Matvælaframleiðsla á Vesturlandi

Vífill og Ólafur

Á Íslandi er gnægð náttúruauðlinda. Allar tengjast þær matvælaframleiðslu með beinum eða óbeinum hætti. Fiskimiðin eru einhver þau gjöfulustu sem þekkjast. Sýnt hefur verið fram á að það frumstæða landbúnaðarsamfélag sem einkenndi Ísland frá landnámi fram á seinni hluta 19. aldar hafi verið háð sjávarnytjum. Fiskveiðar voru þá einna mikilvægastar. Vegna frumstæðrar tækni (bátar og veiðarfæri) var best að sækja sjóinn á vetrarvertíðum þegar þorskurinn gekk á landgrunnið til hrygningar. Það gerði hann mest á Suðurlandi og Vesturlandi. Bændur fóru þá í ver, sem kallað var, alls staðar af að landinu og voru þau fjölmennustu á Reykjanesi, Vestfjörðum og Snæfellsnesi. Bent hefur verið á þá sérstöðu Íslands að vertíðarnar voru á þeim tíma ársins sem lítið álag var vegna sauðfjárbúskaparins en gæftir litlar þegar álag var í sauðfjárbúskapnum á vorin, sumrin og fyrst á haustin. Þessi sérstaða og samkeppnisforskot hafði Ísland fram yfir önnur lönd á norðurhveli jarðar. Því má segja að Íslandi hafi frá upphafi verið sérstaklega hentugt til matvælaframleiðslu og átti það við um suður- og vesturströnd landsins vegna hrygningarstaða þorsksins en ekki síður þess að mesta undirlendi landsins og hæsti meðalhiti er þar líka. Þar er vísað til undirlendi Suðurlands, Borgarfjarðar og jafnvel Dala. Veðráttan og ýmsar jarðhræringar hafa þó ávallt sett óheppilega strangar skorður á matvælaframleiðslu á Íslandi og þess vegna fjölgaði fólki ekki mikið frá landnámi fram að byrjun 20. aldar, þegar tæknivæðing hóf innreið sína.

Í seinni tíð hefur samt þótt vænlegast að byggja forskot íslenskrar matvælaframleiðslu á sérstöðu landsins sem er gnægð grænnar orku, hreins vatns, hverfandi lítillar mengunar, skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda og möguleika á að standa vel að velferð hús- og villtra dýra fremur en lágs verðs. Þrátt fyrir mikla umfjöllun um nauðsyn þess að styðja við fyrrnefnd gildi hefur afkoma verið afspyrnu léleg í íslenskum matvælaiðnaði að sjávarútvegi frátöldum.

 

Vesturland

Í fyrstu virðist atvinnulíf Vesturlands einkennast af hefðbundnum landbúnaði og sjávarútvegi eins og landsbyggðirnar flestar. Við nánari rýni kemur þó í ljós matvælaiðnaður á Vesturlandi á sér einhverja sérstöðu. Þar má nefna veiðar og vinnslu á skelfiski – einkum í Breiðafirði. Einnig má geta þess að fáir hlutar landsins geta státað af eins gjöfulum ám og vötnum í náttúrlegum laxi og silungi. Þá eru heiðar og engi á Vesturlandi ákaflega heppilegar til rjúpna- og gæsaveiða. Að öðrum landshlutum ólöstuðum þá hefur landshlutinn Vesturland verið einna öflugastur í landbúnaði og sjávarútvegi af fyrrgreindum sökum.

 

Akranes og Hvalfjörður

Íbúar Akraness voru 767 árið 1900, 2.577 árið 1950 og 5.433 árið 2000. Frá fornu fari hefur verið hentugt að sækja sjóinn frá Akranesi og það talið vera elsti útgerðarstaður landsins. Á Akranesi hefur lengi verið um stærri fyrirtæki að ræða eins og Sementsverksmiðja ríkisins, sjúkrahús og Fjölbrautaskóli Vesturlands eru dæmi um. Það sama hefur einkennt matvælaframleiðslu. Þar bar Haraldur Böðvarsson hf. höfuð og herðar yfir aðra framleiðendur.

Í dag hefur starfsemi Haralds Böðvarssonar verið hætt í nafni HB-Granda en nýir aðilar, Ísfiskur frá Kópavogi, hafa keypt bolfiskvinnsluhúsið og hyggjast nú nýta sér húsa- og tækjakost sem þar er til fiskvinnslu. Ennþá er Norðanfiskur starfræktur sem vinnur fisk og ýmsa fiskrétti og Akraborg sem sýður niður loðnu, smásíld, svil, skötusels- og þorsklifur í sælkerapakkningar. Þá starfrækir fyrirtækið líka niðursuðuverksmiðju í Ólafsvík á Snæfellsnesi. Á Akranesi hafa þróast atvinnugreinar í tengslum við sjávarútveg.  Þar má nefna fyrirtæki eins og Skaginn 3X sem þróar, hannar og framleiðir hátæknilausnir fyrir bæði skip og fiskvinnslur í landi.

Þá er Vignir G Jónsson hf. á Akranesi, sem í dag er í eigu HB Granda, framsækið framleiðslufyrirtæki sem framleiðir margvísleg matvæli úr sjávarfangi, hrogn og fleira fyrst og fremst til útflutnings.

Í Hvalfirði hefur hefðbundinn landbúnaður verið stundaður en vægi hans hefur dregist saman eftir að athafnasvæðið á Grundartanga byggðist upp. Þaðan voru Hvalveiðar stundaðar og vinnsla afurðanna fór þar fram í stórri hvalstöð og þeirri einu eftir miðja 20. öld.  Þar hafa aðilar í Hvalfirði ráðist í einskonar staðtengda handverks-framleiðslu á matvælum undir merkjum „beint frá býli“.

 

Borgarfjarðarsvæði

Myndun þéttbýlis í Borgarnesi á upptök sín að rekja til matvælaframleiðslu – þ.e. verslunar og tilrauna til útflutnings á laxaafurðum á seinni hluta 19. aldar. Íbúum fjölgaði síðan í hægum skrefum fram að seinni heimsstyrjöldinni. Um aldamótin, árið 1901, voru íbúar í Borgarnesi 50 talsins. Árið 1940 var fjöldi íbúanna kominn upp í 629.

Á áttunda áratugnum var mikill uppgangstími í landbúnaði sem hófst reyndar á árunum strax eftir síðari heimsstyrjöldina. Þá var sláturhús í Brákarey stækkað mikið og byggt stórt mjólkursamlag í Borgarnesi. Uppganginn á áttunda áratugnum má sjá á því að íbúum fjölgaði um 40% frá 1970 til 1980, árið 1970 voru þeir 1.157 en árið 1980 voru þeir 1.619. Árið 1981 var Borgarfjarðarbrúin opnuð fyrir umferð. Framkvæmdir við hana hófust árið 1975. Um svipað leyti hófust framkvæmdir við Hitaveitu Akraness og Borgarness. Á þessum tíma var mikið af húsnæði byggt í Borgarnesi. Fyrir utan landbúnað og þjónustu við hann voru starfræktir fimm framhaldsskólar í Borgarfirði á þessum tíma, á Bifröst, Varmalandi, Reykholti, Borgarnesi og Hvanneyri. Þrír þeirra tengdust matvælaframleiðslu þar sem búfræði var kennd á Hvanneyri, húsmæðraskóli á Varmalandi og iðnskóli í Borgarnesi þar sem nema mátti mjólkur- og kjötiðn ásamt fleiru. Í dag eru aðeins tveir þeirra starfræktir að hluta til, en tveir háskólar hafa bæst við. Frá miðjum níunda áratugnum fjaraði hratt undan skólarekstri Húsmæðraskólans að Varmalandi og Héraðsskólans í Reykholti. Þó að héraðsskóli teljist hafa verið starfræktur í Reykholti á tímabilinu 1931 til 1997 (Heimskringla, 2004) var starfsemi hans aðeins svipur hjá sjón á tíunda áratugnum.  Árið 1995 var mjólkursamlaginu í Borgarbyggð lokað. Árið 1988 var Samvinnuskólinn fluttur upp á háskólastig og var nemendafjöldi nokkuð stöðugur í kringum 90 og starfsmenn um 15 nánast allan tíunda áratuginn en tók miklum breytingum við aldamótin og hélst nánast óslitið fram að bankahruni. Þennan tíma var stöðug uppbygging á aðstöðu, einkum nemendagarða og kennarabústaða. Við bankahrunið fækkaði nemendum að Bifröst. Skólastarf á Hvanneyri óx hægar á árunum fyrir bankahrun en tók vaxtarkipp eftir bankahrun. Þessu var fylgt eftir með uppbyggingu á aðstöðu.

Í dag eru úrvinnslugreinar landbúnaðarins horfnar úr Borgarfirði ef frá er talin lítil veisluþjónusta sem heitir Kræsingar. Þá hafa bændur og fáeinir aðrir aðilar verið að þróa með sér matvælaframleiðslu í smáum stíl og í anda „beint frá býli“ og hafa þeir aðgang að vottuðu eldhúsi í þeim tilgangi og selja vörur sínar í versluninni Ljómalind. Tvö fyrirtæki eru að vinna og verka fisk – Eðalfiskur í bleikum fiski og annar smærri aðili í hvítum. Þó hefur matsölustöðum fjölgað ört vegna útþenslu ferðaþjónustunnar og má segja að hægt sé að kaupa mat á 12 stöðum í Borgarnesi. Einhver ylrækt er í Borgarfirði en miklu minni en hún var á níunda áratug 20. aldarinnar. Þar má nefna Laugaland á Varmalandi sem framleiðir gúrkur og svo er all nokkur framleiðsla tómata, jarðarberja og papriku og fleiri grænmetistegundir á Kleppjárnsreykjum, Reykholti og nágrenni.

Þá eru framleiddar ýmsar vörur í Borgarfirði sem auka á fjölbreytni í matvælaframleiðsu þó það sé ekki í stórum stíl. Þar má nefna framleiðsla á víni, bjórnum Steðja, sultur og krydd.

 

Snæfellsnes

Útræði var víða Snæfellsnesi en eftir að vélbátavæðing hófst á Íslandi og mikilvægi góðra hafna fór að skipta meiru máli til að verja dýr fiskiskip þéttist byggðin þar sem þær var að finna í bland við nálægð gjöfulla miða. Það ásamt litlu undirlendi orsakaði að kjölfesta atvinnulífsins á norðanverðu Snæfellsnesi veiðar og vinnsla sjávarfangs.  Þó má segja að löngum hafi verið lögð talsverð áhersla á bolfiskvinnslu utarlega á nesinu en eftir því sem innar dró hafi áherslan aukist á veiðar og vinnslu á skelfiski. En skelfiskmiðin hrundu um aldamótin síðustu og árið 2002 voru veiðar bannaðar. Nú eru þó teikn á lofti að skelfiskveiðar geti hafist á ný.

Þá hefur vægi smábátaútgerðar verið meiri utar á nesinu og nær fengsælustu fiskimiðunum við odda þess, en áhersla á stærri skip meiri eftir því sem innar dregur og lengra frá miðum.

Breiðafjörður hefur verið kallaður matarkista vegna fengsælla fiskimiða og fjölbreytni sjávarfangs. Á Reykhólum í Barðastrandasýslu hefur verið þörungavinnsla sem nýtist í matvælaiðnaði erlendis en nýverið hafa aðilar á Snæfellsnesi sýnt því áhuga á að hefja uppbyggingu slíkrar framleiðslu.

Yst á Snæfellsnesi eru þrír byggðakjarnar: Ólafsvík, Rif og Hellissandur. Í Ólafsvík voru 496 árið 1900, 481 árið 1950 og 988 árið 2000. Í Rifi hefur Hagstofan engar tölur fyrr en 1997 en þá bjuggu þar 150 og 148 árið 2000. Á Hellissandi hefur Hagstofan fyrst tölur frá 1904 og þá bjuggu þar 186, 329 árið 1950 og 413 árið 2000.

Grundarfjarðarbær er yngsta þéttbýli á Snæfellsnesi.  Upp úr miðri 20. öld færðist mikill kraftur í uppbyggingu bæjarins. Árið 1950 voru íbúar þar 219 talsins, en tuttugu árum síðar var íbúafjöldinn kominn upp í 599 og 952 árið 2000. Burðarásar atvinnulífsins hafa að öðrum ólöstuðum verið Guðmundur Runólfsson og Soffanías Cecilsson sem báðir hafa stundað blandaða útgerð í botnfisk- og flatfisktegundum.  All nokkur skelfiskvinnsla var í Grundarfirði en liggur nú niðri. Nýlega keypti Fisk-Seafood á Sauðárkróki starfsemi Soffaníasar Cecilssonar og hyggst reka í óbreyttri mynd.

Í Stykkishólmi hefur verslun verið stunduð frá fornu fari. Þar ráku danskir kaupmenn verslun lengi vel.  Um síðustu aldamót, árið 1901, voru íbúar þar 363, 843 1950 og 1.229 árið 2000. Í Stykkishólmi hefur Sigurður Ágústsson verið umsvifamikill í sjávarútvegi.  Starfsemi þess fyrirtækis má rekja til ársins 1933 þegar Sigurður Ágústsson keypti þrotabú Tangs og Riis, síðustu leifar danskrar selstöðuverslunar á Íslandi. Þó Sigurður Ágústsson hafi aðallega verið í skelfiskvinnslu fyrir nokkrum árum er fyrirtækið núna í saltfiskframleiðslu, kavíarframleiðslu og reyktum fiski að auki. Þórsnes er annað stórt fiskverkunarfyrirtæki þar.  Sjúkrahús var byggt í Stykkishólmi 1934. Skipavík skipasmíðastöð er rekstur sem byggðist upp í skjóli öflugs sjávarútvegs og hefur verið rekin í marga áratugi í Stykkishólmi.  Í Stykkishólmi var mest unnið úr rétt rúmlega 14.000 tonnum af hráefni úr sjó árið 1983.  Síðan hefur þetta minnkað nokkuð jafnt og þétt og árið 2002 var unnið úr tæplega 6.700 tonnum.  Það ár komu rúmlega 7.500 tonn að landi í Stykkishólmshöfn.

Á sunnanverðu Snæfellsnesi hefur hefðbundinn landbúnaður verið stærsta atvinnugreinin. Núna allra síðustu árin hefur ferðaþjónusta verið að byggjast upp og eflast – því meira eftir því sem utar dregur og nær Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Þar er ekki mikil útgerð eða fiskiðnaður, þó einna helst á Arnarstapa.  Í Kolbeinsstaða, Eyja- og Miklaholtshreppi er stundaður hefðbundinn landbúnaður sem hefur dregist saman á undanförnum áratugum líkt og annars staðar á landinu.  Einn aðili hefur verið í úrvinnslu sjávarfangs með þurrkun sjávarafurða og hyggur á úrvinnslu þörunga. Á svæðinu hefur vottuðu eldhúsi í Breiðabliki verið komið upp í þeim tilgangi að efla framleiðslu í anda „beint frá býli“ og hafa heimamenn verið að prófa sig áfram. Undir þeim merkjum er starfræktur sveitamarkaðurinn Búsæld.

Á Snæfellsnesi eru margir í framleiðslu á matvælum á smáum stíl. Þar má nefna hákarlverkun, harðfisk, reyktan makríl, niðursoðna þorsklifur, kræklingaeldi, ígulkerjavinnsla, sæbjúgu og beitukóng.

 

Dalir

Búðardalur er þéttbýli Dalanna og er ungt í þeim skilningi að það byggðist upp á 20. öld. Íbúar voru 44 árið 1930, 99 árið 1960, 202 árið 1970, 292 árið 1990 og 259 árið 2000. Búðardalur byggðist fyrst upp sem þjónustukjarni við landbúnað en í dag er einnig farið að bera allnokkuð á ferðaþjónustu. Í frumvinnslugreinum sem reknar hafa verið þar má helst nefna mjólkurbú og sláturhús. Stærsta fyrirtækið og þar með stærsti vinnuveitandi staðarins er Mjólkurstöðin, en þar hefur tekist vel til með framleiðslu á margs konar vörum, sérstaklega ostum sem fara til dreifingar á landsvísu. Þá hefur starfsemin á Erpsstöðum vakið verðskuldaða athygli fyrir afurðir sínar þar sem lagt er mikið upp úr gæðum og ferskleika. Þetta er ís, skyr og rjómi. Þá þykir einnig hafa náðst verulegur árangur í framleiðslu á lambakjöti að Ytri-Fagradal sem alið er m.a. á villtri hvönn. Úrvinnsla á fiski hefur verið stunduð í sláturhúsinu í Búðardal, starfsemi sem hefur verið að þróast og tengist annars vegar laxeldinu á sunnanverðum Vestfjörðum og bættum samgöngum til Hólmavíkur. Verslun hefur verið rekin um langt árabil í Búðardal. Nýleg smábátahöfn er í Búðardal og með nýjum vegi yfir Bröttubrekku sem tekinn var í notkun árið 2003 og vegi yfir Þröskulda hafa opnast bæði ný tækifæri og af honum stafa jafnframt ógnanir. Ný og erfiðari staða í sauðfjárrækt er stór ógn við matvælaframleiðslu í Dölunum en þeir hafa lengi verið sterkir í þeirri grein.

 

Lokaorð

Vaxandi gróska hefur verið á öllu Vesturlandi varðandi nýjungar í matvælaframleiðslu á öllum sviðum, hjálpast þar að aukinn ferðamannastraumur um svæðið og tækifæri sem skapast samhliða honum í fjölgun veitingastaða og markaðssetningar á sérstöðu, matvælum framleiddum í heimabyggð. Í þessu sambandi má nefna salatræktun á gróðrarstöðinni Lágafelli við Vegamót á Snæfellsnesi, þróun á lífrænum vörum hjá Kaju á Akranesi og þróunarstarfi hjá „Hinu blómlega búi“ í Borgarfirði. Allt hefur þetta jákvæðar víxlverkanir þar sem t.d. vöxtur í ferðaþjónustu skapar tækifæri í aukinni framleiðslu á matvælum í héraði sem vonandi leiðir til markaðssetningar á landsvísu og jafnvel útflutnings. En stóru framleiðendurnir, þá aðallega í sjávarútvegi, bera höfuð og herðar yfir þróunarstarf, verðmæta- og atvinnusköpun á svæðinu og fyrirséð að þannig verði það áfram og góð blanda af smærri og stærri fyrirtækjum kallar einfaldlega á öflugra þróunarstarfs og meiri grósku í atvinnugreininni.

 

Vífill Karlsson og Ólafur Sveinsson

Höf. starfa við atvinnuþróun og rannsóknir hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.