætu kjósendur í Borgarbyggð! Framundan er val á fulltrúum í sveitarstjórn. Við á framboðslista Framsóknarflokksins í Borgarbyggð erum tilbúin að axla ábyrgð og bæta okkar góða samfélag. Við hlökkum til að takast á við verkefni komandi kjörtímabils, okkur öllum til heilla.

 

Finnbogi Leifsson.

Höf. er skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Borgarbyggð. 

Fleiri aðsendar greinar