Látum verkin tala

Lilja Björg Ágústsdóttir

-Borgarbyggð fyrir fjölskyldufólk og eldri borgara

 Fulltrúar framboðs Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar leggja upp með að gera lífið betra í Borgarbyggð. Með það að markmiði verður unnið að því að bæta aðgengi, aðstöðu og lífsgæði í Borgarbyggð fyrir alla sem þar búa.

 

Lækkun leikskólagjalda

Þegar horft er til yngstu aldurshópanna þ.e. þeirra sem eru á leikskólaaldri, þá er markmiðið að bjóða upp á ódýrustu dvalargjöld, fyrir allt að 8 klukkustunda dvöl á leikskólum, í samanburði við sveitarfélög af sambærilegri stærð og í grennd við höfuðborgarsvæðið. Við viljum að Borgarbyggð verði þekkt fyrir lág leikskólagjöld.

Í dag eru dvalargjöld í leikskólum Borgarbyggðar með þeim hærri í samanburði við þessi fyrrgreindu sveitarfélög. Lækkunin yrði framkvæmd í ákveðnum þrepum og ofangreindu markmiði náð við lok komandi kjörtímabils. Til viðbótar við bætt kjör til fjölskyldna með börn á leikskólaaldri viljum við auka sveigjanleika varðandi opnunartíma leikskóla í Borgarbyggð og bjóða þannig upp á valkost sem gerir fólki t.d. kleyft að búa í Borgarbyggð og starfa á höfuðborgarsvæðinu.

Tekjutapi vegna slíkrar lækkunar verður mætt með auknum tekjum vegna nýrra íbúa sem koma til með að velja Borgarbyggð sem búsetukost. Íbúafjöldi í Borgarbyggð þann 1. janúar 2018 var samtals 3.745 talsins og á síðasta ári var fjölgun í Borgarbyggð rúmlega 1,8%. Það þarf í raun ekki slíka fjölgun eitt ár til að mæta tekjutapi vegna lækkunar leikskólagjalda. Með öflugri markaðssetningu á sveitarfélaginu og kynningu á innviðum þess og þjónustu má markvisst fjölga íbúum í sveitarfélaginu enn meira. Er það markmið fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fjölga íbúum í Borgarbyggð í yfir 4200 talsins á næstu fjórum árum eða að meðaltali að lágmarki um 3% á ári næstu fjögur ár.

 

Barnvænt sveitarfélag

Sveitarfélög sinna stærstum hluta þeirra verkefna sem hafa beina tengingu við daglegt líf barna og ungmenna. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vilja skoða að hefja formlegt ferli við innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og gerast barnvænt sveitarfélag. Mikilvægt er að sveitarfélög noti sáttmálann sem viðmið í sínum störfum og allir verk- og ákvarðanaferlar er varða börn verði skoðaðir með réttindi barnanna sjálfra að leiðarljósi.

Á þessu kjörtímabili hefur verið tekið gott skref varðandi gjaldtöku vegna barna í grunnskóla, er hann nú gjaldfrjáls í Borgarbyggð og því ber að fagna. Skólinn er stór hluti lífs barna og mikilvægt að þau njóti bæði uppfræðslu í skóla og hafi rými til að stunda tómstundir og íþróttir samhliða því. Því er mikilvægt að skoða betri nýtingu tíma barna yfir daginn með frekari samtengingu skóla og tómstunda og/eða íþrótta. Tómstundir og íþróttir eru mikilvægur þáttur í þroska og heilbrigði barna og því er mikilvægt vinna að góðri samfellu með skóla og auka þar með lífsgæði barnanna.

 

Gjaldfrjálst aðgengi að íþróttamiðstöðvum

Ef horft er til eldri íbúa sveitarfélagsins þá er stefnt að gjaldfrjálsu aðgengi að íþróttamiðstöðvum í Borgarbyggð. Með þessu viljum við styðja við heilsueflandi samfélagið Borgarbyggð og bæta stöðu eldri borgara til að auka hreyfingu. Verður þá frítt fyrir 67 ára og eldri aðgengi að öllum sundlaugum og íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins. Í þessu samhengi þarf einnig að skoða betri nýtingu grænna svæða í þéttabýli og gera umhverfið hvetjandi til hreyfingar fyrir íbúa á öllum aldri. Dæmi um slíka nýtingu væri uppbygging púttvallar í þéttbýliskjarnanum Borgarnesi en púttvellir hafa verið vel nýttir af bæði börnum og eldri borgurum víða um land og sjáum við fjölmörg tækifæri í slíkri iðkun í Borgarnesi þvert á kynslóðir.

Eru þessar aðgerðir hluti af þeirri vegferð að fjölga íbúum í Borgarbyggð. Með fjölmennara samfélagi eykst geta til að byggja upp og styðja við grunnstoðir þess. Teljum við mikilvægt að taka skref í átt að betri lífsgæðum með bættu aðgengi, sveigjanleika og hóflegri gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem veitt er í samfélaginu okkar.

Gerum lífið betra í Borgarbyggð!

 

Lilja Björg Ágústsdóttir

Höfundur er oddviti lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Fleiri aðsendar greinar