Kynning á Minjaráði Vesturlands

Magnús A Sigurðsson

Í lögum um menningarminjar frá 2012 er ákvæði um að skipta landinu í minjasvæði eftir ákvæðum reglugerðar. Á hverju minjasvæði skal starfa minjaráð, en minjaráð er samráðsvettvangur hvers minjasvæðis sem ætlað er að fjalla um menningarminjar, varðveislu þeirra og nýtingu í þágu samfélagsins í samráði við Minjastofnun Íslands og höfuðsöfn landsins. Minjavörður er formaður minjaráðs. Auk hans, skal Samband sveitarfélaga á minjasvæðinu tilnefna tvo fulltrúa, þjóðminjavörður skal tilnefna tvo fulltrúa safna og menningarstofnana á svæðinu og forstöðumaður Minjastofnunar Íslands tilnefnir tvo fulltrúa.

Hluti minjaráðs Vesturlands á fundi sem haldinn var á Fitjum í Skorradal. F.v. Hulda Guðmundsdóttir, Sigurður Þórólfsson, Jón Allansson og Ágúst Ó Georgsson. Ljósm. mas.

Minjaráð skulu vera samráðsvettvangur um varðveislu og nýtingu minja, hvert á sínu svæði. Minjaráð skulu beita sér fyrir verkefnum á sviði minjavörslu, til eflingar byggðar og atvinnusköpunar, meðal annars með ályktunum, sem beint er til sveitarstjórna eða annarra þar til bærra stjórnvalda. Viðfangsefni ráðanna eru m.a.:

  • Fjalla um og gera tillögur um forgangsröðun á uppbyggingu, verndun og rannsóknum á stöðum með menningarminjar.
  • Fjalla um og gera tillögur um verndarsvæði í byggð.
  • Stuðla að fræðslu og umræðu um minjavernd í samráði við Minjastofnun.
  • Koma að stefnumörkun um verndun fornleifa og byggingararfs.
  • Beina því til sveitarfélaga að menningarminjar séu skráðar og funda með sveitarstjórnum í þeim tilgangi.
  • Gera tillögur um friðlýsingu eða skyndifriðun menningarminja.
  • Vakta viðkvæm svæði í sinni heimabyggð.
  • Veita umsagnir um mál er varða menningarminjar á sínu minjasvæði ef eftir því er óskað.

 

Í minjaráði Vesturlands sitja; Magnús A. Sigurðsson, minjavörður Vesturlands, Eyþór Garðarsson, forseti bæjarstjórnar í Grundarfirði, og Einar Brandsson, varaforseti bæjarstjórnar á Akranesi, fulltrúar sveitarfélaganna, Jón Allansson, forstöðumaður Safnasvæðisins á Akranesi, og Ágúst Ó. Georgsson, safnvörður, Þjóðminjasafni Íslands, fulltrúar Þjóðminjasafns Íslands, Hulda Guðmundsdóttir skógarbóndi og Sigurður Þórólfsson, bóndi, skipuð af Minjastofnun Íslands.

Fyrsti fundur Minjaráðs Vesturlands var haldin 20. nóvember 2015. Þar var farið yfir hlutverk minjaráða og fyrirkomulag og ný lög um verndarsvæði í byggð kynnt.

Annar fundur minjaráðs var haldinn 25. nóvember 2016. Þar voru m.a. kynntar umsóknir um styrk til að undirbúa verndarsvæði í byggð. Ein umsókn barst frá Vesturlandi á árinu 2016 en það er verkefnið „Framdalurinn – Fitjasókn í Skorradal“, sem hlaut veglegan styrk. Þar stendur til að gera meginhluta hinnar fornu Fitjasóknar að verndarsvæði til að viðhalda menningarminjum og sögu svæðisins. Einnig voru kynntar starfsreglur minjaráða og lög um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, en búið er að tilnefna þrjá staði á Vesturlandi, þ.e. Dritvík, Snorralaug og Surtshelli, sem koma til með að vera í forgangi þegar kemur að uppbyggingu ferðamannastaða á Vesturlandi. Gert er ráð fyrir að minjaráð komi til með að tilnefna fleiri staði. Að lokum kom fram hugmynd um að stefna að árlegum minja- og tiltektardegi með þátttöku almennings.

Þriðji fundur minjaráðs var haldin að Fitjum í Skorradal þann 24. maí 2017. Þar var m.a. menningarminjadagur Evrópu kynntur, en hann er haldinn á hverju ári, og í ár verður hann laugardaginn 14. október á öllum minjasvæðum á landinu með fjölbreyttum viðburðum. Á Vesturlandi verði kynning á verkefninu „Framdalurinn – Fitjasókn í Skorradal verndarsvæði í byggð“. Góð aðstaða til samkomuhalds er á Fitjum og verður kynningin haldin þar og öllum opin. Nánari útfærsla á dagskrá verður kynnt síðar. Minjavörður kynnti sérstakt átak í skráningu strandminja á Íslandi. Einn þessara minjastaða eru Gufuskálar á Snæfellsnesi. Um samnorrænt verkefni er að ræða sem tekur til samspils loftslagsbreytinga og skemmda á fornminjum. Minjastofnun Íslands hefur umsjón með þessu verkefni hér á landi. Meðal þess sem vænst er til að komi út úr verkefninu er aðferð til að vakta staði sem eru í hættu.

 

Að lokum voru eftirfarandi ályktanir samþykktar;

1)  Minjaráð Vesturlands leggur til við Minjastofnun Íslands að hún beiti sér fyrir að rannsóknum á þeim rústum sem eru í mestri hættu í hinni fornfrægu verstöð á Gufuskálum, þ.e. næst ströndinni, verði haldið áfram eins fljótt og við verður komið. Eyðilegging af völdum sjávar blasir við og má þar lítið út af bera í vondum veðrum.

2)  Minjaráð Vesturlands beinir þeim tilmælum til Minjastofnunar Íslands að hún láti gera húsakönnun í Breiðafjarðareyjum þar sem hús frá síðasta skeiði byggðar eru uppistandandi. Undanskilin er Flatey þar sem slík könnun hefur þegar verið gerð.

 

Höfum við miklar væntingar til minjaráðs Vesturlands og vonum að almenningur verði okkur innan handar með vöktun og verndun menningarminja og sögu þessa fallega landshluta.

Allar fyrirspurnir, óskir og ábendingar eru vel þegnar!

 

Magnús A. Sigurðsson

Höf. er minjavörður Vesturlands