Kveldúlfsgata – ástand og horfur!

Guðsteinn Einarsson

Á árinu 2015 var boðað að gerðar yrðu minniháttar endurbætur á Kveldúlfsgötu í Borgarnesi og átti þeim framkvæmdum að vera lokið síðla þess árs, þ.e. 2015. Eins og alkunna er gekk það ekki eftir. Eftir mikinn gröft og rask á árunum 2015 og 2016 var hætt við framkvæmdir í miðjum klíðum og ákveðið að taka götuna alla í gegn, en þar með viðurkenndi sveitarstjórn Borgarbyggðar, það sem íbúar við götuna höfðu vitað árið 2015, að jarðvegsskifti væru nauðsynleg og lagnir líklega ónýtar og þörf á alsherjar endurnýjun.

Nú þegar komið er fram yfir mitt árið 2017 er gatan enn óklár og fyrirséð að langt er í land með að framkvæmdum ljúki en bjartsýnir menn vona þó að verkið klárist á þessu ári, en það er óvíst.

Íbúar við Kveldúlfsgötuna hafa því búið við rask og hálf ófæra götu frá síðari hluta ársins 2015 og sjá ekki enn fyrir endann á þeim ósköpum.

Nú boðar sveitarstjórn Borgarbyggðar breytingar á aðalskipulagi Kveldúlfsgötu 29 þannig að það sé í samræmi við deiliskipulag lóðarinnar.  Eðlilegt er að breyta deiliskipulaginu ef þarf þegar það er ekki í samræmi við aðalskipulag en eins og oft áður þá hefur sveitarstjórnin endaskifti á hlutunum þegar kemur að skipulagsmálum.

Hitt er að sú stóra landfylling og sú uppbygging sem þar á að verða mun leiða til gríðarlegra þungaflutninga á stórgrýti og öðru fyllingarefni um Kveldúlfsgötuna og þar á eftir byggingarefni og þ.h. við uppbygginu á þeim íbúðum sem þar eiga að vera. Væntanlega verður nýja fína gatan farin að láta verulega á sjá þegar þeim flutningum lýkur.

En við, íbúar við Kveldúlfsgötu, eigum eftir að búa við stórfellda þungaflutninga um götuna í tvö, þrjú ár til viðbótar, þ.e. að búa við rask og þungaflutninga í 5-6 ár samfellt, rask sem hefur haft og mun hafa áhrif til hins verra á búsetuskilyrði í götunni.

Það er nokkuð ljóst að sú breyting sem unnið er að á aðalskipulagi til þess að það passi við deiliskipulagið er ekki til þess að koma fyrir 18 íbúðum.

Landfylling sú sem boðuð er er áætluð 5.600 m2.  Lóðin sem úthluta á er sögð 3.477 m2.

Miðað við nýtingahlutfall 0,5, eins og aðalskipulag segir til um, leyfir íbúðabyggð uppá 1.738 m2.  Miðað við að byggja eigi 18 íbúðir þá meiga þær vera tæplega 100 m2 hver sem ætti að vera meira en fullnægjandi. Sé nýtingahlutfallið sett í 1,0 eins og boðað er með breytingum á aðalskipulagi þá getur íbúðamagnið verið 3.477m2 og hver af boðuðum 18 íbúðum því verið tæplega 200 m2, eða hægt verður að fjölga íbúðum um helming.

Líklega er þessi breyting fyrst og fremst til þess að gera mögulega mun meiri uppbyggingu á Kveldúlfsgötu 29, til hagsbóta fyrir væntan lóðarhafa, en á kostnað búsetuskilyrða núverandi íbúa götunar. En allt þetta mun leiða til þyngri og hættulegri umferðar um Kveldúlfsgötuna en nú er, gríðarlegra þungaflutninga í upphafi, en síðan aukna umferð vegna mikillar fjölgunar íbúa á svæðinu.

 

Borgarnesi, 17. júlí 2017

Guðsteinn Einarsson, Kveldúlfsgötu 13.

Fleiri aðsendar greinar