Kveðja frá Pavel Ermolinskij

Pavel Ermolinskij

Kæru Borgnesingar!

Fyrir stuttu vorum við fjölskyldan í stuttri heimsókn á æskuslóðum mínum. Við Emil, 18 mánaða gamall sonur minn, stukkum út í göngutúr og í leit að ævintýrum. Við byrjuðum á Bjössaróló og prufuðum öll tækin sem þar hafa staðið áratugum saman. Hafandi gengið úr skugga um að þau væru enn jafngóð og skemmtileg og daginn sem þau voru byggð, klifruðum við niður stigann í átt að fótboltavellinum, hlupum um og spörkuðum í alla bolta sem aðrir krakkar höfðu skilið eftir.

Næst lá leiðin í íþróttahúsið til að sjá hvort eitthvað væri að gerast þar. Auðvitað var körfuboltaleikur í gangi. Sonur minn, sem að jafnaði hreyfir sig hratt, og óörugglega, setti persónulegt met er hann sat í heilar 10 mínútur og horfði þegjandi á. Við gengum svo í gegnum Skallagrímsgarð þar sem Emil kynntist strák á svipuðum aldri og fóru þeir yfir þessar helstu fréttir og leystu einhver mál.

Þegar við loks skiluðum okkur heim rann upp fyrir mér að Emil var að taka nokkuð svipaðan hring og faðir hans tók ítrekað sem barn. Borgarnes var mitt eigið Disneyland. Fyrir 30 árum síðan opnaði Borgarnes fang sitt og tók á móti mér, foreldrum mínum og bróður mínum og breytti lífi okkar til hins betra. Ég var orðinn vinamargur og búinn að læra íslensku á innan við viku frá komu, allavega í minningunni. Ég og félagar mínir eyddum stórum hluta af okkar tíma í allskonar íþróttir. Við bjuggum til fótboltavelli á nær öllum grasblettum bæjarins og spiluðum úrslitaleik HM á þeim. Sérstaklega vorum við þó í körfubolta, enda Borgarnes annálaður körfuboltabær og allir með körfu hangandi upp á hurð í herberginu eða bílskúrnum.

Alla tíð hefur karfan staðið mér nálægt og verið minn allra besti vinur. Körfubolti var ástæðan fyrir því að fjölskylda mín kom til landsins frá Rússlandi og hann varð seinna meir atvinna mín í 20 frábær ár. Nú er komið að því að ég hef ákveðið að segja skilið við þessa íþrótt sem leikmaður. Ég hef átt nokkur rifrildi við körfuboltann í gegnum tíðina en hann brosti alltaf þegar ég kom skömmustulegur að biðja hann afsökunar. Hann tók þá bara utan um mig og bauð mér upp á endalaus tækifæri til þess að búa til frábærar minningar. Á þessum tímamótum verð ég enn meðvitaðri um að síðustu tveir áratugir í lífi mínu hefðu farið á allt annan veg ef að það væri ekki fyrir Borgarnes og móttökurnar sem ég fékk þar, þá 5 ára gamall.

Takk Borgarnes.

 

Pavel Ermolinskij