Martröð í pípunum!

Fjóla Jóhannesdóttir

Fráveitukerfið er ekki hugsað til þess að taka á móti hverju sem er!

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá íbúum Akraness og Borgarness að undanfarna mánuði hafa staðið yfir umfangsmiklar fráveituframkvæmdir á vegum Veitna. Á Akranesi hafa fráveitulagnir verið lagðar í þeim tilgangi að veita frárennslinu áleiðis í nýja hreinsistöð sem gangsett verður á næstunni og í Borgarnesi hefur m.a. verið unnið að lagningu sjólagna frá Brákarey út í fjörðinn. Íbúar á svæðinu hafa sýnt framkvæmdunum skilning enda mikilvægt að fráveitumál séu í sem bestum farvegi.

Þessa dagana standa Veitur fyrir þemadögum fráveitunnar og er ekki úr vegi að nýta þá til að beina sjónum að sívaxandi vandamáli sem fráveitur í nútíma borgarsamfélögum standa frammi fyrir en það er aukin notkun blautklúta og áhrif þeirra í fráveitukerfunum. Sífellt meira pláss í hillum verslana fer undir klúta og þurrkur sem ætlað er að létta heimilisstörfin, þrífa börnin, andlitið á okkur sjálfum og botninn.

Fjöldi framleiðenda blautklúta merkir svo vöru sína þannig að neytendur gætu talið að í góðu lagi væri að sturta þeim niður í klósettið en staðreyndin era ð blautþurrkurnar leysast ekki upp í vökva líkt og hefðbundinn salernispappír, þrátt fyrir loforð sumra framleiðanda um annað. Blautþurrkur geta stíflað klósettið eða rör heimilisins og orðið að martröð í pípunum. Allar blautþurrkur, hvort sem þær eru ætlaðar til heimilisnota eða á líkamann, eiga heima í ruslafötunni eftir notkun.

Í dælu- og hreinsistöðvum fráveitna fellur einnig til talsvert af öðru sorpi sem íbúar hafa sturtað niður í klósettin eða látið renna ofan í vaska og niðurföll. Þar á meðal má nefna olíu og fitu, tannþráð, dömubindi, tíðatappa, verjur og eyrnapinna.  Fráveitukerfið er ekki hugsað til þess að taka á móti svona sendingum, í það á eingöngu að fara líkamlegur úrgangur og klósettpappír.

Tökum höndum saman og gerum betur í umgengni við klósettin heima hjá okkur.

 

Fjóla Jóhannesdóttir,

Höf er fagstjóri fráveitu Veitna

Fleiri aðsendar greinar