
Leiðinleg lesning um peninga og fleira
Finnbogi Rögnvaldsson
Á Íslandi sem víðast hvar árar stundum illa og stundum vel. Síðustu 30 ár hafa verið landsmönnum hagfelld að flestu leyti þegar kemur að landsháttum, veðurfar hefur verið gott og aflabrögð sæmileg, álverð að mestu hátt og ferðamenn tóku að venja komu sína til landsins í vaxandi mæli eftir eldgos í Eyjafjallajökli árið 2010. Engu að síður hefur efnahagurinn sveiflast mikið og í lok árs 2008 varð algjört hrun vegna stórfelldra mistaka sem gerð voru í rekstri fjármálakerfisins. Þrátt fyrir að eitt og annað hafi verið gert í framhaldi af því hruni til að minnka líkurnar á því að eitthvað því líkt gerist aftur má segja að með ólíkindum lítið hafi verið gert til að tryggja hér stöðugleika í efnahagsmálum.
Hið opinbera
Ísland er ungt lýðveldi. Á vissan hátt má segja að stjórnsýslan sé enn yngri, örar samfélagsbreytingar hafa gjörbreytt uppbyggingu stjórnsýslunnar frá þrískiptu kerfi með ríkisvaldi, sýslum og hreppum í núverandi kerfi ríkisvalds og sveitarfélaga sem í raun skiptist í bæi og hreppa þó formlega eigi sveitarfélög að heita eitt stjórnsýslustig.
Ekki verður annað sagt en ákveðið agaleysi ríki í fyrirkomulagi stjórnsýslunnar, sífelldar tilraunir til sameiningar sveitarfélaga kosta tíma og peninga. Ríkisvaldið býr við mikið agaleysi þegar kemur að skipulagi stjórnsýlunnar, ráðuneyti eru sameinuð og lögð niður af miklum móð sem gerir stjórnsýsluna óhagkvæmari og ómarkvissari en þyrfti að vera.
Skuldsetning hins opinbera
Við búum í litlu samfélagi smákónga og sérhagsmuna. Þess sjást enn víða merki í mannaráðningum og ákvörðunum á opinberum vettvangi. En það er margt annað en það sem að ofan er nefnt í skipulagi stjórnsýslunnar sem gerir það að verkum að hagkerfið sveiflast meira en þyrfti að vera. Eitt af því held ég að sé fjármálastjórn bæði hjá sveitarfélögum og ríkinu. Eðlilegt væri að setja þessum stofnunum skorður þegar kemur að skuldsetningu, ríkið hefði t.d. ekki heimild til að skulda meira en 50% af landsframleiðslu síðustu þriggja ára eða eitthvað í þeim dúr.
Rekstur sveitarfélaga
Sveitarfélög eiga að sinna ákveðnum verkefnum að lögum. Þau búa hinsvegar við frelsi til að taka að sér hvað eina sem öðrum er ekki falið að lögum. Til skamms tíma voru þeim auk þess ekki settar neinar skorður þegar kom að skuldsetningu þó eftirlitsnefnd væri til sem ætlað var að passa uppá að ekki færi allt úr böndunum. Þetta fyrirkomulag virkaði ekki vel og eftir hrun voru settar reglur um hámark skulda sem hlutfall af tekjum.
Ef sveitarfélögum væri sett skýrara hlutverk en nú er, þau væru sameinuð og heimild þeirra til lántöku yrði skert verulega eða afnumin yrði þessi hluti stjórnsýslunnar mun skilvirkari en nú er. Eins þyrfti að losa menn undan bókhaldsbrellum í opinberum rekstri. A-hluti og B-hluti eiga hugsanlega rétt á sér í bókhaldi sveitarfélaga til að sýna hvers eðlis rekstur þeirra er en það er út í hött að ekki sé skýrt að veitufyrirtæki sem þjónusta íbúa sveitarfélaga og eru í þeirra eigu séu í efnahagsreikningi þeirra meðhöndluð líkt og leikskóli eða skrifstofa. Ef þessi fyrirtæki eru í annars konar rekstri en beinni þjónustu við íbúana á að aðgreina hann með skýrum hætti frá öðrum rekstri. Menn geta þá tekist á um það á grundvelli stjórnmála að hve miklu leyti opinberir aðilar eiga að reka þetta fyrirtæki eða hitt. Heimild sveitarfélaga til að gera hvað eina sem kjörnum fulltrúum dettur í hug þarf að takmarka miklu meira en nú er gert.
Það að skerða heimildir sveitarfélaga til lántöku meira en nú er gert myndi auk þess hjálpa til við það og draga úr sóun í samfélaginu sem hlýst af því þegar opinberir aðilar taka há lán á skömmum tíma líkt og oft hefur gerst á undanförnum áratugum.
Finnbogi Rögnvaldsson