Kvótann heim! er sjálfstæðisbarátta

Gunnar Smári Egilsson

  • Lengi lifi sjálfstæði Skagamanna

Árið áður en Haraldur Böðvarsson sameinaðist Granda í Reykjavík var rétt tæplega 5 prósent alls afla af Íslandsmiðum landað á Akranesi, sé miðað við verðmæti (ekki tonn). 2018 var aðeins 0,6 prósent aflans landað á Akranesi. Tölur liggja ekki fyrir um árið í fyrra, en þetta hlutfall var ólíklega hærra þá; líklega lægra. Miðað við útflutningsverðmæti jafngildir þetta að Akranes hafi misst rúmlega 5,7 milljarða króna frá sér, vegna sameiningar Haraldar Böðvarssonar, fyrirtækis sem bæjarbúar höfðu byggt upp á síðustu öld. Þetta áfall jafngildir töpuðum tekjum upp á 770 þúsund krónur á hvern íbúa. Áfallið jafngildir því tæplega 10 prósent minni landsframleiðslu á mann á Skaganum. Og áfallið er meira en það, því hér er aðeins miðað við útflutningsverðmæti en ef þau verðmæti yrðu dregin í gegnum bæjarfélagið hefði það margfeldisáhrif.

Sé miðað við leiguverð á kvóta þyrftu Skagamenn að leigja kvóta fyrir 3,2 milljarða króna árlega til að bæta sér þetta upp. Til að fjármagna það þyrfti hver Skagamaður að leggja til 435 þús. kr. árlega. Ef Skagamenn ætluðu sér að kaupa varanlegan kvóta þyrfti hver að reiða fram 6,4 m.kr. Það eru um 25,5 m.kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Þrátt fyrir þetta áfall sem íbúar Akraness hafa orðið fyrir hafa stjórnvöld ekkert gert til að bæta þeim skaðann. Það þykir sjálfsagt innan kvótakerfisins að samfélögum á landsbyggðinni sé veitt þungt högg. Á meðan útgerðarmennirnir auka hagnað sinn með hagræðingu og hagnast enn frekar af auðlind almennings þá situr almenningur eftir í sárum og fær engar bætur, ekki einu sinni samúðarkveðjur frá stjórnvöldum. Í tilfelli Skagamanna er sagt sem svo, að þeir geti bara tekið strætó til Reykjavíkur og unnið í Granda eða á einhverju hótelinu eða reynt að komast að í álverunum inn í Hvalfirði. En atvinnan er farin úr byggðarlaginu, samfélagið er ekki sjálfstætt lengur; það er að breytast í úthverfi.

Aukin arðsemi útgerðarfyrirtækja er þannig keyrð upp með fórnum almennings, sem þó á auðlindina í orði kveðnu. Útgerðarmaðurinn hirðir ávinninginn, almenningur situr uppi með tapið. Ekki aðeins atvinnumissi og annað fjárhagslegt tap, lækkað verð húseigna og meiri kostnað við að sækja vinnu, heldur er samfélög almennings sköðuð, þau hafa ekki sömu burði til að bjarga sér og mæta áföllum, hafa ekki sama vald yfir eigin örlögum. Með kvótanum fer atvinnan, valdið og sjálfstæðið.

Baráttan gegn kvótakerfinu er sjálfstæðisbarátta almennings. Þegar almenningur barðist fyrir sjálfstæði Íslands og síðar fyrir yfirráðum yfir sjávarauðlindunum var það ekki gert til að færa sjálfstæðið og auðlindirnar til örfárra einstaklinga. En sú hefur orðið raunin. Þess vegna er almenningur að hefja baráttu sína að nýju til að öðlast sjálfstæði og vald yfir eigin örlögum og endurheimta auðlindir sínar. Krafan um Kvótann heim! Er sjálfstæðisbarátta okkar tíma, forsenda þess að hér geti dafnað frjáls þjóð í frjálsu landi.

Skagamenn eiga ekki að láta bjóða sér kúgun útgerðaraðalsins og láta það afskiptalaust þegar aflið er dregið út úr samfélaginu. Það voru Skagamenn sem byggðu upp Akranes og gerðu bæinn að góðu samfélagi. Það var ekki verk örfárra sem síðar eignuðust kvótann, seldu hann og eignuðu sér þannig andvirði erfiðis allra íbúa Akraness áratugina á undan. Frelsisbarátta Skagamanna snýst um að endurheimta kvótann og veiðiheimildirnar og ákveða síðan hvað þeir vilja gera: Vilja íbúar Akraness byggja aftur upp útgerð og vinnslu, vilja þau leigja kvótann og nýta rentuna til að byggja upp velferð eða annars konar atvinnulíf eða vilja þau gera eitthvað allt annað? Það eru aðeins íbúar Akraness sem hafa rétt á að taka þessar ákvarðanir, þeir eiga kvótann og þeim er treystandi til að byggja upp gott samfélag byggt á samstöðu og réttlæti.

Lengi lifi sjálfstæðir Skagamenn! Megi þeir öðlast sem fyrst fullveldi yfir örlögum bæjarins.

Gunnar Smári Egilsson.

Fleiri aðsendar greinar