Litla jólabarn

Kristján Gauti Karlsson

Ég hef alltaf verið lítið jólabarn. Ekki í þeim skilningi að ég sé lítið barn sem iðar í skinninu yfir komu hátíðanna, heldur þvert á móti. Ég hef aldrei verið sérlega gefinn fyrir jólin. „Hégómi,“ eins og Ebeneser Skröggur lýsti jólunum, er það sem ég tengdi hvað sterkast við þegar ég horfði á Disney útgáfuna af Jólasögu Charles Dickens sem barn. Þegar Skröggur gamli, sá nirfill og nískupúki, hleypti síðan gleði jólanna í hjarta sitt undir lok sögunnar varð ég alltaf fyrir jafn miklum vonbrigðum, sama hversu oft ég horfði (börn vita jú ekkert skemmtilegra en að horfa aftur og aftur og aftur á sömu teiknimyndina). Ef einhver hefur ekki lesið Jólasögu eða séð einhverja af fjölmörgu kvik- eða teiknimyndum byggða á henni biðst ég afsökunar á að hafa ljóstrað því upp hvernig hún endar.

Hvers vegna ég hef í gegnum tíðina verið jafn lítið gefinn fyrir jólin og raun ber vitni veit ég ekki. Líklega er þetta samspil erfða og umhverfis, eins og gildir um allt sem hegðar sér hérna undir sólinni.

Nú í seinni tíð hefur hins vegar borið æ meira á eftirvæntingu, tilhlökkun og jafnvel jólaspenningi hjá mér á aðventunni. Þó mér sé það þvert um geð. Ég naut þess nefnilega að vera nettur Grinch, jafnvel smá Skröggur á köflum, í aðdraganda jólanna. En núna hef ég, kominn fast að þrítugu, ítrekað gripið sjálfan mig við að hlusta á Fairytale of New York á fullu blasti og öskursyngja með svo snemma sem um miðjan desember. Tala nú ekki um White Christmas í flutningi Louis Armstrong, Satchmo sjálfs. Maður minn! Hó, hó, hó! Þvílíkt jól! Þar er lag sem kemur mér alltaf í jólaskapið. Helvítis jólaskapið. Skap sem ég elskaði að hata, en hata nú að elska.

En svei mér þá ef ég er ekki bara alveg að komast yfir það að hata að elska jólaskapið. Mér finnst rosa gaman að velja jólagjafir fyrir mitt fólk, þykist meira að segja vera dálítið lunkinn að velja gjafir sem hver og einn kann að meta. Að sjá og heyra af gjöf sem fellur í kramið þykir mér afar vænt um, svo það er eins gott að þið sem fáið vonda pakka frá mér þessi jólin gerið ykkur upp nær óstjórnlega ánægju með gjöfina, helst alveg hysteríska gleði. Það þætti mér nógu fyndið til að fyrirgefa sjálfum mér með tíð og tíma að hafa valið vondan pakka.

Ólíkt því sem margir hafa tjáð mér þykja mér jólin skemmtilegri eftir að ég varð fullorðinn. Vinir mínir eru sumir hverjir farnir að upplifa jólin á ný í gegnum börnin sín og verður spennandi að sjá þá lifa djammið í gegnum börnin þegar þar að kemur. Ég hins vegar er barnlaus, að því er ég best veit (he he) og þekki því ekki tilfinninguna að vera vakinn allt of snemma á aðfangadagsmorgun af yfirspenntum börnum sem suða síðan stanslaust um að fá að opna pakka allan daginn.

Samt sé ég nú sjarmann í því. Hvers vegna ég er að verða meyrari í garð jólanna með hverju árinu veit ég ekki. Líklega er þetta samspil erfða og umhverfis, eins og gildir um allt sem hegðar sér hérna undir sólinni.

Greinin birtist fyrst sem leiðari í 50. tbl. Skessuhorns miðvikudaginn 11. desember.