Með gleði í hjarta

Elsa Lára Arnardóttir

Þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu 33 leiguíbúða á Akranesi þá gat ég ekki annað en ritað nokkur orð niður á blað til að lýsa ánægju minni. Mér finnst eins og ég hafi verið að fá „barnið“ mitt heim.

Hér er um að ræða afar stórt verkefni sem ég tók í fangið stuttu eftir að ég settist inn á þing. Þá fékk ég boð um að setjast í verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Sú vinna var umfangsmikil og hún skilaði sér í fjórum frumvörpum um húsnæðismarkaðinn. Eitt þeirra var frumvarp um almennar íbúðir. Þegar málið kom til Alþingis þá fékk ég þann heiður að fylgja því í gegnum velferðarnefnd þingsins sem framsögumaður málsins. Það var síðan vorið 2016 sem frumvarpið varð að lögum og nú sjáum við árangur þess hér á Akranesi. Hér á að byggja 33 leiguíbúðir þar sem ríkið leggur til 18% stofnframlag í verkefnið og Akranesbær 12%. Stofnframlag Akraneskaupsstaðar getur t.d. verið í formi gatnagerðargjalda og annarra opinberra gjalda sem kaupstaðurinn hefur forræði á. Akraneskaupstaður gerir á móti kröfu um 25% ráðstöfunarrétt af íbúðunum. Allar íbúðirnar verða settar í útleigu og leiguverð þeirra tekur mið af tekjum leigutaka.

Með undirritun viljayfirlýsingarinnar er stórt skref stigið í að mæta íbúum Akraness með fjölgun leiguíbúða en lítið framboð hefur verið af þeim undanfarin ár. Hér skapast tækifæri á öruggu leiguhúsnæði fyrir einstaklinga á öllum aldri.

Það er óhætt að segja að það sé með gleði í hjarta sem ég skrifa þennan stutta pistil. Þetta verkefni tók langan tíma og loksins sjáum við Skagamenn árangurs þess, íbúum okkar til hagsbóta. Það var einmitt það markmið sem stefnt var að. Höldum áfram að vinna þannig til framtíðar.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Höf. er fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins