Lögreglu(upp)nám

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

Nú hefur menntun lögreglu verið færð á háskólastig. Það er fagnaðarefni. Rektor Háskólans á Bifröst skrifar grein í Skessuhorn og er ósáttur við þá ákvörðun menntamálaráðherra að finna náminu stað við Háskólann á Akureyri, sem matsnefnd gaf næsthæstu einkunn þeirra fjögurra skóla sem sóttu um að taka við náminu.

Það hefur verið sameiginleg sýn lögreglumanna og innanríkisráðuneytisins að færa námið á háskólastig líkt og annars staðar á Norðurlöndunum. Ákvörðun um staðsetningu hefur aftur á móti aldrei verið á borði innanríkisráðuneytisins, ákvörðun um það er á vegum menntamálaráðuneytisins, líkt og rektor Háskólans á Bifröst veit.

Greinarhöfundur er ekki einungis ósáttur við menntamálaráðherra og ákvörðun hans, hann er ósáttur við mig, sem hann telur að gegni starfi aðstoðarráðherra í innanríkisráðuneytinu og segir: „Hún hefur aldrei getað séð glætu í því að að taka pólitíska ákvörðun um að fara með lögreglunám í Háskólann á Bifröst…“ Greinarhöfundur er sem sagt óánægður með að menntamálaráðherra hafi skipað matsnefnd. Hann er líka ónáægður með að menntamálaráðherra hafi tekið aðra ákvörðun en hann sjálfur vildi. Hann vildi pólitíska ákvörðun, sem hefði þá samkvæmt þessu átt að taka í öðru ráðuneyti en menntamálaráðuneytinu og af öðrum en ráðherra. Sem sagt mér. Sem hann kallar aðstoðarráðherra en veit vel að slík staða er ekki til, hvorki í orði né á borði.

Því er haldið fram að ég hafi ekki sýnt málinu þann áhuga sem greinarhöfundur hefði viljað sjá. Minn áhugi lá í því að færa lögreglunám á háskólastig af því ég tel það skipta máli fyrir lögregluþjóna í landinu og að efling lögreglumenntunar skili almenningi betri löggæslu og aukinni færni til að takast á við breytt verkefni löggæslunnar.

Greinarhöfundur er sem fyrrverandi þingmaður hissa á því að ég skuli vera að bjóða mig fram. Ég hef hins vegar nokkuð skýra hugmynd um það hvernig þingmaður mig langar að verða. Mig langar til að vinna fyrir almenning. Mig langar til að reka heiðarlega, málefnalega og sanngjarna pólitík. Og – þótt rektor haldi annað – langar mig til að efla Norðvesturkjördæmi á alla lund. Þess vegna er ég í framboði.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Höfundur er aðstoðarmaður innanríkisráðherra og sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar