Margur er knár þótt hann sé smár

Eygló Harðardóttir

Þær hafa ekki alltaf verið háar í loftinu eða miklar um sig Framsóknarkonurnar af Skaganum. Ef eitthvað er þá hafa þær ítrekað sannað að sentímetrar segja lítið sem ekki neitt um hversu öflugur einstaklingur er við að fylgja eftir sínum hugsjónum og hugðarefnum, samfélagi sínu til hagsbóta.

Ég heyrði fyrst af Elsu Láru Arnardóttur fyrir alþingiskosningarnar 2013. Þá hafði hún vakið athygli fyrir mikið og gott starf sitt sem grunnskólakennari og þá umhyggju sem hún sýndi nemendum sínum. Þegar hún ákvað að gefa kost á sér á lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi og svo þegar hún tók sæti í þingflokki Framsóknarmanna eftir kosningar þá fengum við fljótt að kynnast því að Elsa Lára gerir ekkert af hálfum hug. Hvort sem um er að ræða hlaup upp og niður sitt heitt elskaða Akrafjall, endurskoðun á húsnæðiskerfinu, umbreytingar á almannatryggingum eða annað það sem krefst úthalds og þrjósku.

Því óskaði ég eftir að Elsa Lára tæki sæti í verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála á mínum vegum og lagði hópurinn til viðamiklar breytingar á húsnæðiskerfi landsmanna. Þegar niðurstöður verkefnisstjórnarinnar voru kynntar fengum við báðar að heyra að taldar væru allar líkur á að tillögur hópsins myndu safna ryki líkt og fjöldamargar aðrar skýrslur um húsnæðismál. Svo var aldeilis ekki og á þeim grunni rís nú nýtt verkamannabústaðarkerfi, þ.m.t. 33 leiguheimili á Akranesi á vegum Bjargs íbúðarfélags, ASÍ og BSRB og þúsundir um allt land.

Annað risaverkefni var heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar sem unnið hafði verið að árum saman og lítið komist áleiðis. Þar gaf Elsa Lára ekkert eftir sem varaformaður velferðarnefndar í að tryggja framgang lagabreytinga á Alþingi. Sú breyting leiddi til tuga prósenta hækkana á lífeyri eldri borgara, ekki hvað síst þeirra sem minnst höfðu.

Elsa Lára er leiðtogi, hún er réttsýn, ákveðin og með stórt hjarta og henni er einstaklega annt um bæinn sinn Akranes. Þetta eru allt eiginleikar sem góður sveitastjórnarmaður á að hafa. Því hvet ég þig, kæri Skagamaður, til að kjósa Elsu Láru Arnardóttur í bæjarstjórn Akraness. Það gerir þú með því að setja X við B þann 26. maí n.k.

 

Eygló Harðardóttir

Höf. er fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

Fleiri aðsendar greinar