Kvótann heim

Ögmundur Jónasson

Í þrjátíu ár eru Íslendingar búnir að ræða kosti og ókosti kvótakerfisins. Annars vegar sem fiskveiðistjórnunarkerfis og hins vegar sem hagstjórnartækis. Að hinu síðara hefur gagnrýni manna einkum beinst allar götur frá því sú lagabreyting var innleidd að heimilað var að versla með kvóta, leigja hann og veðsetja. Þetta gerði Alþingi árið 1990.

Nú er varla lengur deilt um afleiðingarnar. Þetta fyriromulag sem þarna var innleitt hefur valdið mikilli byggðaröskun, samþjöppun, misskiptingu og færa má rök fyrir því að ein höfuðorsök fyrir hruninu eigi þarna rót sína, nefnilega þegar óheyrilegt fjármagn var flutt út úr sjávarútvegi og inn í heim fjárfestinga og gróðabralls ekki aðeins hér á landi heldur einnig og ekki síður út fyrir landsteinana.

Í kauphöllinni í London og New York er mönnum slátt sama um hvað gerist á Flateyri eða Akranesi.

Þetta er breytingin sem hefur orðið á Íslandi og er enn að gerast fyrir augunum á okkur án þess að nokkuð sé að gert. Augu manna opnast þó alltaf betur og betur fyrir þessum veruleika og er það mín tilfinning að mikil undiralda sé að rísa í samfélaginu gegn þessu kerfi og þá jafnframt fyrir kerfi sem er byggðavinsamlegra og mannvinsamlegra.

Hafin er fundaherferð um landið undir fyrirsögninni „Gerum Ísland heilt á ný – kvótann heim.“ Hugsunin þarna að baki er sú að kvótakerfið í þeirri mynd sem við þekkjum það hafi brotið samfélagið og sé verkefnið að gera það heilt á ný. Kvótann heim þýðir síðan að tryggja þurfi að eignarhald á sjávarauðlindinni verði ekki bara orðin tóm heldur raunveruleg á borði. Kvótann heim þýðir einnig að færa þarf ráðstöfunarrétt og nýtingu auðlindarinnar  til sjávarbyggðanna víðs vegar um landið.

Oft heyrist því fleygt að við búum við besta fiskveiðikerfi í heimi og visa þá til þess mikla arðs sem kerfið færi. Lykilatriði er að þá verði spurt hvert sá arður renni. Fari hann í vasa fárra en gagnist ekki öllum almenningi sem skyldi þá getum við varla gefið kerfinu ágætiseinkunn. Sjálft hugtakið arðsemi er varasamur vegvísir, nær væri að tala um ávinning og þá hvernig hann rati í maga þjóðarinnar allrar, til einstaklinga og fjölskyldna og til uppbyggingar á samfélagi okkar. Það gerir núverandi kerfi ekki sem skyldi.

Nú stendur til að efna til fundar á Akranesi í Gamla Kaupfélaginu, næstkomandi laugardag. Þar flytur Gunnaer Smári Egilssson, blaðamaður, inngangserindi en til hans leitaði ég eftir að hafa fylgst um árabil með skrifum hans um kerfið og afleiðingar þess. Nálgun hans þykir mér í senn fræðandi og vekjandi enda nýstárleg um margt.

Ég leyfi mér að hvetja Skagamenn til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umærðu um þetta brennadi málefni sem Akranes þekkir svo vel af eigin raun. Fundurinn hefst klukkan tólf og stendur í tvo tíma.

Er hægt að breyta kerfinu, er það ekki orðið of seint?

Á Íslandi ætlum við að vera næstu nokkur hundruð árin að minnsta kosti. Atvinnuhættir eiga eftir að þróast og breytast í rás tímans. Við þurfum að vera opin fyrir því hvað best hentar okkur sem samfélag og þá einnig því lifríki sem við byggjum afkomu okkar á. Í þessu samhengi megum við aldrei verða fórnarlömb nauðhyggju.

Það er aldrei of seint að gera kerfisbreytingar. Hins vegar verða þær erfiðari ef við látum hefðina festa ráðstöfunarétt sameiginlegra auðlinda okkar í höndum fárra einstaklinga í krafti auðvalds þeirra.

 

Ögmundur Jónasson