Langtímahugsun og björt framtíðarsýn

Kristín Sigurgeirsdóttir

Björt framtíð vill meiri fjölbreytni. Við viljum halda áfram að byggja upp skapandi greinar, grænan iðnað, tækni- og hugverkageirann, ferðaþjónustuna og rannsóknir og þróun. Við viljum aukna fjölbreytni í matvælaframleiðslu. Bæta skilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja um allt land með hnitmiðuðum aðgerðum. Við viljum vera menningarþjóð en umfram allt verja mannréttindi.

Björt framtíð vill minni sóun, því þjóðfélag sem nýtir vel tíma sinn, krafta, auð og auðlindir er farsælt þjóðfélag. Við viljum auka framleiðni. Í heilbrigðisgeiranum viljum við stórefla forvarnir og endurskipulegga heilbrigðiskerfið þannig að fólki sé beint í úrræði sem hæfa betur og eru þar með hagstæðari fyrir alla. Við viljum minnka brottfall úr skólum með því að auka valkosti og sveigjanleika í skólakerfinu. Brottfall er sóun á hæfileikum, tíma og fé. Við viljum fá meira fé fyrir orkuauðlindina, án þess að virkja óhóflega. Þannig skapast arður sem við getum notað til þess að auka velsæld um land allt. Við viljum vernda umhverfið og vera umhverfisvæn og græn í gegn.

Björt framtíð vill meiri stöðugleika. Við viljum ljúka samningaviðræðum við ESB sem þjóðin getur, eftir upplýsta umræðu, tekið afstöðu til í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við viljum hugsa um útflutning, númer eitt, tvö og þrjú. Hér gegna atvinnugreinar eins og matvælaframleiðsla og ferðaþjónusta miklu hlutverki en mun meira þarf til: Fyrirtæki sem geta vaxið mjög, og eru síður bundin náttúrulegum takmörkunum, þurfa meiri og kerfisbundnari stuðning. Dæmi um slíkar greinar eru kvikmyndagerð, hönnun, tölvuleikjaframleiðsla, framleiðsla á orkusparandi og umhverfisvænni tækni, líftækni og fleira og fleira. Við viljum að hér á landi komist á húsnæðislánamarkaður með lágum raunvöxtum til langs tíma. Og þar til stöðugri gjaldmiðill býðst verður að grípa til aðgerða til að taka á lánavanda heimila, á grundvelli nákvæmrar greiningar á honum. Við viljum blása til stóraukins samráðs milli ríkisstjórnar, Alþingis, sveitarfélaga, atvinnulífsins, launþega, fjármálageirans, og alls konar samtaka í þjóðfélaginu um langímamarkið og umbætur á ýmsum sviðum. Það minnkar óvissu.

Björt framtíð vill minna vesen. Það felast í því mikil gæði að þurfa ekki að hafa of miklar áhyggjur og að geta treyst því að hlutir virki fljótt og vel. Við viljum skapa opið markaðs- og samkeppnisumhverfi á Íslandi. Við viljum gera skattkerfið og almannatryggingakerfið réttlátara, einfaldara og auðskiljanlegra. Við viljum einfalda hlutina og setja alla þjónustu hins opinbera á einn stað á netinu, til hægðarauka fyrir almenning. Gerum umbætur á stjórnsýslunni. Eflum neytendavernd og aðgengi neytenda að upplýsingum.

Björt framtíð vill meiri sátt. Á Íslandi er hver sáttahöndin upp á móti annarri. Leggjum okkur fram um að virða lýðræðislegar ákvarðanir, fylgja eftir stefnumótun og leiða mál til lykta. Nýtum beint lýðræði og þátttöku almennings betur. Setjum þjóðinni nýja stjórnarskrá á grunni tillagna Stjórnlagaráðs, í sem mestri sátt. Sköpum varanlega sátt um sjávarútveg á grunni fjögurra stoða: 1) Að arður renni til þjóðarinnar 2) að nýting fiskimiðanna sé sjálfbær 3) að greinin njóti góðra skilyrða til að skila hagnaði og 4) að nýir aðilar geti haslað sér völl í sjávarútvegi. Við viljum gera fjárlagagerðina gagnsærri og skynsamlegri þar sem horft er til lengri tíma en eins árs í senn og fólk veit betur að hverju það gengur. Allar lagasetningar og stjórnvaldsaðgerðir taki mið af frelsi einstaklinga og samfélagshópa til sjálfstæðra, skapandi og ábyrgra athafa og efli svigrúm til slíks eins og frekast er kostur. Gerum störf Alþingis uppbyggilegri með breyttum þingsköpum. Breytum stjórnmálunum. Vinnum að friði. Tölum af virðingu og sanngirni um hvert annað. Þannig eflum við traust.

 

Kristín Sigurgeirsdóttir.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi.