Kvörtun á leið til Umboðsmanns Alþingis

Eggert Kjartansson

Þegar við veljum okkur búsetu erum við m.a. að ákveða hvernig umhverfi við viljum dvelja í og ala börnin okkar upp í. Margir velja að búa í dreifbýli og sennilega myndi fleiri velja það en hafa tækifæri á að láta það verða að veruleika. Fyrir okkur sem veljum þann kost er mikilvægt að þjónusta eins og t.d. skólar og leikskólar verði í nærumhverfinu.  Víða um land hefur það verið þannig að þegar þessi þjónusta hverfur minnkar áhugi unga fólksins á að setjast að í dreifbýli og við það veikjast samfélögin á landsbyggðinni. Lífið er hins vegar fullt af breytingum og þegar á að taka ákvarðanir um breytingar eins og t.d. á skólamálum er mikilvægt að vinna að því með góðu samtali við okkur sem þó búum á svæðinu og að gefa sér tíma í að gera það með réttum hætti.

Hér í sveit var tilkynnt í febrúar 2023 að um vorið ætti að hætta starfsemi í Laugargerðisskóla. Báðu foreldrar barna í skólanum hreppsnefnd um að fresta ákvörðun um eitt ár og við myndum skoða málið með þeim.

Við foreldrar töldum sveitarstjórn ekki hafa farið að lögum við ákvörðunina þannig að við nýttum okkur þann rétt að leita til ráðuneytis barnamála með okkar mál. Niðurstaða ráðuneytisins barst 7. nóvember 2023 með bréfi til sveitarstjórnar sem og okkur foreldra en hún var að ákvörðunin um að loka skólanum var ekki tekin með lögmætum hætti og því var sveitarstjórn gert að fara í nýtt ferli og fara að lögum.

Hvað vantaði uppá? Ákvörðunin um að loka Laugargerðisskóla var skilgreind sem meiri háttar breyting á skólamálum þannig að skólaráð þurfti að fjalla um málið út frá því hvernig sú breyting myndi hafa áhrif á börnin í samfélaginu. Búið var að fella niður skólaráðið og við hennar hlutverki tók fræðslunefnd sveitarfélagsins. Það er sem sagt gert ráð fyrir því í lögum að ákveðið ferli fari í gang til að gæta hagsmuna barna í stjórnsýslunni. Þetta var ekki gert en eins og kemur fram í niðurstöðu ráðuneytisins frá 7. nóvember:

„Með vísan til 4. gr. laga um grunnskóla leggur mennta- og barnamálaráðuneytið fyrir Eyja- og Miklaholtshrepp að taka framangreindar breytingar á skólahaldi til nýrrar meðferðar sem er í samræmi við ákvæði laga um grunnskóla.“

Bréfið frá 7. nóv. hefur aldrei verið tekið fyrir á hreppsnefndarfundi hér í sveit. Í staðinn var fundur haldinn með Jakobi bæjastjóra Stykkishólms og Sigurbjörgu oddvita með ráðuneytinu. Síðan koma skrítnar leiðbeiningar frá ráðuneytinu til handa sveitarfélögunum til lausna. þær voru að taka málið fyrir í fræðslunefndinni í Stykkishólmi og hún þannig að fara yfir hvaða áhrif þessi ákvörðun sveitarstjórnar Eyja- og Miklaholtshrepps hefðu á börnin í okkar samfélagi, sem sagt leggja mat á áhrif þessarar ákvörðunar á börnin í Eyja- og Miklaholtshreppi og þar með uppfylla skilyrði laga. Skrítið fyrirkomulag þar sem Sveitarfélagið Stykkishólmur gerði samning við Eyja- og Miklaholtshrepp um að taka við börnunum og þar með fá með þeim tekjur.

Ekki er nú hægt að sjá af fundargerð fræðslunefndar Stykkishólms að hún hafi farið djúpt í hvaða áhrif þessi breyting hefði á börnin hér í sveit. Frekar er hægt að líta svo á að stjórnsýslan í Stykkishólmi hafi tekið upp góðra bænda sið til sveita, að strjúka og hlúa að sinni bestu mjólkurkú þannig að hún haldi nú áfram að gefa vel, ekki sýnist mér veita af miðað við hvernig árið 2023 er að koma út í rekstri Sveitarfélagsins Stykkishólms.

Ráðleggingar ráðuneytisins um meðferð á málinu er sérstaklega athyglisverð fyrir þær sakir að í samþykktum Eyja- og Miklaholtshrepps 39. gr kemur fram að skóla- og fræðslunefnd er ein af fastanefndum Eyja- og Miklaholtshrepps og að sjálfsögðu var kosið í nefndina vorið 2022, henni breytt á haustmáluðum 2022. Samþykktirnar eru óbreyttar og nefndin því til og þarf ekki annað en að formaður hennar boði til fundar. Þar sem sveitarfélagið er einnig að greiða fyrir börn í Lýsuhólsskóla (5 börn), Grunnskólann í Borgarnesi (2 börn) auk Stykkishólms (10 börn) og eitt barn er í skóla í Hafnafirði, hefði ég nú haldið að ráðuneytið ætti að mæla svo fyrir að fræðslunefndin hér í sveit ætti að vera starfandi til aðstoðar foreldrum í samfélaginu sem og að veita sveitarstjórn ráðleggingar í skólamálum.

Það að fræðslunefnd í Stykkishólmi hafi tekið að sér að meta hvaða áhrif þessi meiriháttar breyting á skólamálum í Eyja- og Miklaholtshreppi hefði á börnin hér í sveit er óásættanlegt.

Við foreldrar höfum því ákveðið að senda inn kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna stjórnsýslu þessara tveggja sveitarfélaga sem og ráðuneytisins. Er það von okkar að hann skoði þetta mál því við teljum fulla þörf á því.

 

Eggert Kjartansson, Hofsstöðum.