Lýsing í Borgarnesi – þörf á vandaðri umræðu

Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir

Undanfarin misseri hefur lýsing í Borgarnesi tekið miklum breytingum. Með tilkomu LED-ljósa hefur orðið auðveldara að lýsa upp svæði, en um leið vakna spurningar um birtumengun, stemningu og hvort nægilega sé hugað að umhverfi og upplifun íbúa.

Ég bý nálægt Englendingavík og vil vekja athygli á lýsingu við höfnina og á nesinu hjá Bjössaróló. Í desember fyrir ári síðan voru sett upp skær hvít ljós á bryggjunni í Borgarnesi. Þar sem áður var hægt að njóta myrkurs og sjá norðurljós ríkir nú flæðilýsing sem hefur breytt verulega upplifun á svæðinu. Á veturna er höfnin aðallega notuð af fólki á rúntinum og gangandi vegfarendum sem koma þangað til að njóta kyrrðar og náttúru, en engin atvinnustarfsemi kallar á svo mikla lýsingu.

Frá gönguslóðanum við Englendingavík og fyrir nesið hjá Bjössaróló teygir þessi mikla lýsing sig langt og truflar þá sem vilja njóta sjávar og myrkurs. Ein einföld leið til að draga úr birtumengun væri að nota gular ljósaperur í stað hvítra. Slík lýsing er mildari og fellur betur að umhverfinu, það hlýtur að vera hægt að finna lausn sem tekur einnig mið af umhverfi og íbúum.

Í Skallagrímsgarði er lýsingin hins vegar til fyrirmyndar. Þar eru lágir staurar sem skapa notalega stemningu án þess að yfirgnæfa umhverfið, sú lýsing sýnir að hægt er að vanda til verka.

Nú liggja nokkrir 3–4 metra háir ljósastaurar í grasinu við Bjössaróló. Óljóst er hvar til stendur að setja þá upp. Hæðin á nesinu hjá Bjössaróló er einn fárra staða í Borgarnesi þar sem enn er hægt að finna myrkur. Þar koma gjarnan gestir og heimamenn til að skoða og taka myndir af norðurljósum. Ef lýsa á svæðið væri eðlilegt að horfa til lausna líkt og í Skallagrímsgarði.

Fram undan eru einnig áform um nýja lýsingu í Einkunnum með tilheyrandi kostnaði. Af því tilefni er full ástæða til að opna umræðu um lýsingu almennt í Borgarbyggð. Spyrja þarf hvort ætlunin sé að lýsa sem mest eða að vanda til verka og skapa lýsingu sem er í samræmi við náttúru, umhverfi og þá stemningu sem við viljum hafa í bænum og nærumhverfi hans.

Lýsing er ekki aðeins tæknilegt atriði heldur hluti af upplifun, menningu og ímynd staðarins. Vonandi verður lýsing á Bjössaróló unnin af alúð og í sátt við umhverfið, reynslan af höfninni sýnir hversu miklu máli slíkar ákvarðanir skipta.

 

Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir