Lávarður yfir óheppilega illa nefndu landi

Geir Konráð Theódórsson

Lord Geirs papers.

Það gleður mig að tilkynna ykkur að ég hef eignast jörð í útlöndum, þökk sé rausnarlegri gjöf frá Bjarna Frey frænda mínum. Samkvæmt vafasömu skjali af veraldarvefnum sem hann sendi mér þá má ég núna kalla mig lávarð yfir þessari jörð – sem er að vísu bara túnblettur. Já, samkvæmt þessu skjali á Geir Konráð lávarður blettinn H573206 einhversstaðar í Wigtownshire í Skotlandi – þökk sé gamansömum útúrsnúningum á lögum og hefðum í gegnum fyrirtækið Established Titles. Þessi gjöf kom mér til að brosa út að eyrum, en þegar ég skoðaði skjalið nánar hugsaði ég að H573206 sé bara alls ekki nógu gott nafn á minni glæsilegu jörð, ég meina glæsilega bletti – ég allavega vona að bletturinn sé glæsilegur. Samkvæmt skjalinu munu mínir afkomendur erfa jörðina og titilinn, og ég tel þetta því kjörið tækifæri að nefna túnblettinn almennilega svo þetta verði kannski upphaf að þrusugóðu ættarnafni.

Ættarnöfn hafa nefnilega heillað mig lengi þrátt fyrir þá staðreynd að á Íslandi eru ættarnöfn fátíð og aðeins leyfð með einhverjum undantekningum í árans mannanafnalögunum. Samkvæmt Árnastofnun eru yfir 600 ættarnöfn á skrá og einhver þúsund af Íslendingum bera einhverskonar ættarnafn. Mörg af þeim ættarnöfnum sem mér hefur þótt hljóma töff eru í raun afbökun á staðarheitum tengd ættinni. Til dæmis er Blöndal afbökun á staðarheitinu Blöndudalur í Húnaþingi, Briem er afbökun á staðarheitinu Brjánslækur í Barðarstrandarsýslu og Vídalín er afbökun á staðarheitinu Víðidalur í Vestur-Húnavatnssýslu. Ég hoppaði því á internetið og fór að skoða íslensk örnefni til að fá innblástur fyrir almennilegu nafni til að gefa túnblettinum mínum, sem væri svo hægt að afbaka í eitthvað flott ættarnafn handa afkomendum mínum.

Kortasja.lmi.is og vefsja.is eru alveg hreint magnaðir vefir. Þarna er samansafn af opinberum gögnum sem birtast manni á auðskiljanlegan og myndrænan hátt. Viltu sjá helstu staði sem koma fram í Íslendingasögunum, smelltu þá á hnapp. Hvað með útbreiðslu alaskalúpínunnar á Íslandi, smelltu á annan hnapp. Deiliskipulög, virkjanir, jarðhitaholur, mikilvæg fuglasvæði, vörður, berjalönd, kvikmyndatökustaðir, flutningskerfi raforku, gömul hrepparmörk, dönsk herforingjaráðskort, þetta og svo miklu meira er þarna aðgengilegt fyrir alla að skoða.

Það er margt sem freistar á þessum síðum, en það voru örnefnin sem ég vildi skoða og því ferðaðist ég stafrænt vítt og breytt um landið í leit að áhugaverðum nöfnum. Ég gleymdi mér alveg. Klukkutímum saman, eins og einhver yfirnáttúruleg vera, þá gat ég flogið yfir landið á ógnarhraða og horft niður á hæstu fjöll, afskekktar eyjar, vötn og byggðir og vitað nöfnin á öllu sem ég vildi. Ef ég vildi forvitnast um söguna á bakvið eitthvað nafn þá gat ég flett því upp á vefnum nafnid.is og séð þar heimildirnar á bakvið kortin. Oft var fátt um svör, en stundum kom skemmtileg skýring á einhverju einföldu nafni. Eins og að Biskupshóll í Leirárssveit er nefndur eftir einhverjum biskup sem missti hest þar frá sér, en í stað þess að taka eitt eða tvö skref eins og sérhver almúgamaður hefði gert, þá frekar hlammaði hann sér á hólinn og beið þar í fýlu þar til fólk úr sveitinni kom með hesta handa honum. Fýluskapur sem svo bergmálar niður aldirnar með þessari nafnagift.

Ég rak augun í töff örnefni sem ég kannaðist við á þessum kortum, eins og Leggjabrjót, en það er best að passa sig því þegar ég smellti á kortið komu 5 staðir á Vesturlandi með þessu varasama nafn. Svo kom það mér á óvart að Drekkingarpyttur er rétt fyrir neðan Heiðarborg í Leirárssveit þar sem ég vinn núna – ég veit ekki alveg með svona nafn rétt hjá sundlaug. En til að vega upp á móti þessu niðurdrepandi nafni þá fann ég Himnaríki, það þarf ekkert að spyrja prest um hvernig maður á að komast þangað, Himnaríki er bara rétt fyrir aftan Tjaldfell, milli Skjaldbreiðar og Þórisjökuls. Eftir þó nokkra skoðun var niðurstaðan sú að það er fullt af glæsilegum örnefnum á Íslandi, mörg sem hljóma svo vel að ég vil gjarnan gera mér ferð sem fyrst til að skoða þessa staði. Glæsivellir, Fagrihvammur, Unaðsdalur, Fríðá, Gleðivík, Góðhagar eða Skínandi, þetta eru nöfn sem eru verðug að tengjast lávarðatitlinum og mögulegu ættarnafni.

En ég gat ekki ákveðið mig, fjöldinn af þessum nöfnum gaf mér valkvíða og ég vildi líka helst að nafnið væri úr því nærumhverfi sem mér þykir vænst um, það er að segja Borgarfirðinum. Það er bara eitt að gera í svona stöðu. Loka augunum, hringla kortinu af Borgarfirði til og frá í tölvunni, setja fingur á skjáinn, opna augun og láta nafnið bara ráðast af tilviljun.

Bölvað, fari það allt í opið og hurðarlaust horngrýti! Samkvæmt örlögunum er ég víst lávarðurinn af Æluengi í Skotlandi – nefnt eftir stað sem er skammt frá Handklæðisholti hjá Hvanneyri í Borgarfirði. Það verður einhvern veginn að afbaka þetta staðarheiti vel og vandlega, annars heyri ég að mér bölvað úr framtíðinni, afkomendurnir allir saman komnir á ættarmóti hjá Æluengjaættinni. Kannski best að breyta þessu strax í Sæluengi, það hljómar miklu betur.

 

Geir Konráð Theódórsson