Laxveiðar og Landbúnaðarsafnið

Ragnhildur Helga Jónsdóttir og Anna Heiða Baldursdóttir

Árið 2014 varð Landbúnaðarsafn Íslands viðurkennt safn. Með þessari viðurkenningu tók safnið að sér aukna ábyrgð á varðveislu, miðlun og rannsóknum á menningararfi tengdum íslenskum landbúnaði sem og ákveðnar skyldur sem söfn af þessari gráðu tileinka sér við þessa breytingu á stöðu þeirra. Safnið er smátt í tvennum skilningi. Annars vegar er það að safnkostur þess telur einungis ríflega 1000 muni. Hins vegar er að safninu eru einungis ætluð 0,3 stöðugildi. Það er starfsmaður í einungis 30% stöðu sem sér um daglegan rekstur, umsjón og móttöku gesta, eftirlit með safnkosti, rannsóknir, vinnu á sviði varðveislu og miðlunar og svo lengi mætti telja. En safnið býr að góðum mannauði, bæði innan og utan þess, og með töluverðri útsjónarsemi hefur smá saman safnast í sarpinn til að efla faglega starfsemi þess.

Saga laxveiða í Borgarfirði

Nú síðast hefur safnið tekist á við afar metnaðarfullt verkefni sem vakið hefur talsverða athygli fyrir bæði efnistök sem og umfang. Hér ræðir um verkefnið Saga laxveiða í Borgarfirði sem hlaut meðal annars öndvegisstyrk frá Safnaráði Íslands ásamt styrkjum frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Allt fjármögnun sem hefur gert safninu kleift að ýta úr vör rannsóknum, varðveislu og miðlun á yfirgripsmikilli atvinnugrein hér í Borgarfirði síðustu aldir. Heimildir um laxveiðar í héraðinu má finna meðal annars frá 18. öld, í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (en ekki Gísla Einarssonar). Þar segir um laxveiðar að þær séu hluti af sumarstörfum Borgfirðinga og Mýramanna en þær stundi héraðsbúar; „af kappi“. En margt hefur breyst síðustu 300 árin og nú mætti segja að íbúar héraðsins stundi veiðarnar sjálfar takmarkað en nýta sér þessi hlunnindi á annan hátt en áður. Atvinnugreinin í dag, sala veiðileyfa og störf þeim tengdum er einn stærstu tekjupóstur landbúnaðar í Borgarfirði og veltir greinin milljörðum á ári hverju.

Í haust hélt Landbúnaðarsafnið kynningu á þessu metnaðarfulla verkefni þar sem tjaldað er til næstu ára. Með til að mynda ráðningu starfsmanns með sérfræðiþekkingu á sviði safnastarfs, söfnun muna, frásagna og ljósmyndum tengdum viðfangsefninu og að lokum miðlun á efninu í formi kennsluvefs, útgáfu greinasafns og sýningu á sögu laxveiða í Borgarfirði. Víða verður komið við í þessu verkefni þar sem reynt verður að gera grein fyrir þróun, sögu og áhrifum greinarinnar á nærsamfélagið, líffræði og náttúru laxins og ánna, veiðisögur og lífið í veiðihúsunum ásamt öðru sem tengist veiðunum. Markmiðin eru fjölþætt en helst mætti nefna nokkrar vörður eins og að rannsaka sögu laxveiða, draga fram sérstöðu atvinnugreinarinnar fyrir svæðið og varðveita og miðla á fjölbreyttari hátt menningararfi til samfélagsins. Þar sem til að mynda verður unnið að kennsluvef sem skólar hér í héraði (og aðrir) geta nýtt sér þá þekkingu sem verður til.

Lumar þú á heimildum?

Ljóst er að þetta verkefni er afar stórt í sniðum en við innan Landbúnaðarsafnsins höfum mikla trú og metnað fyrir því sem koma skal og erum full af bjartsýni að þetta takist í samvinnu við áhugasama einstaklinga, stofnanir og nærsamfélag okkar. Í safnalögum segir að viðurkennd söfn séu rekin til að þjóna íslensku samfélagi með það fyrir sjónum að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda. Því verður þó ekki neitað að söfn þurfa á samfélaginu einnig að halda svo gott sé. En sú staðreynd leiðir okkur að helsta tilgangi þessarar greinar, en það er að biðja ykkur lesendur góðir um aðstoð við söfnun heimilda um sögu laxveiða. Safnkostur Landbúnaðarsafnsins er aðallega samansettur af vélum og tækjum tengdum vélvæðingu landbúnaðarins á 20. öld. Því leitum við hér með eftir munum sem notaðir voru við laxveiðar, ljósmyndum af veiðum í ám héraðsins, veiðihúsum, fólki sem vann/vinnur í greininni o.s.frv. Þetta geta verið gripir úr veiðihúsum, ferðalögum til veiða, veiðarfæri, fatnaður eða annar útbúnaður, dagbækur eða frásagnir af veiðum eða félagsstörfum þeim tengdum. Markmiðið er að safna fjölbreyttum heimildum um margbrotna atvinnugrein sem hefur sannarlega sett mark sitt á svæðið. Nú og ef þið lumið á einhverju öðru eins og upplýsingum, frásögnum eða ábendingum tökum við glöð á móti því enda gerir margt smátt eitt stórt!

Starfsmenn Landbúnaðarsafnsins taka við ábendingum í gegnum tölvupóstföngin ragnhildurhj(hja)lbhi.is og annaheida(hja)lbhi.is eða í gegnum skilaboðaskjóðu facebooksíðu safnsins. Safnasíminn er svo eftirfarandi 844 7740. Að lokum viljum við einnig nýta tækifærið og þakka fyrir þá aðstoð sem við höfum fengið í gegnum tíðina frá samfélaginu okkar. Hvort heldur sem er í þessu verkefni eða öðru sem safnið hefur tekið sér fyrir hendur þar sem stuðningurinn reið oft á tíðum baggamuninn.

Ragnhildur Helga Jónsdóttir og Anna Heiða Baldursdóttir.
Landbúnaðarsafn Íslands