Lágt hlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í Borgarbyggð

Lilja Björg Ágústsdóttir

Tekjustofnar sveitarfélaga eru fáir og því er hver og einn þeirra mjög mikilvægur rekstri sveitarsjóðs. Fasteignagjöld eru öll gjöld sem leggjast á fasteignaeigendur vegna fasteigna þeirra. Borgarbyggð leggur á fasteignaeigendur í sveitarfélaginu fasteignaskatt, lóðarleigu, sorpgjald og gjald fyrir hreinsun á rotþróm (þar sem það á við). Einnig rekur sveitarfélagið tvær litlar vatnsveitur í dreifbýlinu en sveitarfélagið innheimtir ekki önnur vatnsgjöld né fráveitugjöld. Veitur ohf (í eigu Orkuveitu Reykjavíkur) annast rekstur vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu á öðrum stöðum í sveitarfélaginu þar sem um slíkan rekstur er að ræða.  Borgarbyggð á í viðræðum við Veitur og önnur eigendasveitarfélög um gjaldskrár Veitna og uppbyggingu þeirra í eigendasveitarfélögunum þremur. Sorphirðan í Borgarbyggð er skráð sem B hluta stofnun og því þarf að reka þá einingu a.m.k á sléttu en í fjárhagsáætlun 2019 er gert ráð fyrir að rekstrarhalli á  sorphirðu verði um 15 milljónir króna. Því er ljóst að þau gjöld þyrftu í raun að vera enn hærri til þess að standa undir kostnaði við sorphirðu og sorpeyðingu.

Álagningarhlutfall fasteignaskatts

Sveitarfélögin leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignarmati samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Til grundvallar álagningunni er verðmat einstakra eigna samkvæmt fasteignamati ríkisins. Fasteignaskatti er skipt upp í þrjá flokka í lögunum eða A, B og C hluta. Afar mikilvægt er að horfa á alla flokkana við samanburð og mat á raunverulegri stöðu sveitarfélaga með tilliti  til fasteignaskatta. Sveitarstjórn tekur ákvörðun ár hvert um  álagningarhlutfall A og C hluta en B hluti er með lögbundnu álagningarhlutfalli sem nemur 1,32%. Gróflega má skipta fasteignunum með eftirfarandi hætti.

Álagningarprósenta á A-hluta (íbúðarhúsnæði) í Borgarbyggð var lækkuð úr 0,45 % niður í 0,40% og á C-hluta (atvinnurekstur) úr 1,55% niður í 1,39% um áramótin 2019. Þetta er lækkun á tekjugrunni Borgarbyggðar sem nemur um 56,2 milljónum króna. Það sem skekkir hins vegar myndina er að á sama tíma hækkaði fasteignamat í Borgarbyggð að meðaltali um 12%. Með  hærra fasteignamati eykst verðgildi fasteigna og þar með eignarhlutur fasteignaeigenda. Fasteignaskattur er hlutfall af uppreiknuðum eignarhlut og því getur, eðli máls samkvæmt, krónutala gjaldanna samt sem áður hækkað. Ákveðið var að fara varlega í lækkunina en áfram verður unnið að því að skoða möguleika til að lækka álagningu fasteignaskatta  í skynsamlegum skrefum.

Samanburður á Reykjavík og Borgarbyggð

Samanburður á fasteignagjöldum í Reykjavík og í Borgarbyggð er að mörgu leiti snúinn ef öllum staðreyndum er til haga haldið. Annars vegar er  um að ræða höfuðborg landsins og hins vegar dreifbýlt og tiltölulega fámennt, fjölkjarna landsbyggðarsveitarfélag. Í samræmi við upplýsingar á vef Hagstofu Íslands má sjá að 1. janúar 2019 var íbúafjöldi í Reykjavík 128.793 manns en í Borgarbyggð voru íbúar 3.807[1]. Reykjavík  er um 244 ferkílómetrar að stærð og Borgarbyggð 4927[2] ferkílómetrar eða fimmta landstærsta sveitarfélagið. Samantekið er íbúafjöldi Borgarbyggðar tæplega 3% af heildar íbúafjölda  höfuðborgarinnar og spannar um það bil 19 – 20 sinnum stærra landsvæði. Það ætti að vera ljóst að rekstur sveitarfélags  af þeirri gerð er dýrari á hvern íbúa heldur en í þéttbýlum og fjölmennum sveitarfélögum.

Ef rýnt er í álagningarhlutfall fasteignaskatts fyrir árið 2019 þá lítur sá samanburður svona út:

Álagningarhlutafall A-hlutans (íbúðarhúsnæði) er nokkuð lægra í höfuðborginni sem eðlilegt er, þar sem fasteignamat á höfuðborgarsvæðinu er mun hærra en í Borgarbyggð. Varðandi B hluta þar sem álagning er lögbundin er augljóst að þarna hefur Reykjavíkurborg töluvert sterkari tekjustofn á hvern íbúa en í Borgarbyggð þar sem mun fleiri stofnanir sem að falla undir þennan flokk eru til staðar í borginni. Í Borgarbyggð er þó nokkuð lægra álagningarhlutfall á C-hlutann (atvinnurekstur) þrátt fyrir hærra fasteignaverð í höfuðborginni. Því er mun lægri fasteignaskattur  greiddur af atvinnuhúsnæði í Borgarbyggð en í Reykjavík og því ber að halda til haga.

Ef samanburðurinn við Reykjavíkurborg á A-hlutanum (íbúðarhúsnæði) er skoðaður alla leið og sá hluti lækkaður niður í 0,18% í Borgarbyggð  þá hefði það þýtt tekjutap upp á um það bil 164 milljónir króna í fjárhagsáætlun ársins 2019. Það hefði í för með sér  að það yrði enginn afgangur af rekstri  sveitarfélagsins. Því  væri ekkert eftir til að greiða af lánum eða til framkvæmda á yfirstandandi ári. Í Borgarbyggð er m.a. mikil uppbygging á skólamannvirkjum og vaxandi þörf fyrir nýtt íþróttahús og því er ljóst að það reikningsdæmi gengi ekki upp.

Mjög lágt álagningarhlutfall á atvinnuhúsnæði í Borgarbyggð

Ef hins vegar er gerður samanburður á Borgarbyggð við nokkur sambærileg sveitarfélög á landsbyggðinni, þ.e. fjölkjarna sveitarfélög, með öflugt þéttbýli, sumarbústaðarbyggð og álíka íbúafjölda, lítur myndin einhvern veginn svona út:

Ljóst er af þessum samanburði að Borgarbyggð er með lægsta hlutfall álagningar bæði á A-hluta (íbúðarhúsnæði) og C- hluta (atvinnuhúsnæði) í öllum tilfellum. Til fróðleiks má benda á að ef skoðað er sérstaklega álagningarhlutfall á atvinnuhúsnæði er ljóst að Borgarbyggð er í hópi fimm lægstu sveitarfélaga á landinu í þeim efnum en það eru aðeins Húnaþing vestra, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Hrunamannahreppur sem eru með lægra álagningarhlutafall. Ofangreint er í samræmi við þá stefnu að fjölga fyrirtækjum í Borgarbyggð og stuðla þannig að fjölbreyttu atvinnulífi. Fjölbreytt atvinna laðar að sér íbúa og eykur líkurnar á að einstaklingar velji Borgarbyggð sem framtíðarbúsetukost. Vilji er til þess hjá meirihluta sveitarstjórnar Borgarbyggðar að endurskoða gjaldskrár, til að mynda á gatnagerðargjöldum, með það að markmiði að gera svæðið enn samkeppnishæfara og hvetja einstaklinga og fyrirtæki til framkvæmda.

 

Lilja Björg Ágústsdóttir

Höfundur er forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð

 

[1] Hagstofa Íslands. (e.d.).Mannfjöldi eftir kyni, aldri og sveitarfélögum

[2] Landmælingar Íslands.(e.d). Kortasjá LMI

Fleiri aðsendar greinar