Ljósleiðari á hvert heimili

Ásmundur Einar Daðason

Fjarskiptasjóður gekk í síðustu viku frá samkomulagi vegna ljósleiðaratenginga í 14 sveitarfélögum. Samkomulagið felur í sér að tengja 900 staði með ljósleiðara og um 200 staði með ídráttarröri fyrir ljósleiðara. Það fjármagn sem nýtt er til verksins kemur til vegna fjárveitingar sem lagðar voru til af hálfu fjárlaganefndar Alþingis við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2016. Sveitarfélög sem fá styrk eru Borgarbyggð, Húnaþing vestra, Súðavíkurhreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður, Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Norðurþing, Fljótsdalshérað, Svalbarðshreppur, Þingeyjarsveit, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og Kjósarhreppur.

 

 

Orðum fylgja athafnir

Fyrir þremur árum var ekki í gangi vinna við að ljósleiðaravæða sveitir landsins og stefnan var sú að 3G tengingar væru nægilegur gagnaflutningur fyrir stór landsvæði. Þetta breyttist vegna þess að ákveðið var að setja ljósleiðaravæðingu sveitanna sem forgangsmál í aðdraganda síðustu kosninga. Framsóknarflokkurinn lagði mikla áherslu á þetta mál enda er þetta einn af stærstu þáttunum sem hafa áhrif á búsetuval ungs fólks. Í grein sem formaður, varaformaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins skrifuðu í Morgunblaðið 30. mars 2013 sagði:

“Ríkisstjórnin ætti að hafa frumkvæði að því að kalla saman fjarskiptafyrirtækin og leggja áherslur á að nýta Fjarskiptasjóð í slíkt verkefni. Allir fjarskiptaaðilar geta veitt þjónustu á kerfinu. Mikilvægt er að allir landsmenn geti fengið jafna og góða þjónustu á sama verði. – Fyrir þessu höfum við framsóknarmenn talað. Með samstarfi allra aðila ásamt sveitarfélögunum væri hægt að ljósleiðaravæða landið á nokkrum árum.”

 

Forystumenn Framsóknarflokksins sögðu jafnframt: “Ný heildstæð byggðastefna er nauðsynleg. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að um hana ríki víðtæk sátt. Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Eitt fyrsta skrefið ætti að vera ljósleiðaravæðing alls landsins.” Þessi stefna var sett fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og unnið hefur verið eftir henni frá síðustu kosningum. Til þess að fylgja þessu eftir þá ákvað ríkisstjórnin að fela tveimur stjórnarþingmönnum, þeim Páli Jóhanni Pálssyni frá Framsóknarflokki og Haraldi Benediktssyni frá Sjálfstæðisflokki, að fara ofan í málið og móta tillögur um hvernig best væri að vinna málinu framgang. Þeir hafa staðið sig vel í sinni vinnu og skilað af sér tillögum sem ákveðið var að vinna eftir.

 

Fjárlaganefnd Alþingis tók forystu

Afgreiðsla fjárlaganefndar á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 og 2016 hefur verið ánægjuleg staðfesting á því að ríkisstjórnin ætli líkt og bent var á fyrir síðustu kosningar að beita sér fyrir bættum fjarskiptum. Það er mikilvægt að allir sitji við sama borð þegar kemur að þessum málum og ljósleiðaravæðing gegnir þar lykilhlutverki. Fyrir það fjármagn sem fjárlaganefnd lagði fram á síðasta ári þá var lokið við hringtengingu á ljósleiðara á nokkrum svæðum auk þess að undirbúa verkefnið frekar. Í fjárveitingu þessa árs þá er hin eiginlega ljósleiðaravæðing að hefjast.

 

Fjármagn til að klára verkið á næstu árum

Nú er það svo að færri komast að en vilja í fyrstu umferð. Það er hinsvegar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum þá varð stefnubreyting í þessum málaflokki. Nú talar enginn um að 3G tengingar séu nægilegar góðar fyrir sveitir landsins. Eftir að ljósleiðaravæðingunni hefur verið fleytt formlega af stað þá mun enginn snúa við þessari stefnumörkun. Verkefnið er hinsvegar að þetta geti gengið sem hraðast fyrir sig og framundan er barátta við að tryggja sem mest fjármagn til verksins. Markmiðið er að innan nokkura ára þá sé búið að ljósleiðaravæða allar sveitir landsins.

 

Ásmundur Einar Daðason

Höf. er formaður þingflokks Framsóknarflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis