Krónan góða?

Guðsteinn Einarsson

Fram kom í máli formanns Sjálfstæðisflokksins, að loknum landsfundi, að krónan væri framtíðar gjaldmiðill þjóðarinnar. Þar með hefur hann, eins og vindhani á húsþaki, snúist heilan hring frá því að hann fullyrti, ásamt einun samflokksmanni sínum, í fjölmiðlum að Evran væri framtíðin.

Afturhaldsflokkarnir þrír sem nú sitja saman í ríkisstjórn eru reyndar allir sammála um það að íslenska krónan sé besti gjaldmiðill í heimi, en það viðhorf helgast líklega frekar af þjóðernishyggju og sérhagsmunagæslu en köldu skynsemismati.

Fyrir hvern er krónan góð? Líklega fyrir neytendur og íslenska ferðalanga sem nú njóta góðs af styrkingu krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum í formi lægra vöruverðs, í formi lægri kostnaðar við ferðalög til útlanda og vegna óbeinna áhrifa á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og síðast en ekki síst er hún góð fyrir banka og aðra fjárfesta sem njóta einhverra hæstu vaxta sem þekkjast á byggðu bóli.

En ferðaþjónustan kvartar og kveinar því það er orðið æði dýrt fyrir erlenda ferðamenn að heimsækja Ísland, sem leiðir til minnkandi vaxtar og tekjusamdráttar. Neysla erlendra ferðamanna fer minnkandi, vegna vaxandi kostnaðar í gjaldmiðlum þeirra heimalanda. Þetta kemur sér ekki vel þegar laun og annar kostnaður hefur hækkað.

Sauðfjárbændur horfa uppá mikið tekjutap því útflutningur skilar litlu sem engu í vasa þeirra, út af sterkri krónu.

En umræða forystumanna í sjávarútvegi, sem og vikapilta þeirra í pólitíkinni, er kaputali út af fyrir sig. Nú er það svo að tekjur sjávarútvegsins eru í erlendum gjaldeyri.

Þróun krónunnar hefur verið þessi sé tekið mið af kaupgengi Arionbanka 25. mars 2015 og til viðmiðunar 25. mars 2018.

25.3.2018 25.03.2015. Styrking krónunar
2015-2018
EUR 121,53 147,88 17,8%
GBP 139,18 200,67 30,6%
US$ 98,39 134,55 26,9%

 

Að gefnu því að erlent verðlag sjávarafurða hafi verið óbreytt þá þýðir þetta einfaldlega tekjutap þeirra í íslenskum krónum vegna styrkingar hennar, er eins og sjá má af ofangreindri töflu á bilinu 17% til 30%.

Að kenna veiðigjöldum um vaxandi erfiðleika í greininni stenst illa skoðun, auk þess sem sjá má af afkomutölum a.m.k. stórútgerða að vælið um veiðigjöld er vægast sagt vafasamt. Raunverulegur vandi er styrking krónunnar sem blaktir eins og strá í vindi, og er orsök vanda sjávarútvegsins og ferðaþjónustunnar og reyndar annarra sem hafa tekjur í erlendri mynt en kostnað í krónum.

Veiðgjöld hafa lítið sem ekkert með mögulegan vanda sjávarútvegsfyrirtækja að gera, þó ef til vill sé misskift í greininni.

Það er líka rétt að hafa í huga að þessir sömu aðilar og kvarta hvað hæst yfir þessum áhrifum, eru líka þeir sem nota Evru eða Dollar í uppgjörum sínum, þar á meðal flest stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins.

En nú blasir við vaxandi ójafnvægi í efnahagslífi landsmanna, af ýmsum ástæðum.  Líklega mun krónan „leiðrétta“ það ójafnvægi með hæfilegri lækkun, sem aftur leiðir til hækkandi verðlags, og vísitöluhækkunar lána. Við gætum átt von á einni eða tveim slíkum „leiðréttingum“ áður en örmyntin verður lögð af.

Niðurstaðan er því: Krónan er góð! En fyrir hvern?

 

Borgarnesi, 25. mars 2018

Guðsteinn Einarsson.