Lyf og lögleysa í viðskiptum

Halldór Jónsson

Fyrir skömmu birtist í Skessuhorni lítil og sakleysisleg frétt um að Apótekarinn hygðist snúa aftur á Akranesi. Rætt var við framkvæmdastjóra félagsins um endurkomu félagsins í viðskiptalífið á Akranesi. Lýsti hann ástæðum endurkomunnar og nefndi hann meðal annars fólksfjölgun og starfsmann félagsins sem búsettur væri á svæðinu og langaði að vinna heima. Nauðsynlegt væri að bæta þjónustu við íbúa en fyrst og fremst væri það þó ákall íbúa sem varð til þess að fyrirtækið ákvað að láta slag standa og víst væri að íbúar tækju fyrirtækinu opnum örmum. Ekki er orðið samkeppni þó nefnt í fréttinni.

Framkvæmdastjórinn ræddi ekkert um viðskiptasögu fyrirtækisins á Akranesi. Því er ekki úr vegi að rifja hana upp í nokkrum orðum. Lyf og heilsa varð einrátt á lyfjamarkaði á Akranesi frá árinu 2000 þegar það keypti Akraness apótek af þáverandi apótekara. Lyf og heilsa hafði áður keypt nokkur önnur apótek víða um land og beitt til þess ýmsum miður þokkuðum aðferðum að því er fram kom síðar.

Árið 2007 opnaði Apótek Vesturlands og hófst þá samkeppni þessara fyrirtækja. Þá, eins og nú, voru í gildi samkeppnislög í landinu, sem setja markaðsráðandi fyrirtækjum ákveðnar skorður. Í fyrstu reyndu stjórnendur Lyfja og heilsu að koma í veg fyrir samkeppnina með því að bjóða lyfsala Apóteks Vesturlands vinnu gegn því að hætt yrði við opnun hins nýja apóteks. Þegar það gekk ekki hófust miklar aðgerðir sem áttu ekki aðeins að skaða rekstur Apóteks Vesturlands verulega heldur einnig að „senda skýr skilaboð til annarra aðila um að ekki myndi borga sig að reyna innkomu á a.m.k. þeim landfræðilega markaði,“ segir orðrétt í úrskurði Samkeppnisstofnunar á sínum tíma og var þar átt við höfuðborgarsvæðið. Aðgerðir þessar reyndu mjög á fjárhagsleg þolrif Apóteks Vesturlands. Brot Lyfja og heilsu voru af ýmsum toga en ekki er ástæða til þess að rekja þau nánar í stuttri blaðagrein.

Að vonum kvörtuðu eigendur Apóteks Vesturlands til Samkeppniseftirlitsins. Það tók Samkeppniseftirlitið rúm þrjú ár að komast að niðurstöðu en hún var afdráttarlaus. Orð eins og skipuleg atlaga, skýr ásetningur, röskun samkeppni, misnotkun gefa til kynna hversu alvarlegum augum Samkeppniseftirlitið leit framferði eigenda og stjórnenda Lyfja og heilsu. Var fyrirtækinu gert að greiða 130 milljóna króna sekt til ríkissjóðs. Nánar má lesa um sögu þessa í ákvörðun 4/2010 á vef Samkeppnisstofnunar. Íbúar á Akranesi létu ekki bjóða sér framkomu og viðskiptahætti sem þessa og 1. mars 2012 lokaði fyrirtækið apoteki sínu á Akranesi.

Aldrei báðu forsvarsmenn Lyfja og heilsu viðskiptavini fyrirtækisins eða íbúa á Akranesi afsökunar á stórfelldum brotum sínum. Af frétt Skessuhorn má ráða að þeir hafa ekkert lært á þeim átta árum sem liðin eru frá úrskurðinum. Þeir vonast því væntanlega til þess að íbúar á Akranesi og nágrenni hafi gleymt þessari sögu.

Að síðustu er rétt að geta þess, svo alls réttlætis sé gætt, að stærsti eigandi Lyfja og heilsu á umræddum tíma, þurfti í kjölfar fangelsisdóms og milljarða sektargreiðslna og selja eignarhlut sinn. Svo heppilega vildi til að sonur hans um tvítugt hafði fjárhagslega burði til þess að kaupa þennan verslunarrisa.

Samkeppni í viðskiptum er nauðsynleg og kemur neytendum oftast til góða til lengri tíma litið. Það skiptir hins vegar máli hvernig samkeppni er beitt og að landslög og siðferði séu virt. Ég trúi því að um það séu flestir sammála og beini viðskiptum sínum í samræmi við þá skoðun.

 

Halldór Jónsson.

Höfundur er áhugamaður um samkeppni í viðskiptum.

Fleiri aðsendar greinar