Langisandur fyrir alla eða Alla?

Kristleifur Skarphéðinn Brandsson

Langisandur er eitt þekktasta kennileiti okkar Skagamanna og er að mínu mati okkar mesta náttúruperla. Sandurinn afmarkast af Sólmundarhöfða og Faxabraut. Leynisfjara leynist svo hinum megin við Sólmundarhöfða og fyrir ofan sandinn er svæði sem heitir Jaðarsbakki. Á Jaðarsbakkasvæðinu hefur í áratugi verið aðstaða til íþróttaiðkunar og er knattspyrnuvöllurinn á því svæði til að mynda frá árinu 1935.

Könnun á viðhorfi íbúa

Í lok árs 2020 og í byrjun 2021 fór fram rafræn íbúakönnun um viðhorf íbúa til þessa svæðis og framtíðarskipulag þess. Þessi könnun var hugsuð sem veganesti fyrir vinnu þátttakenda í hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðis og nærumhverfis. Þessari könnun var ýtt úr vör með flottu myndbandi þar sem bæjarstjórinn ávarpaði bæjarbúa og hvatti þá til þátttöku og klykkti út með orðunum: „…sem er hugsað út frá því að þú, kæri íbúi hér á Akranesi, getir haft mikil áhrif á það hvernig þetta verður til framtíðar.“ Könnun þessi var ansi viðamikil og spurt um nánast allt milli himins og jarðar í sambandi við Langasand og svæðið í kring.

Niðurstöður könnunar

Meðal þess sem lesa má úr niðurstöðum könnunarinnar er að fólk telur þetta svæði mikilvægt fyrir leik, afslöppun, sjósport, hreyfingu, ímynd bæjarins og sem ferðamannastaður. Niðurstöðurnar sýndu að íbúar telja aðgengi fyrir fólk í hjólastólum ekki viðunandi. Nýting á svæðinu til útikennslu, líffræðilegur fjölbreytileiki og verndun hans fannst íbúum mikilvægt.

Svo var spurt út í ógnanir svæðisins. Þar nefndu langflestir uppbyggingu á svæðinu, t.d. íbúðablokkir, mannvirki, atvinnuhúsnæði og verslanir. Það væri of langt mál að fara yfir allar niðurstöður þessarar könnunar hér og bendi ég fólki á að kynna sér þær upp á eigin spýtur. Eitt vil ég þó nefna í viðbót sem lesa má úr niðurstöðunum en það er að greinileg andstaða var við aukna íbúðabyggð, byggingu hótels eða minjagripaverslunar á svæðinu. Þó skal tekið fram að fólk var opið fyrir heilsutengdri ferðaþjónustu þó ekki væri skilgreint í hverju slík þjónusta felst.

Verðlaunatillaga í kjölfar könnunar

Með þessa könnun í farteskinu tóku þrjú teymi sig til og skiluðu inn tillögum að skipulagi á svæðinu. Landmótun og Sei Stúdíó báru sigur úr býtum með tillöguna „Langisandur fyrir alla“. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Tillagan Langisandur fyrir alla er lágstemmd en full næmni sem dregur fram fegurð og notagildi svæðisins. Þá ber að nefna hvernig aðgengi að sandinum og sjónum er aukið á einstakan hátt með aðgengi fyrir alla í fyrirrúmi.“

Það sem einkennir þessa tillögu eru áherslur á náttúruna og að gestir svæðisins geti notið hennar sem allra best. Ekki er að finna í þessum tillögum neitt um hótel eða aukna íbúðabyggð enda innihélt veganestið frá íbúum ekkert slíkt. Við afhendingu verðlauna fyrir sigur í samkeppninni, þann 24. september 2021, hnykkti bæjarstjóri aftur á mikilvægi íbúasamráðs og sagði: „Svæðið Langisandur er svæði okkar allra og ekki hægt að framkvæma þessa samkeppni nema í fullu samráði við íbúa. Þessi aðferðafræði okkar í samkeppninni hefur vakið athygli annarra sveitarfélaga til eftirbreytni við að auka íbúalýðræði og samráð, þetta er okkar hjartans mál.“ Næstu skref áttu að vera þau að fullmóta deiliskipulagið fyrir svæðið í samvinnu við vinningsteymið og að sjálfsögðu í samráði og sátt við íbúa eins og formaður dómnefndar tók fram við afhendingu verðlaunanna. Það skal tekið fram að kostnaður við íbúakönnunina og samkeppnina var í kringum átta milljónir króna.

Hugmyndir um hótel og kúvending á Jaðarsbökkum

Rúmu ári seinna hafði ekki bólað á fullmótuðu deiliskipulagi Langasandssvæðisins hvað þá að framkvæmdir væru hafnar. Það hefði líklega alveg verið hægt að byrja á því að lappa upp á göngustíginn sem liggur meðfram sandinum án þess að deiluskipulagið væri fullmótað. En sumsé ekkert að gerast í þessu máli seinnipart árs 2022. Bæjaryfirvöld og bæjarstjóri virtust með hugann við aðra samkeppni um skipulag, nú var það Breiðin sem þurfti að skipuleggja og var haldin vegleg samkeppni í samvinnu við Brim. Sú samkeppni skilaði flottum tillögum, meðal annars um hótel og baðlón á Breiðinni. Bæjarstjóri dásamaði þessar tillögur en sneri sér svo við og tilkynnti að hann væri kominn með aðila sem vildi reisa heilsuhótel og baðlón á þyrlupallinum á Jaðarsbökkum. Tilkynningu þessari fylgdi að þessi aðili ætlaði að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar íþróttamannvirkja á svæðinu.

Fyrstu fregnir af þessum áformum komu fyrir sjónir almennings í byrjun desember 2022 en þá hafði bæjarstjóri greinilega átt í viðræðum við Ísold fasteignafélag í nokkurn tíma. Formlegt erindi fasteignafélagsins var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 8. desember og var þar engum mótmælum hreyft þótt aðalskipulag svæðisins geri ekki ráð fyrir þessari landnotkun. Bæjarstjóra var andstöðulaust falið að taka málið áfram. Sem sagt allir spenntir fyrir því að fá hótel á Jaðarsbakka.

Hugmyndir fasteignafélagsins hljóðuðu þannig að vilji var fyrir því að byggja 80 herbergja hótel, alls 5.400 fermetra byggingu og 600 fermetra baðlón á því svæði sem þyrlupallurinn er núna. Engar teikningar liggja þó fyrir. Til að geta komið hótelinu og lóninu fyrir þá þyrfti að vísu að snúa knattspyrnuvellinum um 90 gráður með tilheyrandi raski og breytingum á svæðinu. Í erindinu frá Ísold var talað um uppbyggingu íþróttamannvirkja, samlegðartækifæri fyrir Heilbrigðisstofnun Vesturlands, tækifæri í ferðamennsku og margt annað fallegt. Það er gaman að segja frá því að í viðtali við Skagafréttir þann 3. desember segir bæjarstjóri um viðræður sínar við fasteignafélagið: „Ánægjulegt hefur verið að finna í samtölum að ríkur vilji er til að tryggja aðgengi íbúa Akraness og gesta að strandstígnum og hinni einstöku náttúrufegurð sem er á svæðinu.“ Gott að vita að okkur íbúum sé tryggt aðgengi að strandstígnum okkar ef af þessum framkvæmdum verður.

Jaðarsbakkar fyrir almenning

Fram að þessu höfum við verið það farsæl að við íbúar Akraness höfum haldið eignarhaldi á umræddu svæði og ber aðalskipulag svæðisins þess merki. Ef aðalskipulagi og landnýtingu verður breytt og við hleypum inn á svæðið fjársterkum hagsmunaaðila þá missum við um leið stjórn á svæðinu. Við munum alltaf þurfa að taka tillit til þessa aðila og hann mun alveg örugglega gera sínar kröfur í framtíðinni um breytingar, stækkanir og fleira. Erum við til dæmis til í að leyfa einhvers konar framkvæmdir á Langasandinum sjálfum ef að það er til hagsbóta fyrir umræddan aðila? Allt skipulag á svæðinu verður háð duttlungum þess sem heldur utan um eignarhald hótelsins og baðlónsins. Líklega gengur fasteignafélaginu Ísold gott eitt til en við höfum enga tryggingu fyrir því að þeir muni ekki selja þessa fasteign sína í fyllingu tímans.

Að mínu mati er ekki heil brú í þeim áformum að reisa hótel og baðlón á þessu svæði með öllu því raski og vallarsnúningum sem því fylgir. Fyrir því eru margar ástæður sem ég ætla ekki að rekja í þessari grein því þar er nægt efni í aðra slíka.

Mér finnst dásamlegt að búa á Akranesi, fámennur bær með frábærar náttúruperlur allt í kring. Langisandur, Akrafjall, Garðalundur, Leynisvík, Kalmansvík, Breið og fleiri og fleiri perlur. Mér er mjög umhugað um að þessar perlur fái að veita okkur bæjarbúum ánægju, ósnortnar en aðgengilegar, í náinni framtíð. Að fenginni reynslu þá óttast ég að það ferli sem komið er af stað hjá bæjaryfirvöldum verði ekki svo auðveldlega stöðvað því þar á bæ virðist ekki vera hlustað eða farið eftir þeim fínu íbúakönnunum sem gerðar eru. Bæjarstjórinn sjálfur lét meira að segja hafa eftir sér í viðtali við Skessuhorn að hann sæi sig þannig fyrir sér eftir 10 ár að hann væri liggjandi í baðlóni við Langasand sem hann sjálfur ásamt öðru góðu fólki hefði átt þátt í að yrði að veruleika ásamt heilsuhóteli. Það fólk hefði ekki látið fortíðina verða sem myllustein á framtíðina. Hvaða myllustein hann er að tala um væri gaman að fá að vita. Er vilji okkar íbúa kannski orðinn myllusteinn á framfarir?

Samráð og samstarf við íbúa, í sátt við íbúa, íbúalýðræði, íbúasamráð, hljómar svo vel og er svo frábært og einfalt nú á tímum. En í meðförum bæjaryfirvalda sem hlusta ekki og hunsa skoðanir íbúa þá verða þessi orð hjóm eitt.

Ég hvet Skagamenn til að kynna sér þessi mál nánar með því að fara á vefslóðina langisandur.is/fyriralla. Bæjaryfirvöld og bæjarstjóra hvet ég til að útskýra þessa skyndilegu kúvendingu varðandi framtíð og skipulag Langasandssvæðisins.

 

Kristleifur Skarphéðinn Brandsson

Höf. er íbúi á Akranesi