Kvenfélag Hellissands – Síðustu 30 árin

Maríanna Sigurbjargardóttir

Mottu-Mars fundur 2021.

Í janúar sendi Kvenfélag Hellissands frá sér grein í tilefni af 100 ára afmælinu sínu sem fjallaði að mestu um fyrstu sjötíu ár félagsins. Þar lofaði undirrituð framhaldi þar sem fjallað yrði um síðustu þrjátíu ár. Erfitt er að telja allt upp sem Kvenfélagið hefur gert síðustu þrjá áratugi en hér verður reynt að fara yfir það helsta.

Síðustu þrjátíu ár hefur Kvenfélag Hellissands haldið reglulega viðburði. Fyrst ber að nefna þorrablótið sem félagið heldur ásamt öðrum félögum í hreppnum sem er oftar en ekki mikil skemmtun. Haldin er jólatrésskemmtun fyrir börnin í samfélaginu á milli jóla og nýárs, þar sem boðið er upp á veitingar, jólasveinar mæta og lifandi tónlist spiluð á meðan dansað er í kringum jólatréð.  Kvenfélagið hefur sett upp aðventukaffi þegar ljósin eru kveikt á jólatrénu fyrsta í aðventu og boðið upp á ýmsar kræsingar og heitt kakó. Annað hvert ár síðan í kringum aldamót hefur verið haldin bæjarhátíð sem hefur hlotið nafnið Sandara- og Rifsaragleðin. Kvenfélag Hellissands hefur oftar en ekki tekið þátt í þeirri gleði og boðið upp á hinar sívinsælu vöfflur til að fylla tóma maga í kaffinu, verið með happaveiði fyrir börnin og fleira. Samstarfsverkefni félaga á nesinu heldur Nesball fyrir eldri borgara einu sinni á ári þar sem öllu er tjaldað til og er Kvenfélagið á Hellissandi hluti af því. Kvenfélagið hefur einnig haldið smærri viðburði sem eru ekki reglulegir, má þá nefna saumakvöld, námskeið og ýmis skemmtikvöld.

Aðal fjáröflun Kvenfélagsins er án efa kleinubaksturinn sem er haldinn 4-6 sinnum á ári, þar sem bátar, fyrirtæki og velunnarar versla við félagið. Þá hittast konur og baka ljúffengar kleinur sem hafa það orð á sér að vera „bestar í heimi“. Þessi samverustund er oft full af gleði og orku frá dugnaðarkonum sem finnst gaman að gefa af sér í góðum félagsskap.

Kvenfélag Hellissands heldur einnig minni og stærri fjáraflanir. Má nefna sem dæmi konukvöld sem Kvenfélagið hélt ásamt öðrum félögum fyrir fimm árum síðan þar sem öllu var tjaldað til, matur, drykkir, tískusýning, bingó og margt fleira. Þá sameinuðust vinkvennahópar í Snæfellsbæ til þess að styrkja Heilsugæsluna um Ginskoðunarbekk.

Kvenfélagið hefur alla tíð unnið að líknarmálum og síðustu þrjátíu ár má helst nefna heilsugæsluna, grunnskólann, leikskólann og kirkjustarfið sem hafa notið þess. Auk þess styrkjum við ABC, Krabbameinsfélagið og fleiri góð málefni.

Kleinubakstur í Covid.

Tímarnir eru töluvert breyttir frá því áður, sveitarfélögin eiga oft meiri pening á milli handanna og geta því rekið stofnanir í samfélaginu án hjálpar. Það má því segja að félög eins og Kvenfélag Hellissands horfi meira til þess hvar mesta þörfin liggur og reyna að verða við því. Auk þess er sjónum beint að viðburðum og skemmtunum fyrir samfélagið sem er oft mikilvægur þáttur í lifandi samfélagi þar sem fólk hittist og á góðar stundir saman. Hin félagslega þörf virðist ekki vera eins sterk og áður fyrr, þar sem heimurinn hefur minnkað í kjölfar notkunar samfélagsmiðla. Það má samt ekki gleyma að flest fólk hefur þörf fyrir samveru og samkennd hvert með öðru.

Í tilefni þessa tímamóta, að verða 100 ára, viljum við þakka samstarfið við samfélagið og önnur félög á liðnum árum með ósk um ánægjuleg samskipti um ókomin ár. Auk þess viljum við hvetja konur til þess að taka þátt í félögum bæjarfélagsins til að efla það enn frekar.

 

Fyrir hönd Kvenfélags Hellissands,

Maríanna Sigurbjargardóttir, formaður

Fleiri aðsendar greinar