
Krónan er góð – spurningin er bara, fyrir hverja?
Guðsteinn Einarsson
Fyrrum valdaflokkar, ýmsir hagsmunaaðilar og málpípur þeirra, hafa hafið mikinn áróður til þess að telja almenningi trú um það að ekkert sé hægt að ræða við ESB, enga sérsamninga að hafa og það sé tálsýn að hægt sé að taka upp alvöru mynt eins og evru, og þó það væri hægt þá væri aldeilis óvíst að vextir hér í evrum yrðu í einhverjum samræmi við vexti í evrum í öðrum ESB ríkjum.
Þessir aðiljar eru að reyna að telja okkur trú um að við fólkið í landinu, séum ófær um að greina hagsmuni okkar og taka upplýstar ákvarðanir um það hvort við eigum samleið með öðrum Evrópuríkjum í efnahags- og myntmálum.
Á tímabilinu september 2024 til loka september 2025 þá styrktist gengi krónunnar gagnvart evru, pundi og dollar um 6% til 12%. Síðan þá hefur gengið sigið hratt, eða 2% til 4%. Og þetta gerist þrátt fyrir að Seðlabankinn sé með 800 til 1000 milljarða gjaldeyrisvarasjóð til stuðnings gengis krónunnar.
Og hvað ætli þessi gengisstyrking hafi kostað ferðaþjónustuna og aðrar greinar sem hafa tekjur sínar í erlendri mynt? Einn af bankastjórum þjóðarinnar var í viðtali 17. mars 2024 þar sem hann dásamaði krónuna fyrir stöðugleika og það hvað hún hentaði vel íslensku hagkerfi, eða eins og haft var eftir honum: „Gefum krónunni smá tíma. Staðreyndin er sú að þetta er bara ein stöðugasta myntin í Evrópu, búin að vera það síðustu ár.“ Við hvaða tímabil skildi maðurinn hafa verið að miða við, daginn sem viðtalið var tekið?
En hver er stöðugleikinn og hver er fyrirsjánleikinn fyrir ferðaþjónustuna, útflutningsgreinar og ekki síst fyrir heimilin og minni fyrirtæki? Og hvernig er spilað á þetta, hverjir hagnast á óbreyttu ástandi í gjaldmiðilsmálum?
Arionbanki virðist taka ca. 2,5% álag á gengið þegar við greiðum innkaup eða neyslu erlendis með debet- eða kreditkortum, auk þess að innheimta fjöldbreytt úrval þjónustugjalda. Hinir bankarnir eru örugglega ekkert betri.
Og ýmislegt bendir til þess að stærsta smásölufyrirtæki landsins, Hagar, hafi notið stórbættra innkaupakjara erlendis frá því á fyrri hluta þessa árs vegna sterkari krónu og tekið það allt til sín og skilað litlu sem engu af ábatanum til viðskiptavina því framlegð félagsins hækkaði úr 21,8% í 24,6% eða um 12,6% á milli ára.
Gjaldeyrisvarasjóður, viðbótar álag á eiginfé bankanna vegna sér íslenskrar áhættu, allt kostar þetta og kemur líklega fram í því að vaxtamunur íslenskra fjármálafyrirtækja er í hæstu hæðum.
Væri ekki betra að vera með alvöru mynt, geta greitt erlend innkaup, erlendan ferðakostnað og þess háttar með einföldum millifærslum, án fjölbreyttra þjónustugjalda, e.t.v. með því að vera í viðskiptum við erlendar bankastofnanir?
Og vextir, ætli það sé ekki líklegra að þeir lækki en hækki með upptöku evru? Það er nánast óhugsandi að þeir verði hærri!
Núverandi þingmeirihluti þarf að drífa sig í verkið og klára á þessu kjörtímabili. Eitt er víst að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn vilja alls ekki leyfa þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun, enda fyrst og fremst að hugsa um ríka fólkið og stórfyrirtæki sem hagnast hvað mest á óbreyttu ástandi.
Borgarnesi 4. nóvember 2025
Guðsteinn Einarsson