Klaustursmálið – Hvað eru menn að æsa sig?

Reynir Eyvindsson

Nú er búið að velja Báru klausturnjósnara, sem mann ársins á Rás 2.  Margir, sérstaklega Miðflokksmenn, eru ósáttir við það.

Einkamál eða opinbert?

Margir sjá þetta mál eins og verið sé að rótast í einkalífi fólks og nota það í pólitískum tilgangi.  Ég get skilið það sjónarmið.

Ég man þegar málið var í gangi með Clinton og Monicu Lewinsky. Forsetinn drýgði synd, sem var notuð til að koma honum frá. Við tók annar forseti sem réðist inn í Írak til að taka yfir olíulindir landsins. Hundruð þúsunda saklausra borgarar hafa fallið og landið er alveg í rúst.

Í þessu tilfelli hefði verið gott ef bandaríska þjóðin hefði áttað sig á því hvað er stór glæpur og hvað er lítill og að þetta litla framhjáhaldsmál átti ekki erindi til þjóðarinnar og átti alls ekki að hafa áhrif á það hvernig heiminum (Bandaríkjunum) var stjórnað.

Mig grunar að margir hafi svipaðar tilfinningar í sambandi við Klaustursmálið.  En upptökur Báru sýndu ekki bara breiskleika Klaustursmanna, umbjóðenda 18% landsmanna.  Heldur líka heimsku og/eða illgirni sem fáir hafa heyrt frá sínum vinum, sama hvað þeir hafa orðið ölvaðir.  Ekki einu sinni á unglingsárum hafa þeir sem ég umgengst talað svona.

Að röflinu slepptu

Svo er hin hreina pólitíska hlið. Það kemur fram hvernig Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur skipta á milli sín embættum á vegum ríkisins.  Embættum sem ættu að vera í höndum sérfræðinga. Þetta sér maður allsstaðar. En sjaldan hefur fólk heyrt stjórnmálamenn segja þetta hreint út. Það er líka athyglisvert í hvaða tilgangi Gunnar Bragi réði annarsvegar Geir Haarde og hinsvegar Árna Þór (VG mann).  Geir var ráðinn til að Gunnar Bragi fengi líka sendiherrastöðu seinna, en Árni Þór var ráðinn til að þagga niður í stuðningsmönnum VG.  Gunnar Bragi vissi að hann fengi engin laun frá VG fyrir að ráða Árna Þór.  Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem eru í raun á móti spillingu í stjórnkerfinu en segja; „það er sami rassinn undir þessu öllu,“ og halda áfram að kjósa gömlu flokkana sína.

Af hverju Bára?

En í hverju felst hetjuskapur Báru? Það er enginn sérstakur hetjuskapur að ýta á upptökutakkann á símanum sínum og hanga yfir túristabæklingum í þrjá tíma.  Hetjuskapurinn er að stíga fram. Standa í báða fæturna og segja:  „Þetta gerði ég. Mér finnst þetta hafa verið rétt. Ég er tilbúin til að láta reyna á hvort mér verði refsað fyrir það.“

Það er mælikvarði á frelsi þjóða, hvernig farið er með uppljóstrara eins og Báru.  Ísland er með harða meiðyrðalöggjöf og bankaleynd og persónuvernd og flokkshollir embættismenn eru notuð til að verja valdastéttina í þjóðfélaginu fyrir því að óþægilegar fréttir komist út.  Þetta þurfa allir að hjálpa til að bæta.  Líka þeir sem vilja trúa því að þeirra flokkur sé rétti flokkurinn.

Upptaka Báru hjálpar okkur öllum að fá innsýn í hugarheim einstakra þingmanna og sýnir okkur muninn á þeim valkostum sem við höfum í kosningunum.  Það er mjög, mjög, mjög, mikilvægt.

Kveðja,

Reynir Eyvindsson, Akranesi.