Kolefnisspor Hvalfjarðarsveitar

Ragnheiður Þorgrímsdóttir.

Framundan eru kosningar til sveitarstjórna. Í Hvalfjarðarsveit munu fimm af sjö fulltrúum ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Undir venjulegum kringumstæðum væri það í lagi, þó aldrei sé gott að ný sveitarstjórn sé skipuð nánast eingöngu óvönu fólki. Það tekur talsverðan tíma að koma sér inn í mál. En það sem virðist sýnu alvarlegra er, að fráfarandi sveitarstjórn er að hlaupast frá vanda sem hún hefur viðhaldið. Í tilfelli sumra sveitarstjórnarmanna þá hefur þessi vandi orðið til á þeirra vakt. Hér er átt við útsleppi koldíoxíðs, sem er gróðurhúsalofttegund, og annarra mengandi efna frá Grundartanga, svo sem brennisteins og flúors.

Í kynningu nýs aðalskipulags fyrir Hvalfjarðarsveit kemur fram að losun koldíoxíðs frá Elkem og Norðuráli sé um ein milljón tonna á ári. Þá er ekki talið með útsleppi CO2 frá annarri starfsemi á verksmiðjusvæðinu. Það er ekki heldur talin með önnur losun koldíoxíðs frá sveitarfélaginu í heild. Ljóst er að ein milljón tonna er stór hluti af heildarlosun þessarar gróðurhúsalofttegundar frá Íslandi, skilgreiningaratriði er hversu mikið. Hvalfjarðarsveit er hástökkvari meðal sveitarfélaga landsins í losun þessarar óheillavænlegu lofttegundar.

Í kynningu aðalskipulagsins er getið um mótvægisaðgerð. Hér verður að skjóta inn þeirri staðreynd að verkfræðistofan Efla sem vinnur fyrir sveitarfélagið að gerð nýja aðalskipulagsins, vinnur líka fyrir Elkem og Norðurál. Þetta má sjá á því hvernig verkfræðistofan nálgast viðfangsefnið. Í hennar málflutningi er þetta gríðarlega magn CO2 varla vandamál, vegna þess að CO2 má nota í svokallað rafeldsneyti. Stefnt er að því að vinna slíkt eldsneyti úr losun verksmiðjanna tveggja samkvæmt verkfræðistofunni Eflu og einnig samkvæmt upplýsingum frá Þróunarfélagi Grundartanga. Vandinn er bara sá að tæknin til að framleiða rafeldsneyti er ekki tilbúin. Samkvæmt orðum forstjóra Landsvirkjunar (RÚV 11.4.2022. Þátturinn „Svona er þetta“) mun það taka um það bil tíu ár að fullgera hana. Það er langur tími þegar litið er til kapphlaupsins um kolefnishlutleysi. Þar verður ekki beðið eftir neinum.

Rafeldsneytislausnin er blekking sem mótvægisaðgerð við CO2 strax. Hún myndi kannski geta orðið að veruleika upp úr 2030 ef vel gengur að þróa hana. Allir geta reiknað hversu mikil losun CO2 frá Elkem og Norðuráli verður þangað til, sé ekkert að gert.

Það er ótrúlegt ef fráfarandi fulltrúar í sveitarstjórn ætla nýjum fulltrúum að glíma við þennan vanda. Kannski hafa þau ekki áttað sig á hvað þau eru að skilja eftir sig. Kannski vita þau sem eru að gefa kost á sér til setu í sveitarstjórn ekki af þessu. Hvort tveggja er alvarlegt.

Það er mikilvægt að bæði fráfarandi fulltrúar í sveitarstjórn og þau sem gefa kost á sér í þá næstu, stigi fram og útskýri hvaða mótvægisaðgerðir þau leggja til þannig að koma megi böndum á losun CO2 strax. Allir sem búa í sveitarfélaginu eiga rétt á að vita það, já allir sem búa á landinu. Það er ekki einkamál neins að spilla umhverfinu.

 

Ragnheiður Þorgrímsdóttir.