Knattspyrnufélag ÍA stendur traustum fótum

Magnús og Sævar Freyr

Knattspyrnufélag ÍA á Akranesi er öflugt félag með um 500 iðkendur á breiðu aldursbili með um 30 þjálfara og nokkra starfsmenn í fullu starfi. Mikil áhersla hefur verið lögð á gæði þjálfunar í öllum aldurshópum sem hefur m.a. skilað sér í því að margt ungt knattspyrnufólk frá Akranesi er valið í yngri landslið Íslands og aukinn áhugi er hjá erlendum félögum á efnilegum leikmönnum ÍA.

Árið 2018 var mjög viðburðaríkt fyrir Knattspyrnufélag ÍA. Meistaraflokkur karla spilaði vel og varð sigurvegari í Inkasso-deildinni og meistaraflokkur kvenna lék líka vel og endaði í þriðja sæti í Inkasso-deildinni. Góður árangur náðist einnig hjá yngri flokkum hjá báðum kynjum og varð 2. flokkur karla til að mynda Íslandsmeistari. Þannig hefur verið lagður grunnur að því að komast í fremstu röð á ný á Íslandi.

Samtals voru leiknir 478 opinberir knattspyrnuleikir af liðum félagsins á árinu 2018 í öllum flokkum og skiptast þeir þannig að 139 leikir voru í kvennaflokkum og 339 í karlaflokkum. Slíkt umfang er ekki mögulegt nema með góðri samvinnu fjölmargra iðkenda, þjálfara, annarra starfsmanna, aðstandenda, dómara og vallarstarfsmanna og ber að þakka öllu þessu góða fólki fyrir frábær störf. Einnig ber að þakka fjölmörgum sjálfboðaliðum og styrktaraðilum félagsins og Akraneskaupstað fyrir beinan og óbeinan stuðning við starfið.

Undanfarið hefur verið fjallað um að staða knattspynufélaga í efstu deildum á Íslandi sé fjárhagslega erfið. Nauðsynlegt er að koma því á framfæri að það á ekki við um öll félögin. Í tilfelli Knattspyrnufélags ÍA er fjárhagsstaðan traust. Lykillinn er raunsæ og ábyrg fjármálastjórnun þar sem ekki hefur verið stofnað til útgjalda umfram efni. Þetta birtist m.a. í því að byggja að mestu á hæfileikaríkum leikmönnum innan félagsins og veita þeim tækifæri til að verða góðir í stað þess að kaupa dýra leikmenn. Góð staða er ekki tilviljun heldur byggir hún á skýrri stefnu, áherslu á að fjárfesta í þjálfurum og menntun þeirra og gæðastarfi í öllum aldurshópum þar sem iðkendur fá tækifæri til að blómstra. Í þessu sambandi má einnig nefna farsælt samstarf við Knattspyrnufélagið Kára á Akranesi og nýhafið samstarf við Knattspyrnufélagið Skallagrím í Borgarnesi.

Framundan er fótboltaárið 2019 og þá mun Knattspyrnufélag ÍA byggja á öflugum hópi leikmanna og þjálfara og sterkri liðsheild. Stuðningsmenn félagsins eru einnig mikilvægur hlekkur í sterkri keðju knattspyrnunnar á Akranesi og þeir þurfa eins og áður að mæta á völlinn og hvetja leikmenn okkar til dáða svo eftir sé tekið. Verum gul og glöð, áfram ÍA!

 

Akranesi 11. febrúar 2019

Magnús Guðmundsson, formaður Knattspyrnufélags ÍA

Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður Knattspyrnufélags ÍA.

Fleiri aðsendar greinar