Kross í stað Þjóðgarðsmiðstöðvar

Reynir Ingibjartsson

Ég las í Skessuhorni 12. febrúar sl. að búið væri að nýju að setja kross á malarhauginn, þar sem þjónustumiðstöð fyrir Þjóðgarðinn Snæfellsjökul á að rísa á Hellissandi. Málið hefur reyndar verið á dagskrá síðan þjóðgarðurinn var stofnaður um síðustu aldamót. Þegar svo hefjast átti handa, voru öll tilboð í verkið langt yfir kostnaðaráætlun. Eins og vindar blása í dag í þjóðfélaginu, verður líklegt að enn þurfi að bíða.

En þarf að byggja sérstaka þjónustumiðstöð og það á Hellissandi? Ég hef haft mínar efasemdir um það.

Fljótlega eftir stofnun Þjóðgarðsins var opnuð gestastofa í fjárhúsum á Hellnum. Hún dugði vel til að byrja með en síðan var hún flutt í önnur fjárhús á Malarrifi. Sá flutningur hefur tekist vel, enda Malarrif um margt kjörinn staður innan Þjóðgarðsins. Hvorki Hellissandur eða Hellnar eru innan hans. Í nágrenni Malarrifs eru margir áhugaverðustu staðirnir innan Þjóðgarðsins s.s. Lóndrangar, Svalþúfa, Vatnshellir, Djúpalónssandur og Dritvík. Þá finnst ýmsum að Snæfellsjökull njóti sín hvergi betur en frá Malarrifi. Malarrifsviti setur svo sinn svip á staðinn.  Af hverju ekki að gera Malarrif að þjóðgarðsmiðstöð? Nýta má allar byggingar á staðnum s.s. íbúðarhús og bæta aðstöðu fyrir þjóðgarðsvörð og aðra starfsmenn. Hafa fasta viðveru á staðnum.

Nú er verið að gera gamla félagsheimilið að Breiðabliki að upplýsingamiðstöð fyrir allt Snæfellsnes, ekki síst Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Þarna er e.k. inngangur að Snæfellsnesi og eðlilegt að Þjóðgarðurinn sé þar í öndvegi. Í þéttbýlisstöðunum á norðanverðu Snæfellsnesi þarf að vera kynningaraðstaða í tengslum við ferðaþjónustu á stöðunum og á Gufuskálum eru mikil húsakynni t.d. fyrir geymsluaðstöðu og til að fá upplýsingar um Þjóðgarðinn fyrir þá sem koma í hann um norðanvert Snæfellsnes.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes getur svo tengst betur verkefnum Þjóðgarðsins og tengt öll sveitarfélögin á Snæfellsnesi við hann. Þá má ekki gleyma því að fyrrum Kolbeinsstaðahreppur og fyrrum Skógarstrandarhreppur eru hluti Snæfellsness.

Stofnun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls var mikið heillaspor. Stór hluti landsins undir Jökli komst í opinbera eigu, en ella hefði verið hætta á því, að þar risu sumarbústaðir og önnur mannvirki um allt með tilheyrandi einkavegum, raflínum o.s. frv. Einkaaðilar ráðið mörgum landspildum. Þá hefði ekki farið mikið fyrir bættri aðstöðu fyrir ferðafólk s.s. með göngustígum, útsýnisaðstöðu og snyrtingum. Það hefði vissulega mátt gera betur á vegum Þjóðgarðsins, en meta skal það sem búið er þó að gera.

Niðurstaða mín er því sú að það þurfi enga þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi og krossinn verði því áfram á malarhaugnum. Peningana sem áttu að kosta miðstöðina, mætti nýta til margra þarfra hluta í Þjóðgarðinum.

 

Reynir Ingibjartsson,

Höf. er vinur Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls

Fleiri aðsendar greinar