Lausaganga og lausatök

Steinar Berg

Fyrir réttu ári síðan skrifaði ég grein í Skessuhorn undir nafninu „Lausaganga og lausamennska.“ Þar var fjallað um lausagöngu búfjár og ófaglega umgjörð sauðfjárbúskapar, sem stundaður er að mestu í lausamennsku og ábyrgðarleysi gagnvart umhverfi og íbúum sveitafélagsins.

Greinin var svo send sem hluti erindis til sveitarstjórnar Borgarbyggðar um bann á lausagöngu búfjár með tilvísun til fjallskilasamþykktar Borgarbyggðar. Þar stendur í 6. gr. „Hafa má allt sauðfé í heimalandi, ef það er girt fjárheldri girðingu eða ef sveitarstjórn skyldar ekki fjáreigendur til að flytja fé sitt í afrétt.“

Vandinn er hinsvegar að engin eftirfylgni er á hvort girðingar séu fjárheldar kjósi sauðfjárbóndi að halda fé sínu heimavið. Raunin er því að hluti sauðfjár gengur með vegum og leitar inn í annarra manna lönd og lóðir algjörlega afskiptalaust af eigendum.

Greinin fékk afar góð viðbrögð og umræðu í héraðsmiðlum og víðar þannig að gera hefði mátt ráð fyrir að sveitarstjórn Borgarbyggðar tæki erindið alvarlega. Svo var þó ekki. Samskonar vinnubrögð einkenna sveitarstjórnina og sauðfjárbændur. Málefnalegt, rökstutt erindi er einfaldlega dissað. Skoðum ferlið.

Erindi um bann við göngu lausafjár í heimalöndum var sent til byggðarráðs, sem vísaði því til umhverfis- og landbúnaðarnefndar. Engin efnisleg umræða átti sér stað, heldur var erindið sent áfram til fjallskilanefndar, þar sem sauðfjárbændur sitja. Ekki er að sjá á fundargerð nein merki málefnalegrar umræðu en niðurstaðan er samt skýr: „Fjallskilanefnd Borgarbyggðar telur erfitt eða óframkvæmanlegt að framfylgja lausagöngubanni. Nefndin leggur því til að ekki verði unnið að slíku banni.“ Sveitarstjórn samþykkti svo niðurstöðu fjallskilanefndar á fundi sínum 12. september 2019, án athugasemda.

Sem sagt sveitarstjórn Borgarbyggðar framselur erindið til sérhagsmunaaðilans sem kvartað er undan og gefur honum sjálfdæmi. Þetta eru afkáralegir stjórnunarhættir og vanvirðing við brotaþolann sem bar upp málefnanlegt erindi, svo og alla þá íbúa sem tjáðu sig um málið og gera kröfu um skilmerkilega meðhöndlun ábendingar um að farið sé á svig við fyrirliggjandi samþykktir sveitafélagsins.

Lausaganga búfjár er afleitur og furðulegur búskaparháttur, sem á sér ekki stað hjá neinni annarri þjóð. Landgræðslustjóri, sté nýlega fram í fjölmiðlum og mælti fyrir því að lausaganga búfjár yrði bönnuð á Íslandi. Benti á að slíkt hafi verið gert á hinum Norðurlöndunum fyrir 150 árum og að kostnaður ríkisins t.d. vegna girðinga meðfram vegum næmi um 500 milljónum króna árlega. Lausafjárgagna hefur verið bönnuð í sveitarfélögum hérlendis enda er heimild til þess.

Margir aðrir hafa og fært afar sterk rök fyrir því að banna lausagöngu búfjár. Má t.d. nefna samtök bifreiðaeigenda, samtök skógræktarfólks og samtök sumarbústaðaeigenda.

Til viðbótar má benda á að eigendur búfjár bera ábyrgð á velferð þess, að tryggja sumarbeit á grónu landi, aðgengi að góðu vatni, sjá til þess að sjúk og slösuð dýr fái læknismeðferð. Varla er dýravelferð ráðandi þáttur í því að reka sauðfé út um bæjarhliðið og gera að munaðarlausum vegarollum eða beina í óleyfilega hagbeit hjá nágrönnum og öðrum íbúum sveitafélagsins.

Lausatök sveitarstjórnar Borgarbyggðar á erindinu eru staðfesting þess að forneskjulegir, siðlausir sérhagsmunir og útilokun málefnalegrar umræðu eru þau gildi sem höfð eru í hávegum þegar íbúar bera upp erindi um velferð mannfólks og dýra í sveitafélaginu. Þyki þetta vafasöm fullyrðing þá væri fagnaðarefni að fá mótrök eða vangaveltur frá kjörnum fulltrúum sveitafélagsins.

 

Steinar Berg, Fossatúni