Lausaganga og lausamennska

Steinar Berg Ísleifsson

Eftir að við hjón festum okkur Fossatún urðum við aðilar að skógræktarverkefni fyrir jörðina hjá Vesturlandsskógum. Fórum á námskeið og kortlögðum skjólbelti og ræktunarsvæði. Samhliða því að framfylgja hugmyndum um uppbyggingu ferðaþjónustu vildum við fegra landið með skógrækt. Við vorum afar kröftug fyrstu tvö árin 2005/6 en gáfumst svo upp. Ástæðan var sú að mikill meirihluti þess sem við settum niður þessi fyrstu tvö ár var rifið upp og eyðilagt af rollum nágranna okkar. Það var alveg sama hvernig við bárum okkur upp það var einfaldlega enginn vilji til þess að hugsa um, hvað þá bera ábyrgð á eigin fé. Eigendurnir stóðu alveg klárir á að sínum lagalega rétt til þess að láta skemmdarvarga rústa vinnu og verðmætum á lóðum annars fólks.

Fyrstu viðbrögð voru afneitun.  Að viðkomandi grannar ættu ekki féð. Svo vorum við beðin um að staðfesta að þeirra mark væri á kindunum. Vorum við ekki með markaskrá héraðsins á hreinu? Þegar svo eignarétturinn var staðfestur og gengist við rollunum, fengum við að heyra að símtöl um smölun í annarra manna löndum væru illa þegin. Nei, við værum ekki of góð til þess að smala eigið land og safna fénu í hóp. Þegar vel stæði á væri hægt að kíkja við og sækja það sem þeim tilheyrði.

Það var okkur þungbært að leggja skógræktina í Fossatúni af og það litla sem lifði stendur í dag sem fagur vitnisburður um hvað hefði orðið ef nýgróðurinn hefði ekki orðið mannlegu ábyrgðarleysi að bráð. Við, ásamt því fólki sem á um 20 sumarbústaði í Fossatúni, höfum undanfarin ár ræktað lóðir okkar með blómum og jurtum til að fegra nærumhverfið. Þetta hefur farið á sömu leið. Í skjóli nætur koma útsendarar nágranna okkar og rífa upp plönturnar og éta sumar. Þegar ég leitaði fyrir mér hjá sveitarfélaginu kannast starfsfólk og fulltrúar þar við vandann og að málið sé í fjötrum sérhagsmuna örfárra. Sauðfjárbúskapur hefur lagalega umgjörð en sveitafélög geta samt annaðhvort leyft eða bannað lausagöngu fjár og stórgripa. Borgarbyggð leyfir þennan óskunda.

Er til of mikils ætlast að alþingisfólk og sveitastjórnarfulltrúar átti sig á hraðri þróun samfélagsins og að almennir hagsmunir hafi meira vægi en sérhagsmunir? Lagaumgjörðin og það fyrirkomulag sem nú gildir um meðhöndlun sauðfjárbænda á fjár-munum sínum er varla undanþegið endurskoðun og uppfærslu? Áður fyrr var svipaður búskapur á flestum jörðum sveitarfélagsins og bændur höfðu mannskap og þekkingu til að annast búskapinn og deila verkum ef svo bar undir. Núna eru aðstæður og umhverfi atvinnuhátta ólíkt því sem var. Er það óeðlileg krafa að sauðfjárbændur reki fé sitt á fjall? Má ræða það að sauðfjárbændur girði fé sitt inni noti þeir heimahaga en víkki þá ekki út til nágrannajarða og vegkanta? Er það eðlileg krafa sauðfjárbænda að nágrannar víggirði jarðir sínar en þeirra eigin girðingar séu ekki fjárheldar?

Mér skilst að enginn fullstarfandi sauðfjárbóndi sé í Borgarbyggð í dag, heldur sé sauðfjárbúskapur stundaður í lausamennsku með rýrar eftirtekjur og minnkandi framtíðarhlutverk nema aðstæður gjörbreytist. Það myndi væntanlega þýða; fagmennska og ábyrgð, sem lykilorð. Myndi slíkt sliga sauðfjárbúskap í héraðinu?

Þessi grein er jafnframt áskorun til sveitarstjórnar Borgarbyggðar um að taka lausafjárgöngu fjár til umræðu sem leiði til niðurstöðu og helst breytinga á núverandi fyrirkomulagi.

 

Steinar Berg Ísleifsson, Fossatúni