Lærdómssamfélagið Akranes

Bára, Ragnar og Sandra

Undanfarin misseri hefur verið unnið að menntastefnu Akraneskaupstaðar. Meginmarkmið menntastefnunnar er að byggja undir sterkt skólasamfélag á Akranesi með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi um menntun fyrir alla. Þannig er hugsunin að menntastefnan taki mið af öllum æviskeiðum og skapi breiða samstöðu til framtíðar um mikilvægustu markmiðin í skóla- og frístundastarfi á Akranesi.

Almennt viðhorf til menntunar í dag er að hún sé í gangi alla ævi og hafi jákvæð áhrif á einstaklinga og samfélagið allt. Kennsluhættir og viðhorf til náms breytist með tímanum og eftirtektarvert að fylgjast með lausnum sem skólasamfélagið þurfti að vinna með til þess að halda úti skólastarfi þegar Covid-19 faraldurinn setti skólahald úr skorðum. Þessi tími sýndi fram á nýja möguleika í skólastarfi á sama tíma og við gerðum okkur grein fyrir öðru sem við viljum ekki vera án. Við getum nýtt okkur tæknina á fjölbreyttan hátt en það að byggja upp félagslega sterka einstaklinga kallar á samskipti og félagsleg samskipti eru langflestum nauðsynleg.

Leikskólinn er fyrsta formlega skólastigið og við gerð menntastefnunnar er hugmyndin að nám verði heildrænt með góðum tengslum á milli skólastiga. Í samfélaginu í dag er lögð áhersla á nýsköpun, símenntun og endurmenntun og þeir sem hafa áhuga á að mennta sig og læra meira eiga að geta gert það, bæði á formlegan og óformlegan hátt. Íþrótta- og frístundastarf skiptir miklu máli þegar horft er til menntastefnu auk þess sem hægt er að velta því upp hvort það eigi að vera þannig að innan menntastefnunnar sé frístundastefna?

Við viljum hvetja þig kæri íbúi til að leggja okkur lið við að vinna menntastefnuna, koma fram með þínar hugmyndir og setja þitt mark á samfélagið til framtíðar en á heimasíðu Akraneskaupstaðar, www.akranes.is er hlekkur þar sem íbúar geta farið inn á og tekið þátt. Í upphafi vinnunnar var stofnaður stýrihópur sem hefur unnið með starfsmönnum menntastofnana bæjarins, nemendum og foreldrum við að byggja grunninn. Nú óskum við eftir þínum sjónarmiðum og framlagi til að tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum til náms alla ævi í anda heimsmarkmiðanna.

Með kveðju frá skóla- og frístundaráði,

Bára Daðadóttir

Ragnar Baldvins Sæmundsson

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir